Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 935, 131. löggjafarþing 399. mál: stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.
Lög nr. 13 16. mars 2005.

Lög um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.


1. gr.

     Heimilt er Húsavíkurbæ að stofna einkahlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur er nefnist Orkuveita Húsavíkur ehf.

2. gr.

     Heimili Orkuveitu Húsavíkur ehf. og varnarþing skulu vera á Húsavík, en heimilt skal vera að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

3. gr.

     Tilgangur Orkuveitu Húsavíkur ehf. er orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
     Orkuveitu Húsavíkur ehf. er heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
     Tilgangi félagsins og verkefnum skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundum samkvæmt almennum reglum.

4. gr.

     Orkuveita Húsavíkur ehf. tekur við einkarétti Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur til starfrækslu hita-, raf- og vatnsveitu á Húsavík og yfirtekur skyldur tengdar rekstri þeirra sem kveðið er á um í öðrum lögum. Farið skal að ákvæðum 4. gr. laga nr. 32/2004 varðandi ráðstöfun á einkarétti. Orkuveita Húsavíkur ehf. yfirtekur samninga sem gerðir hafa verið um sölu á rafmagni og heitu vatni eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.
     Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Orkuveitu Húsavíkur ehf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
     Aðrir sem reka orkumannvirki eða vatnsveitu á starfssvæði Orkuveitu Húsavíkur ehf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum í samræmi við ákvæði laga.

5. gr.

     Stjórn Orkuveitu Húsavíkur ehf. setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda í samræmi við ákvæði orkulaga, nr. 58/1967, raforkulaga, nr. 65/2003, og laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Við setningu gjaldskrár fyrir sölu á heitu vatni skal gætt almennra arðsemissjónarmiða.

6. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Orkuveitu Húsavíkur skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu áunnið sér.
     Um biðlaunarétt fastráðinna starfsmanna Orkuveitu Húsavíkur við stofnun Orkuveitu Húsavíkur ehf. fer eftir grein 11.1.1 í kjarasamningi Starfsmannafélags Húsavíkur og launanefndar sveitarfélaga f.h. Húsavíkurbæjar með gildistíma 1. janúar 2001 til 31. mars 2005.

7. gr.

     Stofna skal einkahlutafélagið Orkuveitu Húsavíkur á stofnfundi sem haldinn skal í marsmánuði 2005. Allur kostnaður af stofnun Orkuveitu Húsavíkur ehf. og yfirtöku þess á rekstri Orkuveitu Húsavíkur greiðist af einkahlutafélaginu.

8. gr.

     Orkuveita Húsavíkur ehf. skal taka til starfa 1. apríl 2005 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Húsavíkur. Orkuveita Húsavíkur skal lögð niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar fyrirtækisins.

9. gr.

     Um skyldu Orkuveitu Húsavíkur ehf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt og um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Þó skal Orkuveita Húsavíkur ehf. greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af fasteignum félagsins samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.
     Orkuveita Húsavíkur ehf. skal undanþegin stimpilgjöldum. Þá verða ekki greiddir skattar og opinber gjöld af eignatilfærslum milli Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur ehf. við formbreytinguna.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Húsavíkurbær ber áfram ábyrgð á lánum sem tekin hafa verið fyrir 1. apríl 2005 með ábyrgð bæjarsjóðs vegna Orkuveitu Húsavíkur.

II.
     Rekstrarlega séð skal yfirtaka Orkuveitu Húsavíkur ehf. á Orkuveitu Húsavíkur miðuð við 1. janúar 2005.

Samþykkt á Alþingi 8. mars 2005.