Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1874, 130. löggjafarþing 463. mál: lögmenn (lögmannsréttindi, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 93 9. júní 2004.

Lög um breyting á lögum um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Með lögmanni er í lögum þessum átt við þann sem hefur leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður eða héraðsdómslögmaður.
     Lögin taka einnig, eftir því sem við á, til lögmanna sem heimild hafa til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um skráningu, skyldur, réttindi og störf slíkra lögmanna hér á landi, þar með talda þátttöku í félagi um rekstur lögmannsþjónustu.
     Lögmenn eru opinberir sýslunarmenn. Njóta þeir réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

2. gr.

     2. málsl. 3. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Í tengslum við Lögmannafélag Íslands skal starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysir úr málum eftir ákvæðum þessara laga. Úrskurðarnefndin hefur lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. Skal nefndin skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal hver nefndarmaður eiga þar sæti í þrjú ár í senn, en þó þannig að sæti eins nefndarmanns losni árlega. Einn nefndarmaður skal skipaður af Lögmannafélagi Íslands samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þess, einn skal skipaður af dómsmálaráðherra og einn skipaður af Hæstarétti Íslands, en hann skal vera úr röðum sjálfstætt starfandi lögmanna sem fullnægja skilyrðum til að gegna embætti hæstaréttardómara. Nefndin kýs sér sjálf formann til eins árs í senn.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
 1. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er hér á landi samkvæmt lögum um háskóla.
 2. 4. mgr. orðast svo:
 3.      Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrði 5. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki.
 4. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Erlendum lögmönnum sem heimild hafa til að starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. má veita héraðsdómslögmannsréttindi. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um veitingu réttindanna.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Umsækjandi um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður verður að standast prófraun sem þriggja manna prófnefnd annast. Dómsmálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Skal skipa einn nefndarmann eftir tilnefningu Lögmannafélags Íslands, annan samkvæmt tilnefningu Dómarafélags Íslands en þann þriðja án tilnefningar og skal hann ekki vera starfandi lögmaður. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar nefndinni formann, svo og varaformann úr röðum varamanna.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Prófraun til öflunar lögmannsréttinda skal bæði vera bókleg og verkleg og ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða rækslu lögmannsstarfa, þar á meðal siðareglna lögmanna. Prófnefnd skipuleggur námskeið til undirbúnings prófraun. Henni er heimilt að láta Lögmannafélag Íslands og þá háskóla sem kenna lögfræði til embættis- eða meistaraprófs, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr., annast einstaka þætti námskeiðs og prófraunar. Í reglugerð, sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum prófnefndar, skal meðal annars kveðið nánar á um námsgreinar, námskeiðahald, framkvæmd prófraunar og lágmarksárangur til að standast hana.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
  1. hefur haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár,
  2. fullnægir þeim kröfum sem er getið í 1.–3. tölul. 1. mgr. 6. gr.,
  3. hefur flutt ekki færri en 30 mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli, þar af a.m.k. 10 einkamál sem fullnægja skilyrðum um áfrýjun til Hæstaréttar eða fengið hafa leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar,
  4. sýnir fram á það með prófraun, sem felst í munnlegum flutningi fjögurra mála, sem flutt eru í Hæstarétti fyrir fimm eða sjö dómurum, þar af a.m.k. tveggja einkamála, að hann sé hæfur til að öðlast réttindin.

 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Sá sem þreyta vill prófraun skv. 4. tölul. 1. mgr. skal tilkynna Hæstarétti þá ósk sína og sýna fram á, með staðfestingu dómsmálaráðherra, að hann fullnægi öðrum skilyrðum 1. mgr. Dómendur Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meta hvort umsækjandi stenst prófraun.


7. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Lögmanni er skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu, allt samkvæmt því sem nánar segir í 19., 23. og 25. gr.
     Lögmaður getur sótt um undanþágu til Lögmannafélags Íslands frá þeim skyldum sem um ræðir í 1. mgr. á meðan hann:
 1. gegnir föstu starfi hjá opinberri stofnun eða einkaaðila, enda veiti hann engum öðrum þjónustu sem lögmaður,
 2. starfar hjá öðrum lögmanni, sbr. 3. mgr. 11. gr., eða
 3. gegnir föstu starfi hjá félagasamtökum, enda veiti hann engum öðrum en þeim samtökum eða félagsmönnum þeirra þjónustu og skal þjónustan falla innan starfssviðs samtakanna.

