Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1497, 132. löggjafarþing 503. mál: umferðarlög (EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 66 14. júní 2006.

Lög um breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Liðurinn Bifhjól orðast svo:
 2. Bifhjól:
  1. Vélknúið ökutæki sem hvorki telst bifreið né torfærutæki, er aðallega ætlað til fólks- eða vöruflutninga og er á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, eða á þremur, fjórum eða fleiri hjólum og innan við 400 kg að eigin þyngd.
  2. Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til vöruflutninga, er a.m.k. á fjórum hjólum og innan við 550 kg að eigin þyngd án rafgeyma, sé það rafknúið.
 3. Við bætast tveir nýir liðir í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
 4. Farstarfsmaður:
 5.      Starfsmaður flytjanda, það er ökumaður og aðrir í áhöfn hóp- eða vörubifreiðar sem aðstoða ökumann við önnur störf en akstur og einnig sá sem er í bifreið til þess að leysa ökumanninn af þegar hann tekur hvíld.
 6. Flytjandi:
 7.      Skráður eigandi eða umráðamaður ökutækis eða sá sem hefur það að láni og notar það til fólks- eða vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni og ekur því sjálfur eða ökumaður í hans þjónustu.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. a laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að öðru leyti gilda ákvæði laga um náttúruvernd um akstur utan vega.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. gildir ekki um akstur vegna óhjákvæmilegrar þjónustu, sjúkraflutninga eða annarrar ámóta óhjákvæmilegrar umferðar sem upp kemur.


3. gr.

     44. gr. a laganna orðast svo:
     Ráðherra setur reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna sem annast fólks- og vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni, ökurita o.fl., þar sem m.a. skal kveðið á um:
 1. ökutæki og þá flutninga sem reglurnar taka til,
 2. lágmarksaldur ökumanna sem sjá um þá flutninga sem reglurnar taka til,
 3. aksturstíma ökumanns hvern dag, hverja viku og hálfsmánaðarlega, skyldu ökumanns til að gera hlé á akstri og til að taka daglega og vikulega hvíld frá akstri,
 4. skyldu til notkunar ökurita sem er búnaður ökutækis þar sem m.a. eru skráðar og geymdar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns auk hraða ökutækis,
 5. skyldu til að varðveita í ökurita, á ökuritakorti eða með öðrum hætti upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma,
 6. skyldu til afhendingar gagna með upplýsingum sem skráðar eru og varðveittar, sbr. d- og e-lið,
 7. útgáfu, efni og form ökuritakorts sem er lykill að rafrænum ökurita og í eru varðveittar rafrænar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns,
 8. skyldu flytjanda til að leita til viðurkenndra viðgerðarmanna eða verkstæða til uppsetningar ökurita,
 9. gjald fyrir ökuritakort,
 10. skyldu ökumanns og flytjanda til að fylgja reglum sem ráðherra setur samkvæmt þessari grein.

     Ökumaður og flytjandi skulu sjá til þess að ökuriti sé notaður og fylgt sé reglum um notkun hans og um varðveislu gagna sem varða aksturs- og hvíldartíma.
     Óheimilt er að miða laun ökumanns, sem annast fólks- og vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni samkvæmt þessari grein, við ekna vegalengd eða flutt magn af farmi séu greiðslur þess eðlis að þær geti stofnað umferðaröryggi í hættu. Jafnframt er óheimilt að veita ökumanni kaupauka eða launauppbót í framangreindum tilvikum.
     Ráðherra setur reglur um viðurkennda viðgerðarmenn eða verkstæði til uppsetningar ökurita.

4. gr.

