Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 775, 131. löggjafarþing 190. mál: einkamálalög og þjóðlendulög (gjafsókn).
Lög nr. 7 11. febrúar 2005.

Lög um breyting á einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998 (gjafsókn).


I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991, með síðari breytingum.

1. gr.

     3. málsl. 2. mgr. 125. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 38 19. apríl 1994, orðast svo: Dómsmálaráðherra getur kveðið nánar á um starfshætti gjafsóknarnefndar í reglugerð.

2. gr.

     1. mgr. 126. gr. laganna orðast svo:
     Einstaklingi má veita gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Dómsmálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þar með talið hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.

3. gr.

     Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
     Nú hefur aðila verið veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 fyrir gildistöku laga þessara og skal þá heimilt að veita honum gjafsókn vegna sama máls fyrir Hæstarétti, gangi það þangað.

II. KAFLI
Breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58 10. júní 1998, með síðari breytingu.

4. gr.

     Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að veita aðila gjafsókn í samræmi við reglur XX. kafla laga um meðferð einkamála. Þrátt fyrir skilyrði 126. gr. laga um meðferð einkamála er heimilt að veita aðila gjafsókn þegar úrlausn máls hefur:
  1. verulega almenna þýðingu eða
  2. varðar verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag hans.


III. KAFLI
Gildistaka.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. febrúar 2005.