     Lögmaður sem leitar undanþágu skv. 2. mgr. skal leggja fram samþykki vinnuveitanda síns fyrir henni. Ef undanþágu er leitað skv. 2. tölul. 2. mgr. skal fylgja staðfesting um þá ábyrgð vinnuveitanda sem um ræðir í 3. mgr. 11. gr. Ef undanþágu er leitað skv. 3. tölul. 2. mgr. ber vinnuveitandi húsbóndaábyrgð á fjárvörslu og þeim störfum lögmannsins sem starfsábyrgðartryggingar ná til.
     Með undanþágubeiðni skv. 1. eða 3. tölul. 2. mgr. skal lögmaður láta fylgja yfirlýsingu sína um að hann muni einungis nýta réttindi sín innan þeirra marka er þar greinir.
     Vinnuveitanda jafnt sem lögmanni er skylt að tilkynna Lögmannafélagi Íslands ef vinnusambandi þeirra er slitið.
     Ef lögmaður fullnægir annars ekki þeim skyldum sem um getur í 1. mgr. ber honum að leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og skulu þau lýst óvirk.

8. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Lögmannafélag Íslands hefur eftirlit með því að lögmaður uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum skv. 6., 9. og 12. gr.
     Lögmanni er skylt að veita Lögmannafélagi Íslands eða löggiltum endurskoðanda, sem félagið tilnefnir í því skyni, allar nauðsynlegar upplýsingar til að metið verði hvort hann fullnægi þeim skyldum sem mælt er fyrir um í 12. gr. Ber sá sem gegnir eftirliti þagnarskyldu um það sem hann kemst að raun um, að því leyti sem það varðar ekki tilgang eftirlitsins. Ákveði stjórn félagsins að fela endurskoðanda félagsins að rannsaka fjárreiður lögmanns er félaginu heimilt að krefja lögmanninn um greiðslu kostnaðar við rannsóknina, enda hafi hún verið verulega yfirgripsmikil og leiði í ljós misfellur í starfi.
     Komi fram við eftirlit skv. 1. mgr. að lögmaður fullnægi ekki þeim skilyrðum sem þar greinir ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.
     Hafi lögmaður sem ákvæði 23. gr. tekur til ekki skilað stjórn Lögmannafélags Íslands yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings skv. 2. mgr. 23. gr. fyrir 1. október ár hvert, eða slík yfirlýsing hefur ekki reynst fullnægjandi, ber Lögmannafélagi Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að réttindi hans verði felld niður. Skal ráðherra taka rökstudda afstöðu til slíkrar tillögu innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

9. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Nú berst úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanni og telur sýnt að hann hafi í störfum sínum brotið svo mjög eða ítrekað gegn lögum eða þeim reglum sem um getur í 2. mgr. 5. gr. að ekki verði við unað að hann hafi áfram réttindi til að vera lögmaður. Getur þá nefndin í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar. Nefndin getur lagt til niðurfellingu eða sviptingu þó svo að lögmaðurinn hafi lagt réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og þau hafi verið lýst óvirk skv. 2. mgr. 15. gr.
     Ráðherra ber að taka afstöðu til tillögu skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá því að hún berst honum.

10. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Taki lögmaður við opinberu starfi sem dómsmálaráðherra telur ósamrýmanlegt handhöfn virkra lögmannsréttinda skal hann leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og skulu réttindin lýst óvirk.
     Lögmanni er alltaf frjálst að leggja réttindi sín inn til dómsmálaráðuneytisins og skulu þau þá lýst óvirk.

11. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Hafi dómsmálaráðherra lýst réttindi lögmanns óvirk, þau fallið niður eða verið felld niður samkvæmt einhverju því sem í 12.–15. gr. segir skulu þau lýst virk að nýju eða veitt honum að nýju eftir umsókn hans án endurgjalds eða prófraunar, enda fullnægi hann öllum öðrum skilyrðum til að njóta þeirra. Hafi réttindi lögmanns verið felld niður skv. 4. mgr. 13. gr. skal að auki leita staðfestingar Lögmannafélags Íslands á því að umsækjandi hafi skilað til félagsins fullgildri yfirlýsingu um stöðu vörslufjárreiknings.
     Hafi lögmaður verið sviptur réttindum samkvæmt því sem í 14. gr. segir getur hann að fimm árum liðnum sótt um heimild til að gangast undir prófraun skv. 7. gr. og sækja í kjölfarið á ný um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður. Slíka heimild veitir dómsmálaráðherra að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands.

12. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Dómsmálaráðherra skal auglýsa veitingu réttinda í Lögbirtingablaði. Sama gildir um sviptingu þeirra, svo og ef þau eru felld niður, falla sjálfkrafa niður eða eru lýst óvirk.
     Í dómsmálaráðuneytinu skal halda skrá um lögmenn sem hafa virk lögmannsréttindi. Skal þar greina sérstaklega þá sem hafa hlotið undanþágu með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 12. gr. Skrá þessi skal vera opin almenningi.

13. gr.

     5. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Lögmanni sem ekki hefur fengið undanþágu frá skyldum 1. mgr. 12. gr. er skylt að halda fjármunum þeim sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé og er skylt að hafa sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og varðveita þar slíka fjármuni.
     Lögmaður skal fyrir 1. október ár hvert senda Lögmannafélagi Íslands, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu sem staðfest er af löggiltum endurskoðanda um að staða vörslufjárreiknings hinn 31. desember fyrra árs sé ekki lægri en staða vörslufjár samkvæmt bókhaldi lögmannsins. Samtímis skal lögmaður senda félaginu upplýsingar um verðbréf sem voru í hans vörslu 31. desember fyrra árs sem staðfestar eru af löggiltum endurskoðanda.
     Dómsmálaráðherra skal setja nánari reglur um vörslufjárreikninga að fengnum tillögum Lögmannafélags Íslands.

15. gr.

     Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

16. gr.

     2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo.
     Í máli skv. 1. mgr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Úrskurðarnefndinni er heimilt að taka upp hæfilegt málagjald sem greiða skal við framlagningu ágreiningsmáls eða kvörtunar fyrir nefndinni. Sé grundvöllur fyrir erindinu staðreyndur með úrskurði nefndarinnar skal endurgreiða innheimt málagjald til málshefjanda.
 3. Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
 4.      Úrskurðarnefndinni er heimilt að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir henni.
       Úrskurðarnefndinni er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að ákveða að málsaðilar greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndarinnar við mál þeirra.


18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Þeim einum er heimilt að nota starfsheitið lögmaður, héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður eða skammstafanirnar hdl. og hrl. sem hefur virk réttindi samkvæmt lögum þessum og uppfyllir ákvæði 12. gr. Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum.
 3. Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., er orðast svo:
 4.      Það varðar sektum að nota starfsheiti erlendra lögmanna sem greind eru í reglum sem dómsmálaráðherra setur skv. 2. mgr. 1. gr. án þess að hafa hlotið tilskilið starfsleyfi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.


19. gr.

     2., 4., 5. og 6. mgr. 31. gr. laganna falla brott.

20. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Þegar skipað er í fyrsta sinn í úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt lögum þessum skulu einn aðalmaður og varamaður hans skipaðir til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára og þriðji aðalmaður ásamt varamanni til þriggja ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn með hlutkesti þegar ákveðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.
     Skipað skal í fyrsta sinn í prófnefnd skv. 1. mgr. 7. gr. laganna þegar skipunartími prófnefndar sem skipuð var samkvæmt eldra ákvæði rennur út.
     Sá sem hefur við gildistöku laga þessara fengið viðurkenningu prófnefndar á prófmáli til flutnings fyrir Hæstarétti í samræmi við ákvæði 9. gr. laganna skal eiga þess kost að ljúka prófraun samkvæmt eldri reglum fyrir 1. desember 2005, enda hafi umsókn um viðurkenningu prófnefndar á síðara prófmáli borist nefndinni fyrir 10. nóvember 2005.
     Prófnefnd skv. 2. mgr. 9. gr. laganna skal starfa til 30. nóvember 2005.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.