     Á eftir 44. gr. a laganna kemur ný grein, 44. gr. b, sem orðast svo:
     Ráðherra setur reglur um skipulag vinnutíma farstarfsmanna sem annast fólks- og vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni, sbr. 1. mgr. 44. gr. a. Í reglunum skal m.a. kveðið á um:
 1. ökutæki og þá flutninga sem reglurnar taka til,
 2. skilgreiningu vinnustaðar, vinnutíma og hvíldartíma,
 3. heimilaðan hámarksfjölda vinnustunda á viku og skyldu til að vinna ekki umfram hann,
 4. skyldu til að gera hlé á vinnu og til að taka daglegan og vikulegan hvíldartíma,
 5. skyldu til skráningar vinnutíma og
 6. skyldu til varðveislu gagna í a.m.k. tvö ár frá því að viðkomandi tímabili lýkur.

     Farstarfsmönnum er skylt að haga vinnutíma og vinnutilhögun í samræmi við reglur sem ráðherra setur samkvæmt þessari grein. Flytjandi skal bera ábyrgð á því að skrá vinnutíma farstarfsmanna.

5. gr.

     Á eftir 45. gr. laganna kemur ný grein, 45. gr. a, sem orðast svo:
     Enginn má stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Mælist ávana- og fíkniefni skv. 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.
     Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna skv. 1. mgr.
     Eigi má fela manni sem er undir áhrifum ávana- og fíkniefna skv. 1. mgr. stjórn ökutækis.

6. gr.

     47. gr. laganna orðast svo:
     Ökumanni vélknúins ökutækis er skylt að kröfu lögreglu að gangast undir öndunarpróf og láta í té svita- og munnvatnssýni með þeim hætti sem lögregla ákveður ef:
 1. ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. eða 4. mgr. 44. gr., sbr. 45. gr. og 45. gr. a,
 2. ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn öðrum ákvæðum þessara laga eða reglna sem settar eru samkvæmt þeim, enda sé þar kveðið á um heimild til töku öndunar-, svita- eða munnvatnssýna,
 3. hann hefur átt hlut að umferðarslysi eða óhappi, hvort sem hann á sök á eða ekki, eða
 4. hann hefur verið stöðvaður við umferðareftirlit.

     Lögreglan getur fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. eða 4. mgr. 44. gr., 45. gr. eða 45. gr. a eða hann neitar lögreglunni um að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- eða munnvatnssýni eða er ófær um það. Liggi fyrir grunur um önnur brot en akstur undir áhrifum áfengis getur lögreglan auk þess fært ökumann til læknisskoðunar. Sama á við þegar grunur er um akstur undir áhrifum áfengis og sérstakar ástæður mæla með því.
     Lögregla annast töku öndunar-, svita- og munnvatnssýnis. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur annast töku blóðsýnis og eftir atvikum munnvatns-, svita- og þvagsýnis. Ökumanni er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr.
     Ráðherra setur nánari reglur um töku sýna og rannsókn skv. 1., 2. og 3. mgr. Vegna töku og rannsóknar öndunarsýnis skal sá sem sakfelldur er greiða 15.000 kr. gjald sem telst til sakarkostnaðar.

7. gr.

     A-liður 2. mgr. 50. gr. laganna orðast svo: bifreið til farþega- eða vöruflutninga í atvinnuskyni.

8. gr.

     B-liður 1. mgr. 52. gr. laganna orðast svo: skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis og endurnýjun, þar á meðal um ökupróf, akstursmat og um endurmenntun ökumanna sem stjórna hópbifreið til farþegaflutninga og vörubifreið til vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni.

9. gr.

     Í stað orðanna „fullra 13 ára“ í 3. málsl. 1. mgr. 55. gr. laganna kemur: fullra 15 ára.

10. gr.

     Við 3. mgr. 59. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Verði starfsmaður verkstæðis þess var að öryggisbúnaði vélknúins ökutækis sem þar er til viðgerðar eða breytinga sé áfátt skal hann skýra yfirmanni verkstæðisins frá því. Skal yfirmaður verkstæðis gera eiganda ökutækisins viðvart og tilkynna til lögreglu, verði eigi úr bætt.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „bifreið“ í 1. mgr. kemur: bifhjól.
 2. Orðin „bifhjól og“ í 3. mgr. falla brott.


12. gr.

