Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1510, 130. löggjafarþing 736. mál: frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES (frestun á gildistöku reglugerðar).
Lög nr. 19 28. apríl 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

1. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt síðari breytingum, taka þó ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands fyrr en 1. maí 2006. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara skv. 10. og 11. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

2. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði a-liðar 14. gr. tekur þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands til að starfa hér á landi fyrr en 1. maí 2006, sbr. þó lög nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2004.

Samþykkt á Alþingi 27. apríl 2004.