Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 649, 131. löggjafarþing 335. mál: skráning og mat fasteigna (auðkennisnúmer, umsýslugjald o.fl.).
Lög nr. 139 21. desember 2004.

Lög um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.


1. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Allar fasteignir skulu bera fast auðkenni, fasteignanúmer, sem Fasteignamat ríkisins úthlutar við forskráningu. Númerið er hlaupandi raðtala og felur ekki í sér aðrar upplýsingar. Undir fasteignanúmer fellur:
  1. Landnúmer, sem er auðkenni landskika.
  2. Heitinúmer, sem er auðkenni fasteignaheita.
  3. Fastanúmer, sem er auðkenni eignarhluta í mannvirki eða mannvirkja í heild sinni, ásamt lóðarréttindum.

     Auk fasteignanúmers ber hver fasteign heiti samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar eða samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um heiti fasteigna, annarra en þeirra sem falla undir lög um bæjanöfn o.fl.

2. gr.

     13. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Nýtt matsverð skal þegar skrá í Landskrá fasteigna og gildir það með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að halda og þróa Landskrá fasteigna skulu húseigendur greiða til þess sérstakt umsýslugjald á árunum 2005 og 2006. Skal gjald þetta nema 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati hverrar húseignar. Skal vátryggingafélag innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila umsýslugjaldi til Fasteignamats ríkisins eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.