Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1567, 130. löggjafarþing 749. mál: útlendingar (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.).
Lög nr. 20 30. apríl 2004.

Lög um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingu.


1. gr.

     1. og 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Dvalarleyfi, sem veitt er í fyrsta sinn, skal að jafnaði gefið út til eins árs. Heimilt er að víkja frá þessu ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Um gildistíma dvalarleyfis sem gefið er út vegna komu flóttamannahópa gilda sérreglur, sbr. 51. gr.
     Umsókn um dvalarleyfi skv. 1. mgr. skal hafa verið samþykkt áður en útlendingur kemur til landsins. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki og samvistarmaki eldri en 24 ára, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.
  3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir hann þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.


3. gr.

     Við 2. mgr. 18. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Heimilt er að synja til bráðabirgða útlendingi inngöngu í landið innan þess frests. Sú ákvörðun sætir ekki kæru.

4. gr.

     Í stað orðsins „þriggja“ í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: níu.

5. gr.

      Í stað orðanna „hann hefur brotið“ í a-lið 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: hann dvelur ólöglega í landinu, hefur brotið.

6. gr.

     Í stað orðanna „samkvæmt Dyflinnarsamningnum frá 15. júní 1990“ í 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: á grundvelli samnings milli Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
  1. Orðin „eftir því sem við á“ í 3. mgr. falla brott.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir ef rökstuddur grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis eða ekki með vilja beggja, sbr. 3. mgr. 13. gr.
  3. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, 4. og 8. mgr., svohljóðandi:
  4.      Leit skal ákveðin með úrskurði dómara nema sá sem í hlut á samþykki hana eða brýn hætta sé á að bið eftir úrskurði dómara valdi sakarspjöllum.
         Við ákvörðun um veitingu dvalarleyfis hefur Útlendingastofnun heimild til að fara fram á að umsækjandi um dvalarleyfi skv. 1. mgr. 13. gr. eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis í því skyni, til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða skv. 2. mgr. 13. gr., ef fyrirliggjandi gögn í því efni eru ekki talin veita fullnægjandi sönnun um skyldleikann.


8. gr.

     Á eftir orðunum „greinir í 2. málsl.“ í 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: þegar kærð er synjun, sem byggð er á d- og e-lið 1. mgr. 46. gr., á meðferð umsóknar um hæli.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
  1. Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: eða búsetuleyfi hér á landi.
  2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Dvalarleyfi og búsetuleyfi.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  2.      Um skilyrði fyrir útgáfu búsetuleyfis EES-útlendings gilda ákvæði 15. gr.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skilyrði dvalarleyfis og búsetuleyfis.


11. gr.

     Orðin „að jafnaði“ í 2. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna falla brott.

12. gr.

     E-liður 1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo: krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samnings Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins, um að taka við.

13. gr.

     Við 1. mgr. 47. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um barn flóttamanns sem er fætt eftir komu hans til landsins.

14. gr.

     Við 1. málsl. 3. mgr. 51. gr. laganna bætist: til þriggja ára sem ekki er háð takmörkunum.

15. gr.

      Við 1. mgr. 56. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu samkvæmt ákvæði þessu.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
  1. E-liður 2. mgr. orðast svo: af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki eða.
  2. F-liður 2. mgr. orðast svo: af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að koma ólöglega hingað til lands eða annars ríkis eða.
  3. Við 2. mgr. bætast tveir nýir stafliðir er orðast svo:
    1. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aflar eða reynir að afla dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar skv. 3. mgr. 13. gr. eða
    2. hefur í vörslum sínum falsað vegabréf, fölsuð skilríki eða falsaða vegabréfsáritun.
  4. 3. mgr. orðast svo:
  5.      Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum að standa að skipulagðri starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis, hvort sem starfsemin er rekin í hagnaðarskyni eða ekki.


17. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna tekur ekki gildi fyrir ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands fyrr en 1. maí 2006. Til sama tíma gilda ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit og ákvæði 4. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES-útlendings til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins ekki um launþega frá þessum ríkjum.

18. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2004.

Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2004.