Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1496, 130. löggjafarþing 162. mál: varnir gegn mengun hafs og stranda (heildarlög).
Lög nr. 33 7. maí 2004.

Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda.
     Þá er það markmið laganna að eftir mengunaróhapp verði umhverfið fært til fyrra horfs.

2. gr.

Gildissvið.
     Lögin taka til hvers konar starfsemi sem tengist atvinnurekstri, framkvæmdum, skipum og loftförum, hér á landi, í lofthelgi, í landhelgi og í mengunarlögsögu Íslands, og hefur eða getur haft áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr. að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.
     Lögin gilda einnig um íslensk skip utan mengunarlögsögu Íslands eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum.
     Undanþegnar lögum þessum eru aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að vernda mannslíf eða tryggja öryggi, svo og aðgerðir sem kunna að vera nauðsynlegar vegna óviðráðanlegra ytri atvika.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu er hér greinir:
 1. Besta fáanleg tækni: Framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tæknin nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins, svo og starfrækslu hans. Með „fáanlegri tækni“ er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með „bestu“ er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins gegn mengun.
 2. Bráðamengun: Mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða.
 3. Fljótandi efni: Vökvar með lægri gufuþrýsting en 2,8 kg/sm2 við 37,8°C.
 4. Flutningur olíu, hættulegra efna og eiturefna: Flutningar á efnum sem falla undir ákvæði alþjóðasamþykktar um sjóflutninga á hættulegum varningi, IMDG-kóðann, um sjóflutninga á hættulegum efnum í farmgeymum skipa, IBC-kóðann, um flutning á olíu í farmgeymum skipa, eða ADR-reglur um flutning á hættulegum farmi á vegum, þ.e. þeim efnum sem falla undir viðauka I, II og III í MARPOL-samningnum, þegar þau eru flutt sem farmur í skipum, og efnum sem flokkuð eru sem hættuleg á landi.
 5. Hafnarsvæði: Umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld á hverjum stað annast og skilgreint er í hafnalögum og hafnarreglugerðum.
 6. Kjölfestuvatn: Vatn, ásamt uppleysanlegum efnum og gruggi, sem er tekið um borð í skip í því skyni að stjórna styrk, halla, kjölristu, stöðugleika eða álagi skips.
 7. Losun: Þegar vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi er hleypt í sjóinn fljótandi eða föstum efnum sem tengjast eðlilegri starfsemi. Eftirfarandi telst ekki losun:
  1. að koma fyrir efnum eða hlutum í hafinu í öðrum lögmætum tilgangi en að farga þeim,
  2. þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið,
  3. að kasta í hafið óunnum fiski og fiskúrgangi og öðrum sjávarlífverum vegna veiða og vinnslu.
 8. Lýsi og grútur: Allar tegundir feitmetis sem unnið er eða kemur úr sjávarlífverum og niðurbrotsefni þeirra.
 9. Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
 10. Mengunarlögsaga Íslands: Hafsvæðið frá ytri mörkum landhelginnar að ytri mörkum efnahagslögsögunnar og landgrunnsins og efstu jarðlög, sbr. lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
 11. Mengunartjón: Tjón eða skaði sem hlýst af mengun hafs og stranda hvar sem slík mengun kann að eiga sér stað og af hvers konar völdum sem hún er. Mengunartjón tekur einnig til kostnaðar vegna ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón, frekara tjón eða skaða sem hlýst af slíkum ráðstöfunum.
 12. Netlög: Sjávarbelti 115 m frá stórstraumsfjöruborði.
 13. Olía: Vökvakennd olíuefni í hvaða formi sem er, þ.m.t. hráolía, svartolía, smurolía, jurtaolía, olíuúrgangur og unnin olía.
 14. Olíuflutningaskip: Skip sem er smíðað eða breytt og aðallega er ætlað til að flytja olíu í lausu í farmrýmum, þ.m.t. fjölnota skip og sérhvert efnaflutningaskip, eins og það er skilgreint í viðauka II við MARPOL-samninginn, þegar það flytur olíufarm eða hluta af olíufarmi í lausu.
 15. Óvinnsluhæfur rekstrarúrgangur: Rekstrarúrgangur, þ.m.t. umbúðir farms, að undanskildum ferskum fiski og fiskúrgangi, sem til fellur við eðlilega starfsemi skipa, palla og annarra mannvirkja á hafi úti og þarf stöðugt eða öðru hvoru að losna við.
 16. Rekstrarúrgangur: Úrgangur frá framleiðslu, t.d. pappír, pappi, umbúðir og umbúðaefni, gler, timbur, málmar, leifar frá framleiðslu og þess háttar.
 17. Sérhafsvæði: Hafsvæði sem tilteknar reglur um varnir gegn mengun hafs og stranda gilda um, svo sem vegna sérstakra umhverfisaðstæðna, í samræmi við gildandi alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar sem Ísland er aðili að.
 18. Skipaviðgerðarstöð: Aðstaða þar sem skip eru tekin á land, svo sem slippur eða flotkví.
 19. Skolp frá skipum: Frárennsli eða annar fljótandi úrgangur frá salernum, eldhúsum, þvottahúsum og böðum, þ.m.t. annað vatn sem blandað er við það áður en til útrásar kemur.
 20. Sorp frá skipum: Hvers kyns neysluúrgangur frá skipum, svo sem alls konar matarleifar og úrgangur frá vistarverum, svo og óvinnsluhæfur rekstrarúrgangur.
 21. Strönd: Svæði milli hæstu og lægstu sjávarstöðu.
 22. Umhverfi: samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.
 23. Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.
 24. Varp: Þegar efnum eða hlutum er vísvitandi eða af gáleysi fleygt í hafið frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum, þ.m.t. þegar skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum er sökkt í hafið, þ.e. allt sem ekki er losun. Eftirfarandi telst ekki varp:
  1. að koma fyrir efnum eða hlutum í hafinu í öðrum lögmætum tilgangi en að farga þeim,
  2. þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið,
  3. að kasta óunnum fiski og fiskúrgangi og öðrum sjávarlífverum vegna veiða og vinnslu í hafið.
 25. Vöktun: Kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.


