Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1425, 131. löggjafarþing 786. mál: Lánasjóður landbúnaðarins (afnám laganna).
Lög nr. 68 20. maí 2005.

Lög um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra er heimilt að selja allar eignir og semja um yfirtöku skulda Lánasjóðs landbúnaðarins. Söluandvirði sjóðsins, að frádregnum kostnaði við sölu og niðurlagningu hans, rennur til Lífeyrissjóðs bænda samkvæmt nánari ákvörðun í fjárlögum.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, falla úr gildi frá og með 31. desember 2005. Störf starfsmanna Lánasjóðs landbúnaðarins falla niður frá og með sama tíma og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þegar lög nr. 68/1997 falla úr gildi tekur ríkissjóður við öllum réttindum og skyldum sjóðsins gagnvart einstaklingum og lögaðilum.

3. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Orðin „Lánasjóði landbúnaðarins (áður Stofnlánadeild Búnaðarbanka Íslands)“ í 43. gr. og „Lánasjóði landbúnaðarins“ í 47. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, falla brott.
  2. 100. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, fellur brott.
  3. Lokamálsliður 28. gr. laga nr. 3/1955, um skógrækt, orðast svo: Greiða skal sömu vexti og verðbætur á bætur frá innlausnardegi til greiðsludags og Lífeyrissjóður bænda reiknar af lánum hverju sinni.


Samþykkt á Alþingi 10. maí 2005.