Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1852, 130. löggjafarþing 877. mál: eiturefni og hættuleg efni (sæfiefni, EES-reglur).
Lög nr. 96 9. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Sæfiefni eru efni eða efnablöndur sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar. Sæfiefni eru t.d. viðarvörn, nagdýraeitur, skordýraeitur, gróðurhindrandi efni, sótthreinsandi efni og rotvarnarefni.
  3. Á eftir orðunum „hættuleg efni“ í 4. mgr. kemur: sæfiefni.
  4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gildissvið og markmið.


2. gr.

     16. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Skráning og leyfi til markaðssetningar.
     Eiturefni og hættuleg efni, hrein og blönduð, má því einungis flytja til landsins, selja eða nota sem plöntulyf, illgresiseyði (örgresisefni), stýriefni eða sæfiefni að þau hafi verið skráð sem slík, annaðhvort með samheiti eða með sérheiti framleiðanda. Umhverfisstofnun veitir leyfi til markaðssetningar sæfiefna. Ákvæði þessi taka einnig til örvera eða hluta lífvera ef þau eru notuð í sama skyni. Ráðherra setur nánari ákvæði um framangreind atriði í reglugerð að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar. Skal þar m.a. kveða á um skráningu efnanna, notkun og bann við notkun þeirra, auk ákvæða um veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis til markaðssetningar.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „hættuleg efni“ í 1. mgr. kemur: sæfiefni.
  2. Á eftir orðinu „varnarefna“ í 1. og 2. málsl. 7. mgr. kemur: og sæfiefna.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.