Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1137, 130. löggjafarþing 552. mál: Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra (gjaldtaka o.fl.).
Lög nr. 21 23. mars 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 18/1984, um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingu.


1. gr.

     1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Stofnunin skal annast hvers konar þjónustu við sjónskerta sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar, svo sem sjúkdómsgreiningu, mælingu, úthlutun sérhæfðra hjálpartækja, þjálfun og hvers konar endurhæfingu sem sjónskertir þurfa á að halda. Heimilt er að veita sjónskertum sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar sömu þjónustu gegn gjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr.

2. gr.

     2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skal setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta að höfðu samráði við stofnunina.

3. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar skal greiða gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar og reglum settum með stoð í þeim lögum.
     Einstaklingur sem ekki er sjúkratryggður hér á landi skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2004.