II. KAFLI
Stjórn og skipan.

4. gr.

Yfirstjórn og eftirlitsaðilar.
     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögunum.
     Umhverfisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laganna að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögunum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela tiltekna þætti eftirlitsins, sem undir stofnunina heyra, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna eða faggiltum skoðunaraðilum í umboði stofnunarinnar. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn faggilta skoðunaraðila eða við hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlit eftir því sem við á. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd framkvæmd þvingunarúrræða samhliða eftirliti.
     Umhverfisstofnun skal sjá um að mengun hafs og stranda sé vöktuð.
     Umhverfisstofnun skal sjá um gerð fræðsluefnis og fræða þá sem starfa að þessum málum og gefa út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur.
     Landhelgisgæsla Íslands, undir yfirstjórn dómsmálaráðherra, annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöldum um svæði þar sem mengun getur borist á land ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs eða stranda. Siglingastofnun Íslands, undir yfirstjórn samgönguráðherra, annast eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna, sbr. lög um eftirlit með skipum.

5. gr.

Ráðgjafaraðilar.
     Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Hafrannsóknastofnunin, landlæknisembættið, Siglingastofnun Íslands, heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna, Landhelgisgæsla Íslands, hafnarstjórnir, ríkislögreglustjóri og Geislavarnir ríkisins eru ráðherra til ráðgjafar um þau atriði sem að lögum þessum lúta og heyra undir starfsemi þeirra.

III. KAFLI
Framkvæmd almennra ákvæða laganna.

6. gr.

Reglugerðir um verndun hafs og stranda.
     Umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, og eftir því sem við á í samráði við dómsmálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, samgönguráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, í reglugerðir almenn ákvæði um:
 1. losun olíu og olíublandaðs vatns í hafið frá skipum utan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar, þ.m.t. á sérhafsvæðum, svo og frá pöllum og öðrum mannvirkjum í mengunarlögsögu Íslands utan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar,
 2. takmörkun á olíumagni í fráveituvatni sem heimilt er að leiða til sjávar,
 3. bestu fáanlegu tækni við mengunarvarnir og bestu umhverfisvenjur þar sem slíkt hefur verið skilgreint,
 4. búnað skipa, palla, annarra mannvirkja á hafi úti og fyrirtækja í landi til varnar gegn mengun hafs og stranda af völdum olíu og um eftirlit með þessum búnaði,
 5. söfnun og eyðingu úrgangsolíu, þar á meðal móttöku olíuúrgangs frá skipum í höfnum,
 6. takmörkun eða bann við losun lýsis og grútar,
 7. flokkun fljótandi efna sem flutt eru í farmgeymum skipa til eða frá íslenskum höfnum, svo og ákvæði um takmörkun á losun þeirra efna, sem hættuleg eru talin, í hafið utan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar,
 8. flokkun efna sem notuð eru til mengunarvarna samkvæmt lögum þessum,
 9. losun á skolpi í hafið frá skipum, pöllum og öðrum mannvirkjum á hafi úti,
 10. meðferð og losun sorps frá skipum á hafsvæði utan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar,
 11. móttöku og meðferð úrgangs frá skipum,
 12. móttökuaðstöðu fyrir skolp frá skipum og annan úrgang sem ekki er talinn upp hér að framan og eyðingu þess,
 13. takmörkun eða bann við losun kjölfestuvatns frá öðrum hafsvæðum til að koma í veg fyrir að framandi lífverur berist til landsins,
 14. bann eða takmörkun á losun þeirra efna í hafið frá landi sem upp eru talin í viðauka II með lögum þessum,
 15. varp efna og hluta í hafið,
 16. hvernig staðið skuli að lagningu sæstrengja, neðansjávarleiðslna og hvers konar mannvirkja á hafsbotni,
 17. vöktun og mælingar, svo sem til þess að fylgjast með hugsanlegum breytingum á mengun hafsins og hvaða rannsóknir og mælingar á mengunarefnum í hafinu, í sjávarlífverum og á hafsbotni skuli fara fram,
 18. starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem fellur undir lög þessi,
 19. flutning hættulegs varnings með skipum þar sem heimilt er að vísa til erlendrar frumútgáfu efnalista og staðla sem hlotið hafa samþykki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar,
 20. varnir og viðbrögð við bráðamengun, rekstur mengunarvarnabúnaðar, upplýsingaskyldu og skyldu eftirlitsaðila til samvinnu,
 21. eftirlit, skráningu og tilkynningarskyldu,
 22. bann eða takmörkun á mengun frá skipum, pöllum og öðrum mannvirkjum á sjó eða landstöðvum í samræmi við þá viðauka MARPOL-samningsins og aðra alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að,
 23. ábyrgðir og tryggingar vegna atvinnustarfsemi sem ber hlutlæga ábyrgð á bráðamengun í samræmi við ákvæði gildandi laga,
 24. umskipun efna, sbr. viðauka II, innan mengunarlögsögu Íslands,
 25. önnur sambærileg atriði.

