Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1394, 128. löggjafarþing 544. mál: Orkustofnun (heildarlög).
Lög nr. 87 26. mars 2003.

Lög um Orkustofnun.


1. gr.

     Orkustofnun er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.

2. gr.

     Hlutverk Orkustofnunar er:
 1. að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um orkumál og önnur auðlindamál sem stofnuninni eru falin með lögum og veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um þau mál,
 2. að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra,
 3. að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings,
 4. að vinna að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og hafsbotnsins,
 5. að stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum,
 6. að fylgjast í umboði ráðherra með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin eru út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja,
 7. að annast umsýslu Orkusjóðs.

     Orkustofnun skal enn fremur annast önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
     Orkustofnun er heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um framkvæmd skilgreindra verkefna, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. Leita skal staðfestingar ráðherra á samningum sem gerðir eru til lengri tíma en tveggja ára.
     Orkustofnun er heimilt að hafa samvinnu við stofnanir eða fyrirtæki um þjónustustarfsemi, svo sem rekstur húsnæðis, símvörslu, tölvuþjónustu o.fl.

3. gr.

     Starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar skal rekin sem sjálfstæð eining og vera fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Skal einingin standa undir þeim kostnaði sem af starfsemi hennar hlýst með sölu á þjónustu.
     Í reikningum og fjárveitingum til Orkustofnunar skal sérgreina það fé sem varið er til rannsókna skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. Jafnframt skal fé sem varið er til kaupa á þjónustu vatnamælinga sérgreint.

4. gr.

     Orkustofnun skal gera framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn um þau verkefni sem stofnunin vinnur að skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. Skal hún endurskoðuð árlega og lögð fyrir ráðherra til staðfestingar.

5. gr.

     Ráðherra skipar forstöðumann Orkustofnunar til fimm ára í senn. Nefnist hann orkumálastjóri. Orkumálastjóri fer með stjórn og daglegan rekstur Orkustofnunar. Orkumálastjóri ræður annað starfslið stofnunarinnar.

6. gr.

     Hjá Orkustofnun skal starfa orkuráð. Ráðherra skipar fimm menn í orkuráð til fjögurra ára í senn. Verkefni orkuráðs skulu m.a. fólgin í ráðgjöf við framkvæmd verkefna skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. og að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Um starfssvið orkuráðs skal nánar mælt í reglugerð.

7. gr.

     Ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með rannsóknum og áætlunargerð sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins skal framkvæmdaraðili endurgreiða Orkustofnun þann kostnað þegar honum er veitt virkjunar- eða nýtingarleyfi. Kostnaðarliðir skulu framreiknaðir með vísitölu neysluverðs til gjalddaga. Orkustofnun skal leggja fram rökstudda greinargerð um endurgreiðslukröfu í hverju tilviki. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal hann lagður í gerð þriggja manna að kröfu annars aðila eða beggja á grundvelli laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Endurgreiðslu skal að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Endurgreiddu fé skal varið til að fjármagna rannsóknir á orkulindum landsins sem gerðar eru skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga þessara.

8. gr.

     Orkusjóður er eign ríkisins og ber það ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum iðnaðarráðherra. Orkustofnun annast daglega umsýslu Orkusjóðs.
     Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta skal gert með því:
 1. að veita lán til að leita að jarðvarma þar sem hagkvæmt þykir til að draga úr kostnaði þjóðfélagsins við upphitun húsnæðis,
 2. að veita styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar til rannsóknar og nýtingar orkulinda,
 3. að veita styrki til sérstakra verkefna á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi,
 4. að veita styrki til verkefna sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni.

     Orkusjóði er ekki heimilt að veita Orkustofnun styrki eða lán af fé sjóðsins.
     Tekjur Orkusjóðs eru:
 1. vextir af fé sjóðsins,
 2. fé það sem veitt er í fjárlögum hverju sinni.

     Heimilt er að semja við aðila, sem hafa leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins.
     Orkuráð skal gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
     Í reglugerð skal mæla nánar fyrir um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, undirbúning úthlutunar, lánveitingar, þ.m.t. um vexti og önnur útlánakjör, greiðslur, eftirlit með framkvæmdum sem Orkusjóður veitir fé til og heimildir til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka.

9. gr.

     Ráðherra getur í reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi Orkustofnunar og framkvæmd laga þessara.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. júlí 2003.
     I. kafli orkulaga, nr. 58/1967, og lög nr. 49/1999, um Orkusjóð, falla brott 1. júlí 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Iðnaðarráðherra ákveður í samráði við Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir hvaða eignir og skuldir Orkustofnunar skuli tilheyra hvorri stofnun. Þó skulu allar rannsóknaniðurstöður og gagnasöfn sem fjármögnuð hafa verið með opinberu fé áfram vera eign Orkustofnunar.

Samþykkt á Alþingi 14. mars 2003.