     68. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglu er heimilt hvenær sem er að stöðva ökutæki og skoða ástand þess og hleðslu. Henni er einnig heimilt að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti eða með öðrum hætti. Reynist ökutæki ekki vera í lögmæltu ástandi má krefjast þess að það skuli fært til sérstakrar skoðunar.
     Eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar er heimilt að stöðva akstur ökutækja sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd hvenær sem er til þess að sinna eftirliti með:
 1. aksturs- og hvíldartíma ökumanna og notkun ökurita,
 2. stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja,
 3. hleðslu, frágangi og merkingu farms.

     Ökumaður og flytjandi skulu hlíta þeim reglum sem ráðherra setur um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og notkun ökurita, stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, hleðslu, frágang og merkingu farms, sbr. 1. mgr. 76. gr.
     Ökumanni vöruflutninga- eða hópbifreiðar er skylt að stöðva ökutæki þegar eftirlitsmaður Vegagerðarinnar gefur stöðvunarmerki, sbr. 2. mgr. Ökumanni er skylt að hlíta því að eftirlitsmaður skoði stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækis, sem og hleðslu þess, frágang og merkingu farms, og skal veita honum aðgang að upplýsingum sem varðveittar eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti, eða með öðrum hætti. Ef við eftirlit vaknar grunur um brot á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og notkun ökurita, stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, eða hleðslu, frágang og merkingu farms, sbr. 2. mgr., er eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar heimilt að banna frekari för ökutækis til að hindra áframhaldandi brot þar til lögregla kemur á vettvang. Ökumaður skal hlíta banni eftirlitsmanns um frekari för þar til því hefur verið aflétt. Óhlýðnist ökumaður banni eftirlitsmanns skal það þegar tilkynnt til lögreglu.
     Ökumaður eða flytjandi skal, að kröfu lögreglu eða eftirlitsmanns, afhenda eftirlitsaðila gögn með upplýsingum sem skráðar eru og varðveittar, sbr. d- og e-lið 1. mgr. 44. gr. a. Þetta gildir jafnt um eftirlit á vegum og í starfsstöð flytjanda, hvort sem gögnin eru afhent á staðnum eða send eftirlitsaðila. Neiti flytjandi eða ökumaður að afhenda gögn skal það tilkynnt til lögreglu.
     Ráðherra setur reglur um hæfi og þjálfun eftirlitsmanna, einkennisbúnað, skilríki og um framkvæmd eftirlits.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
 1. 7. mgr. orðast svo:
 2.      Ráðherra setur frekari reglur um gerð og notkun viðurkennds öryggis- og verndarbúnaðar fyrir ökumann og farþega ökutækis þar sem m.a. skal kveðið á um skyldu til að tilkynna farþegum um skyldubundna notkun öryggisbelta. Ráðherra setur jafnframt reglur um undanþágu frá skyldu til að nota slíkan búnað, m.a. við sérstakan akstur.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Öryggisbelti og annar öryggis- og verndarbúnaður í ökutæki.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
 1. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 2.      Hver sá sem situr í sæti bifhjóls sem búið er öryggisbelti skal nota beltið þegar bifhjólið er á ferð.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Öryggisbelti og annar öryggis- og verndarbúnaður við akstur bifhjóla.


15. gr.

     4. mgr. 73. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra getur sett frekari reglur um hleðslu og frágang farms, skyldu til að breiða yfir farm, svo og hvernig auðkenna skuli sérstaklega fyrirferðarmikinn farm.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Vegamálastjóri ákveður hvaða þjóðvegir utan þéttbýlis skuli teljast aðalbrautir þar sem umferð hefur forgang, sbr. 2. mgr. 25. gr.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Vegamálastjóri ákveður hraðamörk skv. 3. og 4. mgr. 37. gr. ef um þjóðveg utan þéttbýlis er að ræða. Á öðrum vegum ákveður lögreglustjóri hraðamörkin, að fengnum tillögum sveitarstjórnar.