     Í reglugerðum sem ráðherra setur samkvæmt lögum þessum er heimilt að vísa í gildandi staðla.
     Leita skal umsagnar aðila atvinnulífsins og landssamtaka um umhverfisvernd áður en reglugerðir eru settar.
     Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og ef við á Landhelgisgæslu Íslands og Siglingastofnunar Íslands, veitt tímabundna undanþágu frá einstökum greinum reglugerða sem settar eru samkvæmt þessari grein, en þó ekki lengur en eitt ár í senn.

7. gr.

Um ábyrgð einstaklinga og lögaðila.
     Hver sá sem veldur mengun í mengunarlögsögu Íslands ber ábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum á því tjóni sem rakið verður til mengunarinnar. Eigendum skipa er þó heimilt að takmarka fjárhagslega ábyrgð sína í samræmi við gildandi lagaákvæði.
     Ef hætta er á mengun hafs og stranda skal sá sem ber ábyrgð á menguninni gera allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir hana eða draga úr henni. Hann ber einnig ábyrgð á því tjóni sem aðgerðir hans eða aðgerðaleysi valda öðrum.
     Þeim sem annast dreifingu og sölu á olíu er skylt að taka við olíuúrgangi frá skipum og frá starfsemi í landi, einum eða í samvinnu við einstaklinga eða fyrirtæki sem til þess hafa leyfi Umhverfisstofnunar, og tryggja viðunandi eyðingu. Eigendur eða umráðamenn hleðslustöðva fyrir olíuflutningaskip og skipaviðgerðarstöðva skulu sjá um að stöðvarnar hafi aðstöðu til að taka við olíublandaðri kjölfestu og öðrum úrgangi sem er eftir í skipinu þegar það kemur til stöðvarinnar til geymslu eða flutnings. Móttökuaðstaðan skal fullnægja ákvæðum alþjóðasamninga, sem Ísland er aðili að, um varnir gegn mengun hafs og stranda. Sérhver aðili í landi, sem þarf árlega að koma fyrir meira en 500 lítrum af olíuúrgangi vegna eigin notkunar á olíu, skal halda sérstakt bókhald um söfnun og afhendingu olíuúrgangs til móttakenda, og skulu starfsmenn Umhverfisstofnunar jafnan hafa greiðan aðgang að þessu bókhaldi.

8. gr.

Bann við losun í hafið.
     Losun olíu í hafið frá skipum, svo og frá pöllum og öðrum mannvirkjum, hvort sem er beint eða óbeint, er óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar, nema um sé að ræða olíublandað vatn sem leiðir af eðlilegum rekstri. Olíumagn blöndu við útrás skal að hámarki vera 15 hlutar í 1.000.000 hlutum blöndunnar. Olíublandað fráveituvatn sem losað er í sjó skal leitt um olíuskilju sem uppfyllir gildandi staðla.
     Losun lýsis eða grútar í hafið er óheimil á innsævi. Við löndun fisks með dælingu úr skipum, svo og við vinnslu fisks í landi, skal vinnsluaðili sjá um að ekki verði mengun í hafi eða á ströndum vegna losunar á lýsi eða grút.
     Losun fljótandi efna frá skipum er að öðru leyti óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Losun ómengaðs vatns og sjávar er heimil.
     Óheimilt er að losa sorp frá skipum og óvinnsluhæfan rekstrarúrgang í hafið innan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Óheimilt er að losa í hafið þrávirk gerviefni sem fljóta eða mara í hafinu, þ.m.t. plastílát, kaðla og net.
     Losun skolps frá skipum er óheimil á hafnarsvæðum og innan netlaga. Um losun skolps utan netlaga fer samkvæmt reglugerð settri skv. 6. gr.
     Ráðherra er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og ef við á hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar að veita undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar. Heimilt er að binda undanþáguna skilyrðum, svo sem um að hreinsun fari fram.

