Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 331, 130. löggjafarþing 111. mál: lax- og silungsveiði o.fl. (staðfesting bráðabirgðalaga).
Lög nr. 116 11. nóvember 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð:
      Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.

2. gr.

     Á eftir orðunum „á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar“ í 1. mgr. 62. gr. laganna kemur: eða fyrirhugaðar eldistegundir eða eldisaðferðir.

3. gr.

     Við 76. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Notkun flutningstækja og búnaðar sem tengdur er þeim skal háð skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.

4. gr.

     79. gr. laganna orðast svo:
     Um innflutning lifandi laxfiska og annarra fiska er lifa í ósöltu vatni, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrogna og svilja, gilda 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra.
     Um notkun slíkra innfluttra fiska til fiskeldis, fiskræktar eða hafbeitar gilda ákvæði IV. og IX. kafla laga þessara.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð:
      Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.

6. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem verða 2. og 3. mgr. og orðast svo:
     Þrátt fyrir innflutningsbann skv. 1. mgr. er heimilt að flytja til landsins lifandi fisk, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrogn og svil, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð til eldis í eldisstöð, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerða sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum umsögnum embættis yfirdýralæknis, fisksjúkdómanefndar, Veiðimálastofnunar og erfðanefndar landbúnaðarins. Við innflutning skal framvísa skriflegri staðfestingu yfirdýralæknis á að uppfyllt séu skilyrði samkvæmt þessu ákvæði.
     Landbúnaðarráðherra er heimilt, að fengnu vísindalegu áliti Veiðimálastofnunar, að takmarka eða banna innflutning á lifandi laxfiskum, óháð þroskastigi, þ.m.t. hrognum og sviljum, ef ljóst má vera að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum duga ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun slíkra laxfiska við staðbundna náttúrulega stofna sem ógnað gæti líffræðilegri fjölbreytni og stefnt náttúrulegu stofnunum í hættu.

7. gr.

     Á eftir orðunum „afla umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands“ í 5. gr. laganna kemur: erfðanefndar landbúnaðarins.

8. gr.

     1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
     Einangra skal öll innflutt dýr og erfðaefni, að undanskildum eldisdýrum skv. 2. mgr. 2. gr., á sóttvarnastöð svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á undir stöðugu eftirliti sóttvarnardýralæknis stöðvarinnar.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: bann við innflutningi eða útflutningi.
  2. Við 2. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: bann við innflutningi eða útflutningi.


10. gr.

     Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra er í samráði við embætti yfirdýralæknis jafnframt heimilt að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna dýra og afurða þeirra, til lengri eða skemmri tíma, til tiltekins lands eða landsvæðis telji hann að slíkur flutningur valdi eða sé líklegur til að valda útbreiðslu sjúkdóma.

11. gr.

     Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra skal setja sérstaka reglugerð um innflutning og útflutning eldisdýra og afurða þeirra til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. nóvember 2003.