Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1859, 130. löggjafarþing 947. mál: flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála (flugvallaskattur).
Lög nr. 95 9. júní 2004.

Lög um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Greiða skal sérstakan skatt, flugvallaskatt, vegna hvers manns sem ferðast með loftfari í flutningaflugi innan lands eða frá Íslandi til annarra landa. Flugvallaskattur skal vera 382 kr. fyrir hvern farþega.
     Undanþegin skattskyldu eru börn innan tveggja ára aldurs, skráðar áhafnir loftfara, þeir sem viðkomu hafa á Íslandi samkvæmt farseðli eða ígildi hans milli annarra Evrópulanda og Norður-Ameríku og þeir sem ferðast með loftförum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi. Fyrir farþega á aldrinum tveggja til tólf ára skal greiða helming skattsins.
     Einungis skal greitt eitt gjald þó að millilent sé milli brottfararstaðar og ákvörðunarstaðar vegna flugáætlunar innan lands, enda vari viðdvöl samkvæmt áætluninni ekki lengur en sex klukkustundir.

2. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Til að fjármagna viðbótarkostnað vegna rekstrar og viðhalds alþjóðlegra varaflugvalla á Íslandi skal greiða sérstakt gjald, varaflugvallagjald, vegna hvers manns sem ferðast með loftfari í flutningaflugi frá Íslandi til annarra landa. Varaflugvallagjald skal vera 598 kr. fyrir hvern farþega.
     Undanþegin gjaldskyldu eru börn innan tveggja ára aldurs, skráðar áhafnir loftfara, þeir sem viðkomu hafa á Íslandi samkvæmt farseðli eða ígildi hans milli annarra Evrópulanda og Norður-Ameríku og þeir sem ferðast með loftförum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi. Fyrir farþega á aldrinum tveggja til tólf ára skal greiða hálft gjald.

3. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Ábyrgð á innheimtu flugvallaskatts og varaflugvallagjalds hvílir á skráðum umráðendum í loftfaraskrá að íslenskum loftförum og á eigendum erlendra loftfara.
     Flugvallaskatts og varaflugvallagjalds skal getið í verði farseðils eða í skriflegri yfirlýsingu sé farsamningur rafrænn.

4. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Flugvallaskatt og varaflugvallagjald vegna farþega sem fluttir eru með loftförum sem skráð eru erlendis og allra loftfara sem ekki er flogið á áætlunarleiðum skal greiða fulltrúum Flugmálastjórnar fyrir brottför loftfars um leið og afhent er skrá yfir farþega með því og hverjir eru gjaldfrjálsir skv. 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. eða greiða hálft gjald samkvæmt sömu ákvæðum. Skrá þessi skal undirrituð af flugstjóra eða umboðsmanni flugfélags á flugvelli. Heimilt skal að afhenda skrána á rafrænu formi.

5. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Flugvallaskatt og varaflugvallagjald vegna farþega sem ferðast með áætlunarflugi á viðurkenndum áætlunarleiðum skal greiða Flugmálastjórn eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför. Ákvæði 8. gr. um afhendingu skrár yfir fjölda farþega gilda einnig um áætlunarflug samkvæmt þessari grein.

6. gr.

     10. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     Í stað orðsins „flugvallagjaldi“ í 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: flugvallaskatti og varaflugvallagjaldi.

8. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Flugvallaskatti skal varið til framkvæmda í flugmálum, reksturs flugvalla, rannsókna og sérstakra tímabundinna verkefna í flugöryggismálum samkvæmt samgönguáætlun. Varaflugvallagjaldi skal varið til að fjármagna viðbótarkostnað sem fellur til við rekstur og viðhald alþjóðlegra varaflugvalla á Íslandi.

9. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Fjárhæð varaflugvallagjalds skv. 6. gr. skal endurskoða á tveggja ára fresti til þess að gjaldið endurspegli raunkostnað við rekstur og viðhald alþjóðlegra varaflugvalla. Einnig skal á sama tíma endurskoða grundvöll gjaldtökunnar með hliðsjón m.a. af breytingum sem kunna að hafa orðið á innlendu og alþjóðlegu lagaumhverfi flugmála og breytingum á gjaldtöku í samkeppnislöndum Íslands.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2004.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.