9. gr.

Varp efna og lagning sæstrengja og neðansjávarleiðslna.
     Varp efna og hluta í hafið er óheimilt. Umhverfisstofnun getur, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, veitt leyfi til að eftirtöldum efnum og hlutum sé varpað í hafið:
 1. dýpkunarefnum,
 2. náttúrulegum, óvirkum efnum, þ.e. föstum jarðefnum sem ekki hafa verið unnin efnafræðilega og samsett eru úr efnum sem ólíklegt er að losni út í hafsvæðið,
 3. fiskúrgangi frá fiskverkunarstöðvum í landi, enda standi sérstaklega á.

     Lagning sæstrengja og neðansjávarleiðslna er háð samþykki Umhverfisstofnunar.

10. gr.

Brennsla úrgangsefna á hafi úti.
     Óheimilt er að brenna úrgang eða önnur efni á hafi úti. Heimilt er þó að brenna eigið sorp í þar til gerðum ofnum í samræmi við reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar þar sem tekið skal tillit til ákvæða í gildandi samningum um brennslu úrgangsefna á hafi úti og þeirra áhrifa sem brennslan hefur á umhverfið.

11. gr.

Móttaka úrgangs og skolps í höfnum.
     Hafnarstjórn skal koma upp eða tryggja rekstur viðunandi aðstöðu í höfnum fyrir móttöku á úrgangi frá skipum og skal taka mið af leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
     Í höfnum skal hafnarstjórn koma upp móttöku fyrir skolp. Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá móttöku skolps þar sem hafnir eru litlar og þjónusta er fyrir hendi í nærliggjandi höfn. Hafnarstjórn er heimilt að innheimta gjöld fyrir móttöku úrgangs og skolps í höfnum og setja gjaldskrá þar að lútandi. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til við veitingu þjónustunnar.

12. gr.

Tilkynningarskylda.
     Eigendur skipa eða skipstjórnarmenn og eigendur eða rekstraraðilar vinnu- og borpalla á hafi úti og fyrirtækja í landi skulu tafarlaust tilkynna stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands um alla losun, varp og mengun sem lög þessi ná til innan mengunarlögsögu Íslands, sem og á strendur, nema um sé að ræða varp og losun sem sérstaklega er heimil samkvæmt lögunum. Tilkynningarskyldan nær einnig til íslenskra skipa utan mengunarlögsögu Íslands eftir því sem við á og Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum. Landhelgisgæslan skal framsenda tilkynningar svo fljótt sem auðið er til Umhverfisstofnunar.
     Skip sem flytja olíu og/eða hættulegan varning innan mengunarlögsögu Íslands skulu senda vaktstöð siglinga, sbr. lög um vaktstöð siglinga, tilkynningar um eftirtalin atriði sem lúta að farmi, komu, brottför og ferðum innan mengunarlögsögu Íslands:
 1. um magn og tegund farms,
 2. með sex klukkustunda fyrirvara um komu í og siglingu út úr mengunarlögsögunni, svo og um staðsetningu,
 3. meðan á siglingu þeirra í mengunarlögsögunni stendur, á sex klukkustunda fresti, um staðsetningu, stefnu og hraða,
 4. með þriggja klukkustunda fyrirvara um komu í og brottför úr höfn.

     Vaktstöð siglinga skal miðla tilkynningum skv. 2. mgr. til Landhelgisgæslunnar.

IV. KAFLI
Bráðamengun.

13. gr.

Svæðisráð vegna bráðamengunar.
     Landið skiptist í viðbragðssvæði vegna bráðamengunar og skal svæðisráð starfa á hverju svæði til fjögurra ára í senn. Sveitarstjórnir á viðkomandi svæði kjósa í svæðisráð og í hverju svæðisráði skulu m.a. eiga sæti heilbrigðisfulltrúi, slökkviliðsstjóri og hafnarstjóri. Þar að auki skal einn fulltrúi sitja í svæðisráðinu tilnefndur af fulltrúum atvinnurekenda á svæðinu. Ráðið skiptir með sér verkum.
     Hlutverk svæðisráðs er:
 1. umsjón, rekstur og viðhald búnaðar í eigu hafnanna,
 2. að fræða starfsmenn viðkomandi hafna um viðbúnað við bráðamengun í samráði við Umhverfisstofnun,
 3. að sjá um æfingu og þjálfun í viðbrögðum,
 4. að vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um aðgerðir vegna bráðamengunar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim,
 5. að fara á vettvang og meta aðstæður í samráði við Umhverfisstofnun eftir að mengun hefur orðið.

