Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1312, 131. löggjafarþing 479. mál: Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga (aðild og viðmiðunarlaun).
Lög nr. 47 13. maí 2005.

Lög um breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga, sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af og miðað er við til greiðslu lífeyris. Viðmiðunarlaun skulu ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

2. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Hjúkrunarfræðingar, sem starfa við hjúkrun og höfðu heimild til aðildar að sjóðnum við árslok 2004, skulu eiga rétt til aðildar að sjóðnum á meðan þeir gegna störfum hjá ríki eða sveitarfélögum, eða stofnun sem alfarið er í þeirra eigu eða á heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni og rekin er sem sjálfseignarstofnun eða alfarið á vegum styrktar- eða líknarfélaga, enda séu þeir ráðnir með föst mánaðarlaun.
     Aðrir launagreiðendur en um er getið í 1. mgr., sem fengið höfðu heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í árslok 2004, hafa heimild til að greiða fyrir þá starfsmenn sína sem þeir greiddu fyrir í árslok 2004 og þá hjúkrunarfræðinga sem heimild hafa til aðildar að sjóðnum og fæddir eru á árinu 1950 eða fyrr og greitt hafa samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004.
     Stjórn sjóðsins getur samþykkt aðild að sjóðnum fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem höfðu heimild til aðildar að sjóðnum í árslok 2004 og fæddir voru á árinu 1950 eða fyrr og höfðu greitt samtals 21 ár í sjóðinn miðað við árslok 2004, enda starfi þeir hjá heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisstjórninni. Heimilt er að skilyrða aðild samkvæmt þessari málsgrein við að lífeyrisskuldbindingar séu gerðar upp skv. 3.–5. mgr. 20. gr.
     Hjúkrunarfræðingar, sem heimild áttu til aðildar að sjóðnum við árslok 2004 og starfa að félagsmálum á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hafa jafnframt heimild til aðildar að sjóðnum, enda séu ráðningarkjör þeirra hin sömu og hjá öðrum sjóðfélögum.
     Sjóðfélagi, sem greiðir iðgjald til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga eftir 1. desember 1997, getur einungis hafið greiðslu til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ef hann skiptir um starf, enda uppfylli hið nýja starf hans aðildarskilyrði að þeim sjóði, eða ef iðgjaldagreiðslur hans hafa fallið niður af öðrum ástæðum í tólf mánuði eða lengur.
     Falli iðgjaldagreiðslur til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga niður í framhaldi af slitum á ráðningarsambandi, t.d. vegna þess að viðkomandi sjóðfélagi hættir í starfi eða skiptir um starf, hefur sjóðfélagi áfram rétt til aðildar að sjóðnum, svo fremi hann hefji aftur starf sem veitir honum rétt til sjóðsaðildar innan tólf mánaða frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður. Ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla hins vegar niður í tólf mánuði eða lengri tíma, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, á viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga.

3. gr.

     Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er hann gegndi, sbr. 1. mgr., og laun fyrir það starf eru ekki tæk til viðmiðunar á iðgjaldagreiðslum til deildarinnar, sbr. 5. mgr. 7. gr., skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taka mið af. Viðmiðunarlaun skulu ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 2005.