Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1502, 132. löggjafarþing 612. mál: Veiðimálastofnun (heildarlög).
Lög nr. 59 14. júní 2006.

Lög um Veiðimálastofnun.


1. gr.

Stjórnsýsluleg staða.
     Veiðimálastofnun er rannsóknastofnun á sviði ferskvatnsfiska og lífríkis þeirra sem heyrir undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra.

2. gr.

Forstjóri.
     Ráðherra skipar forstjóra Veiðimálastofnunar til fimm ára í senn.
     Forstjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á fræðasviði stofnunarinnar.
     Forstjóri hefur á hendi stjórn stofnunarinnar og ræður annað starfsfólk og ákveður starfssvið þess.

3. gr.

Ráðgjafarnefnd.
     Forstjóri hefur sér til ráðuneytis ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt sameiginlegri tilnefningu menntastofnana landbúnaðarins. Ráðherra skipar formann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Forstjóri situr fundi með ráðgjafarnefnd.
     Formaður ráðgjafarnefndar kveður nefndina saman til fundar þegar þurfa þykir.

4. gr.

Hlutverk Veiðimálastofnunar.
     Hlutverk Veiðimálastofnunar er:
  1. að afla með grunnrannsóknum alhliða þekkingar á nytjastofnum ferskvatns og lífríkis þess og miðla upplýsingum þar um,
  2. að hvetja til sjálfbærrar nýtingar ferskvatnsvistkerfa,
  3. að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu nytjastofna ferskvatns,
  4. að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar í fiskrækt í ám og vötnum,
  5. að rannsaka hvernig fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna,
  6. að veita ráðgjöf um lífríki áa og vatna í sambandi við framkvæmdir og mannvirkjagerð,
  7. að stunda rannsóknir á eldi vatnalífvera,
  8. að annast þróunarstarf og leiðbeiningar í veiðimálum og annarri nýtingu lífríkis ferskvatns,
  9. að veita lögboðnar umsagnir,
  10. að annast rannsóknir á einstökum ferskvatnsvistkerfum gegn gjaldi,
  11. að stunda rannsóknir í sjó á nytjastofnum ferskvatns,
  12. að annast aðrar rannsóknir og tengd verkefni sem ráðherra felur stofnuninni með reglugerð.


5. gr.

Stjórnskipulag Veiðimálastofnunar.
     Forstjóri ákveður skipurit Veiðimálastofnunar.
     Veiðimálastofnun er heimilt að starfrækja starfsstöðvar á landsbyggðinni.
     Veiðimálastofnun er heimilt að starfrækja rannsóknastöð í fiskrækt, fiskeldi og hafbeit.

6. gr.

Gjaldtaka o.fl.
     Veiðimálastofnun er heimilt að taka að sér rannsóknir og önnur verkefni á starfssviði sínu fyrir einstaklinga, félög og stofnanir gegn endurgjaldi.
     Þann hluta starfsemi Veiðimálastofnunar, sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði, þar sem stofnunin aflar sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf og annarri þjónustu, skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins.

7. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi Veiðimálastofnunar og framkvæmd þessara laga.

8. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Um leið falla úr gildi 2. og 3. mgr. 90. gr., 91. og 92. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um lax- og silungsveiði, laga um eldi vatnafiska, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af landbúnaðarráðherra og í henni sitja ellefu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangaveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, Félagi eigenda sjávarjarða, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

II.
     Núverandi starfsfólk Veiðimálastofnunar gegnir áfram störfum sínum hjá stofnuninni eftir gildistöku laga þessara. Núverandi framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar skal gegna starfi forstjóra út núverandi skipunartíma sinn. Núverandi stjórn Veiðimálastofnunar skal láta af störfum við gildistöku laga þessara en jafnframt skal þá skipa ráðgjafarnefnd í samræmi við 3. gr. laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.