     Kostnaður af rekstri svæðisráða skal borinn af sveitarstjórnum.
     Ráðherra ákveður í reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, fjölda viðbragðssvæða og mörk þeirra og flokkun hafna með hliðsjón af mengunarvarnabúnaði, svo og nánara verksvið svæðisráða. Umhverfisstofnun annast samræmingu milli svæða og ber ríkissjóður kostnað af samræmingunni.

14. gr.

Framkvæmd og stjórn á vettvangi.
     Um framkvæmd og stjórn á vettvangi gildir eftirfarandi:
 1. Mengun innan hafnarsvæða: Hafnarstjóri ber ábyrgð á og annast aðgerðir vegna mengunar innan hafnarsvæðisins og ber honum að grípa til hreinsunar og annarra viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara tjón vegna bráðamengunar. Hafnarstjóra ber að tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og vart verður við hana. Heilbrigðisfulltrúi, í umboði heilbrigðisnefndar, hefur eftirlit með hreinsunaraðgerðum og ákveður í samráði við Umhverfisstofnun hvenær árangur af hreinsun er nægur. Hafnarstjóri getur kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnuninni heimilt að hlutast til um þær.
 2. Mengun utan hafnarsvæða: Þegar tilkynning berst um bráðamengun við strendur skal hlutaðeigandi heilbrigðisfulltrúi í umboði Umhverfisstofnunar fara á vettvang og meta umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir og tilkynna Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi. Umhverfisstofnun ber kostnað af störfum heilbrigðisfulltrúa í þessu tilviki. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Umhverfisstofnun, Siglingastofnun Íslands og Landhelgisgæsla Íslands skulu gera skriflega aðgerðaáætlun um aðkomu stofnananna og um framkvæmd einstakra verkþátta.

     Heimilt er að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar. Í slíkum tilvikum verður mengunarvaldurinn að leggja fram áætlun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni.
     Sé talið að mönnum geti stafað hætta af menguninni ber að tilkynna landlækni það tafarlaust.
     Sé mengunin þess eðlis að hún geti valdið hættu fyrir íbúa eða eignir skulu aðgerðir framkvæmdar í samráði við viðkomandi lögreglustjóra.
     Heimilt er að fela slökkviliðsstjóra stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp með sérstökum samningi eða í einstökum tilvikum þegar við á.

15. gr.

Íhlutun vegna bráðamengunar.
     Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að grípa til íhlutunar og gera þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar á hafsvæðinu innan mengunarlögsögu Íslands til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu sem hafi eða ströndum stafar af bráðamengun. Í íhlutun felst m.a. yfirtaka á stjórn skips sé fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands ekki fylgt. Þetta gildir þó ekki um skip sem eru í rekstri erlendra ríkja og notuð í þjónustu ríkisvalds hlutaðeigandi ríkis við störf sem flokkast ekki undir verslunarviðskipti.
     Eftir því sem unnt er og þörf krefur skal Landhelgisgæsla Íslands hafa samráð við Umhverfisstofnun og hafnarstjóra þegar gripið er til íhlutunar.
     Þegar mengun hefur orðið á hafi úti skal Umhverfisstofnun grípa til aðgerða. Þegar hætta er talin á að mengun muni hljótast af strandi skips eða frá starfsemi á landi eða á hafi skal Umhverfisstofnun gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á mengun.

16. gr.

Vátryggingar.
     Mengunarvaldur er ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanns hans, sé mengunin af völdum flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum eða atvinnustarfsemi sem talin er upp í a-lið viðauka I. Þessi ábyrgð tekur til tjóns sem nemur allt að 1 milljón SDR. Þeir sem flytja olíu, eiturefni eða hættuleg efni eða stunda atvinnustarfsemi sem talin er upp í a-lið viðauka I skulu taka ábyrgðartryggingu eða leggja fram aðra fullnægjandi tryggingu sem Umhverfisstofnun metur gilda, allt að 1 milljón SDR, svo sem nánar er tilgreint í reglugerð og skal vátryggingarfjárhæðin nema sömu fjárhæð. Nánari ákvæði um vátrygginguna og gildissvið skulu sett í reglugerð. Um skaðabótaábyrgð umfram þessi mörk fer eftir almennum reglum skaðabótaréttarins.
     Mengunarvaldi ber að bregðast strax við og koma í veg fyrir frekari mengun. Mengunarvaldi er heimilt að sjá sjálfur um hreinsun og skal það þá gert í samræmi við áætlun sem Umhverfisstofnun samþykkir, sbr. 14. gr.
     Ábyrgð samkvæmt þessari grein sætir takmörkunum í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að eftir því sem lög kveða á um.

