Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1790, 130. löggjafarþing 966. mál: almannatryggingar (meðlög, EES-reglur).
Lög nr. 78 7. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 5. mgr. 14. gr. laganna bætast orðin: sbr. þó 4. mgr. 60. gr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 14. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.
  3. 6. mgr. orðast svo:
  4.      Heimilt er að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem m.a. er kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.


3. gr.

     Við 60. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 59. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 14. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.

4. gr.

     Við 64. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Í samningum skv. 1. mgr. er enn fremur heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags milli samningsríkja, sbr. 59. gr., eins og um bætur almannatrygginga væri að ræða.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. maí 2004.