Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1364, 128. löggjafarþing 671. mál: álbræðsla á Grundartanga (stækkun, skattlagning).
Lög nr. 85 26. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Heimilt er að semja um að stækkun verksmiðjunnar fari fram af hálfu sjálfstæðs hlutafélags er verður í eigu sömu aðila og Norðurál hf. Iðnaðarráðherra er heimilt að semja um að aðrir hluthafar komi að slíku félagi. Það félag skal háð sömu réttindum og skyldum og Norðurál hf.

2. gr.

     Á eftir orðunum „með möguleikum á aukinni framleiðslugetu“ í 2. gr. laganna kemur: í allt að 300.000 tonn af áli á ári.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
 1. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Þrátt fyrir breytingar, sem síðar kunna að verða á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, skal félagið greiða 18% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
  1. Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 75/1981, er lægra en 18% 1. október 2007 skal það hlutfall gilda um félagið. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en skal þó aldrei vera hærra en 18%.
  2. Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981 og A-liðar 2. gr., 6. tölul. 5. gr., sbr. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal 5% tekjuskattur lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögunum að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattári fyrir greiðslu arðs.
  3. Varanlegir rekstrarfjármunir vegna byggingar verksmiðjunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna endurbóta á verksmiðjunni, skulu flokkaðir í samræmi við 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981. Fyrningu skal hagað í samræmi við 5. tölul. þessarar greinar.
  4. Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa fleiri ára frá skattskyldum tekjum fram til 1. október 2007 skal sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu níu almanaksára.
  5. Félaginu skal óheimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár. Fé í fjárfestingarsjóði sem notað er til fjárfestinga í varanlegum fastafjármunum innan sex ára skal talið til skattskyldra tekna félagsins á því ári sem fjárfesting á sér stað. Þá skal félaginu heimilt að hraða afskriftum um þá fjárhæð sem tekin er úr fjárfestingarsjóði á því ári sem fjárfestingin á sér stað. Fé í fjárfestingarsjóði sem ekki hefur verið notað til fjárfestinga innan sex ára skal talið til skattskyldra tekna og skattlagt með skatthlutfalli því sem gilti þegar féð var lagt í fjárfestingarsjóðinn. Það sama skal gilda ef félaginu er slitið.
 2. Við 6. tölul. 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir er verða 3. og 4. málsl. og orðast svo: Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 3.749.000 þús. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 90 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í febrúar 2003 (285 stig). Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 2.011.000 þús. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 60 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í febrúar 2003 (285 stig).
 3. Við 6. tölul. 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Fasteignaskattur skv. 3. málsl. skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugetan er komin í u.þ.b. 180 þús. lesta álframleiðslu á ári. Fasteignaskattur skv. 4. málsl. skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugetan er komin í u.þ.b. 240 þús. lesta álframleiðslu á ári.
 4. Við 1. mgr. bætast tveir nýir töluliðir sem orðast svo:
  1. Félagið skal undanþegið ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
  2. Hafnarsjóði Grundartangahafnar er heimilt að gera sérstakan samning um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum, sbr. hafnarreglugerð og hafnagjaldskrá sem settar eru á grundvelli þeirra.
 5. Við bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
 6.      Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi, en ákvæði a-liðar 3. gr. kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2009.

Samþykkt á Alþingi 13. mars 2003.