17. gr.

Vátryggingar olíuflutningaskipa.
     Auk ákvæða 16. gr. gilda um vátryggingu olíuflutningaskipa alþjóðasamningur um íhlutun á úthafinu þegar óhöpp verða sem valda eða geta valdið olíumengun, alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar og alþjóðasamningur um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar.

18. gr.

Viðbragðsáætlanir.
     Atvinnurekstur sem valdið getur mengun og talinn er upp í a-lið viðauka I skal gera áætlanir um viðbrögð vegna bráðamengunar og skulu þær liggja fyrir áður en starfsleyfi er gefið út. Slíkar áætlanir skulu byggjast á áhættumati sem tekur m.a. tillit til þátta sem fram koma í b-lið viðauka I og mælt er frekar fyrir um í reglugerð.
     Umhverfisstofnun gerir tillögu til ráðherra, að höfðu samráði við ráðgjafaraðila, sbr. 5. gr., um áætlanir um varnir og viðbrögð við bráðamengun.

19. gr.

Mengunarvarnabúnaður.
     Svæðisráð ber ábyrgð á geymslu og viðhaldi þess mengunarvarnabúnaðar sem til staðar er í höfnum landsins og endurnýjun á honum og tilnefnir umsjónarmann með búnaðinum og annan til vara.
     Umhverfisstofnun skal hafa yfir að ráða flytjanlegum mengunarvarnabúnaði til að takast á við óhöpp utan og innan hafnarsvæða eftir því sem þörf er á. Stofnunin ákveður í samráði við viðkomandi svæðisráð, eftir því sem fé fæst til í fjárlögum, uppbyggingu og endurnýjun á nauðsynlegum mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands.

20. gr.

Strönduð og sokkin skip, pallar eða önnur mannvirki.
     Hafi skip, pallar eða önnur mannvirki á sjó strandað þannig að þeim verði ekki komið á flot ber eiganda að fjarlægja þau sem fyrst og eigi síðar en sex mánuðum eftir strand. Hafi skip, pallar eða önnur mannvirki á sjó eða loftför sokkið getur Umhverfisstofnun krafist þess að þau verði fjarlægð. Telji eigandi ill- eða ógerlegt að fjarlægja strandað eða sokkið skip, pall, loftfar eða annað mannvirki er honum heimilt að leggja fram beiðni til Umhverfisstofnunar um að það skuli vera óhreyft þar sem það er. Slíkri beiðni skal fylgja áhættumat þar sem gerð er grein fyrir umhverfislegum ávinningi ásamt kostnaði við að fjarlægja hið sokkna skip, pall eða annað mannvirki. Við afgreiðslu málsins skal Umhverfisstofnun hafa samráð við viðkomandi sveitarfélag.

21. gr.

Gjaldskrá fyrir eftirlit vegna bráðamengunar og aðgerða til að draga úr slíkri mengun.
     Höfnum og svæðisráðum er heimilt að innheimta gjöld af mengunarvaldi á grunni gjaldskrár sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um greiðslu kostnaðar við starfsemi á vegum hafna vegna mengunar innan hafnarsvæða og við starfsemi svæðisráða vegna mengunar. Gjaldskráin skal lögð til grundvallar við uppgjör við Umhverfisstofnun vegna starfa á vegum svæðisráðs og hafna og afnota á mengunarvarnabúnaði í eigu hafna þegar stofnunin ber fjárhagslega ábyrgð á aðgerðum. Gjaldskráin skal m.a. taka til vinnuframlags, ferðakostnaðar og notkunar búnaðar. Gjaldskráin skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í eitt ár í viðkomandi skipi eða fasteign.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir eftirlit Umhverfisstofnunar vegna bráðamengunar og aðgerða til að draga úr slíkri mengun. Gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur tímagjaldi sérfræðings og ferðakostnaði hans. Þá skal ráðherra setja í gjaldskrá ákvæði um leigu mengunarvarnabúnaðar og skal gjaldið miðast við notkun, viðhaldskostnað og endurnýjun á tækjum. Umhverfisstofnun skal krefja mengunarvald um greiðslu í samræmi við gjaldskrá sé um að ræða mengun af völdum olíu, eiturefna eða hættulegra efna eða atvinnustarfsemi sem talin er upp í a-lið viðauka I. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í eitt ár eftir gjalddaga í viðkomandi skipi eða fasteign þegar eftirlitið er tengt notkun fasteignar. Gjaldskráin skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.
     Um gjaldtöku vegna aðgerða heilbrigðisnefnda fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

V. KAFLI
Þvingunarúrræði og refsiviðurlög.

22. gr.

Þvingunarúrræði.
     Til að knýja á um úrbætur samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim getur Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, þar sem það á við, beitt eftirfarandi aðgerðum:
 1. veitt áminningu,
 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun.

     Stöðvun starfsemi skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef úrbætur eru ekki gerðar innan tiltekins frests og er þá heimilt, ef með þarf, að leita aðstoðar lögreglu eða Landhelgisgæslu Íslands, eftir því sem við á. Sé um slík brot að ræða getur Umhverfisstofnun afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs. Ef starfsleyfið er gefið út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna skulu þær afturkalla starfsleyfið í samráði við Umhverfisstofnun.
     Telji Umhverfisstofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfsemi eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir, en tilkynna skal það hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.

23. gr.

Dagsektir.
     Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Umhverfisstofnun eða viðkomandi heilbrigðisnefnd, sbr. 2. mgr. 4. gr., ákveðið honum sektir allt að 500.000 kr. á dag þar til úr er bætt. Ráðherra getur í reglugerð breytt upphæð dagsekta í samræmi við verðlagsþróun. Jafnframt er Umhverfisstofnun eða viðkomandi heilbrigðisnefnd, sbr. 2. mgr. 4. gr., heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða úr ríkissjóði en innheimtur síðar hjá hlutaðeigandi. Greiðsla kostnaðar og dagsektir eru tryggðar með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð, farartæki, skipi eða mannvirki í eitt ár eftir að greiðslu er krafist.

24. gr.

Heimildir eftirlitsaðila.
     Umhverfisstofnun eða viðkomandi heilbrigðisnefnd, sbr. 2. mgr. 4. gr., getur látið fara fram athugun á skipum og vinnu- og borpöllum á hafi og hjá fyrirtækjum í landi án dómsúrskurðar ef talin er hætta á mengun hafs og stranda eða ef mengun hefur orðið sem er brot gegn lögum þessum. Umhverfisstofnun leitar aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands, hafnaryfirvalda, Siglingastofnunar Íslands, Geislavarna ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar og annarra opinberra aðila eftir því sem þörf krefur. Athugunin skal ekki valda ótilhlýðilegri röskun á starfsemi viðkomandi eða ónauðsynlegum útgjöldum.
     Eftirlitsaðilar skulu hvenær sem þeir óska þess eiga greiðan aðgang að öllum upplýsingum um búnað til mengunarvarna og um rekstur hans, svo og öllum mælingum eða skýrslum um athuganir sem gerðar hafa verið á vegum eigenda eða rekstraraðila vegna mengunarvarna, hvort sem athuganir þessar hafa verið gerðar að kröfu opinberra aðila eða að frumkvæði eigenda eða rekstraraðila.
     Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber þeim að afhenda sýni endurgjaldslaust sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits.

25. gr.

Refsiviðurlög.
     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau varða fangelsi allt að fjórum árum.
     Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

26. gr.

Sektir.
     Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot eða ef það stafar af ófullnægjandi tækjabúnaði eða verkstjórn.

27. gr.

Farbann.
     Ef brotið er gegn ákvæðum laga þessara og brotið tengist skipi skal skipið sett í farbann og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en málinu er lokið og sekt auk málskostnaðar greidd að fullu, svo og kostnaður eftirlitsaðila. Um farbann fer að ákvæðum laga um eftirlit með skipum.
     Þó er heimilt að láta skip laust fyrr ef sett er bankatrygging eða önnur trygging jafngild til greiðslu sektar og alls kostnaðar.
     Til tryggingar greiðslu sektar samkvæmt grein þessari, málskostnaðar og kostnaðar eftirlitsaðila skal vera lögveð í skipinu í eitt ár.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

28. gr.

Ágreiningur.
     Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim er heimilt að vísa honum til umhverfisráðherra til úrskurðar.
     Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en átta vikum eftir að honum berst mál í hendur.
     Rísi ágreiningur um það hvort um bráðamengun samkvæmt lögum þessum sé að ræða er heimilt að vísa málinu til umhverfisráðherra til úrskurðar. Skal ráðherra úrskurða í málinu eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en viku eftir að honum berst mál í hendur.

29. gr.

Gildistaka og lagaskil.
     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2004. Frá sama tíma falla úr gildi lög um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, með síðari breytingum. Reglugerðir settar samkvæmt ákvæðum þeirra laga halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær ganga ekki í bága við ákvæði þessara laga.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði 16., 17. og 18. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Umhverfisráðherra skal í samvinnu við Umhverfisstofnun, samgönguráðherra, Hafnasamband sveitarfélaga og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gera áætlun um hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu og kostnað sem af því leiðir. Skal sú áætlun liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 2005 og koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2006. Hreinsun skal lokið fyrir árslok 2008.
II.
     Umhverfisráðherra skipar starfshóp til að undirbúa gildistöku laganna. Starfshópurinn skal starfa þar til lögin hafa að fullu tekið gildi, sbr. 29. gr. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúi umhverfisráðherra, sem jafnframt er formaður, fulltrúi samgönguráðherra, fulltrúi Umhverfisstofnunar, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins.

     
     
Viðauki I.
A. Starfsemi sem getur valdið bráðamengun á hafi eða ströndum vegna eðlis starfseminnar og/eða nálægðar hennar við sjó.
     
 1. Fiskimjölsverksmiðjur.
 2. Álframleiðsla.
 3. Áburðarframleiðsla.
 4. Sements- og kalkframleiðsla.
 5. Kísiljárnframleiðsla.
 6. Kísilmálmframleiðsla.
 7. Kísil- og kísilgúrframleiðsla.
 8. Járn- og stálframleiðsla.
 9. Glerullar- og steinullarframleiðsla.
 10. Sútunarverksmiðjur.
 11. Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera með fráveitu til sjávar.
 12. Móttökustöðvar sveitarfélaga; sorpurðunarstaðir og sorpbrennslustöðvar.
 13. Meðhöndlun og förgun spilliefna.
 14. Lím- og málningarvöruframleiðsla.
 15. Olíumalar- og malbikunarstöðvar.
 16. Kítín- og kítosanframleiðsla.
 17. Framleiðsla á magnesíum og efnasamböndum sem innihalda magnesíum.
 18. Framleiðsla á peroxíðum.
 19. Sinkframleiðsla.
 20. Olíuhreinsistöðvar.
 21. Bensínstöðvar.
 22. Pappírs- og trjákvoðuframleiðsla.
 23. Framleiðsla á slípiefnum, t.d. kísilkarbíði.
 24. Vinnsla alifatískra alkóhóla til iðnaðarnota.
 25. Olíubirgðastöðvar.
 26. Stálsmíði og stálskipagerð.
 27. Viðhald og niðurrif skipa.
 28. Meðferð og húðun málma.
 29. Bræðsla og málmblanda málma sem geta brætt 4 tonn af blýi og kadmíum á dag.
 30. Yfirborðsmeðferð málma og plastefnis með rafgreiningaraðferðum eða efnafræðilegum aðferðum ef rúmmál kera er meira en 30 m3.
 31. Ullarþvottastöðvar.
 32. Fitu- og lýsisvinnsla.
 33. Sláturhús.
 34. Alifugla- og svínaræktarstöðvar.
 35. Skolphreinsistöðvar, útrásardælustöðvar og fráveitur.
 36. Flugvellir.
 37. Annar sambærilegur atvinnurekstur.

B. Þættir sem taka ber tillit til við mat á mögulegri áhættu af starfseminni fyrir umhverfi hafs og strandar.
     
 1. Magn hættulegra efna sem notuð eru í starfseminni.
 2. Eðli og verkan þeirra hættulegu efna sem notuð eru í starfseminni.
 3. Fjarlægð starfseminnar frá sjó.
 4. Hugsanleg áhrif bráðamengunar, m.a. með tilliti til viðtaka.
 5. Aðrar ábyrgðartryggingar og umfang þeirra.

     
     
Viðauki II.
Listi yfir olíur og önnur efni sem hægt er að banna eða takmarka losun á í hafið.
     
 1. Lífræn halógen-efnasambönd og efni sem geta myndað þau í hafinu, að þeim efnum undanskildum sem eru líffræðilega óskaðleg eða breytast fljótt í sjónum í efni sem eru líffræðilega óskaðleg.
 2. Kvikasilfur og efnasambönd þess.
 3. Kadmín og efnasambönd þess.
 4. Varanleg gerviefni sem geta flotið, marað, sokkið og valdið alvarlegri röskun á lögmætum notum hafsins.
 5. Olíur, olíukennd kolvetni og lýsi.
 6. Geislavirk efni, þ.m.t. geislavirkur úrgangur.
 7. Lífræn efnasambönd fosfórs, kísils og tins og efni sem geta myndað slík efnasambönd í hafinu, að undanskildum þeim efnum sem eru líffræðilega óskaðleg eða breytast fljótt í sjónum í efni sem eru líffræðilega óskaðleg.
 8. Óbundinn fosfór.
 9. Eftirtalin frumefni og efnasambönd þeirra: arsen, blý, króm, nikkel, eir og sink.
 10. Efni sem sýnt er að hafi skaðleg áhrif á bragð eða lykt fæðu úr sjónum.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2004.