17. gr.

     3. mgr. 100. gr. laganna orðast svo:
     Ef brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim er framið eftir fyrirmælum eða með vitund og vilja eiganda ökutækis eða stjórnanda í starfi skal honum einnig refsað fyrir brotið. Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 2. mgr. 44. gr. a, 2. mgr. 44. gr. b, auk 3. og 5. mgr. 68. gr., enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

18. gr.

     102. gr. laganna orðast svo:
     Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða 45. gr. a eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal hann þá sviptur ökurétti. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eða 45. gr. a.
     Neiti stjórnandi vélknúins ökutækis að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár.
     Hafi stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 3. mgr. þeirrar greinar, skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár og allt að tveimur árum eftir alvarleika brots og vínandamagni í blóði ökumanns eða vínandamagni í lofti sem hann andar frá sér.
     Hafi stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 45. gr. a skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en þrjá mánuði og allt að tveimur árum eftir alvarleika brots og magni ávana- og fíkniefna í blóði eða þvagi ökumanns.
     Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn 45. gr. og vínandamagn í blóði hans er yfir 2‰ eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér fer yfir 1,00 milligramm í lítra lofts og skal hann þá sviptur ökurétti eigi skemur en tvö ár.
     Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. eða 45. gr. a eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og hann gerist sekur um eitthvert þessara brota og skal svipting ökuréttar þá eigi vara skemur en tvö ár og allt að fimm árum eftir alvarleika brots og magni vínanda eða ávana- og fíkniefna í ökumanni við síðara brotið. Varði síðara brotið við 3. mgr. 45. gr. skal svipting ökuréttar eigi vara skemur en þrjú ár.
     Ökumaður skal ekki beittur viðurlögum skv. 1. mgr., sbr. 4. mgr., ef:
 1. hann hefur meðferðis við stjórnun ökutækis vottorð læknis er sýnir fram á að hann sé haldinn tilteknum sjúkdómi eða ástandi og þurfi af þeim orsökum að neyta þeirra efna sem í blóði eða þvagi hans mælast og
 2. hann sýnir fram á að hann hafi fengið útgefið lyfjakort frá Tryggingastofnun ríkisins vegna neyslu þeirra efna sem í blóði eða þvagi hans mælast og
 3. sýnt er fram á, með mati læknis að undangenginni læknisskoðun sem fram fer að beiðni lögreglu í framhaldi af stöðvun ökutækis, að hann hafi verið hæfur til að stjórna ökutækinu örugglega.
Tekið skal fram í vottorði læknis skv. a-lið að sjúklingurinn sé þrátt fyrir sjúkdóm sinn og lyfjainntöku fullkomlega fær um stjórnun ökutækis.

19. gr.

     Orðin „og rannsóknir á orsökum umferðarslysa“ í h-lið 1. mgr. 112. gr. laganna falla brott.

20. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „200 kr.“ í 2. mgr. 114. gr. laganna kemur: 400 kr.

21. gr.

     Lög þessi endurinnleiða í íslenskan rétt eftirtaldar gerðir ESB sem teknar hafa verið upp í XIII. viðauka samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði:
 1. Reglugerð ráðsins um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, nr. 3820/85/EBE (tekin upp í lokagerð EES-samningsins, sjá lið 20 í viðauka XIII).
 2. Reglugerð ráðsins um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, nr. 3821/85/EBE, með síðari breytingum (tekin upp í lokagerð EES-samningsins, sjá lið 21 í viðauka XIII).
 3. Tilskipun ráðsins um staðlaðar aðferðir við eftirlit með framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 3820/85 og 3821/85 (tekin upp í lokagerð EES-samningsins, sjá lið 23 í viðauka XIII).

     Lög þessi innleiða í íslenskan rétt eftirtaldar gerðir ESB sem teknar hafa verið upp í XIII. viðauka samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði:
 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um skipulag á vinnutíma farstarfsmanna sem sjá um flutninga á vegum, nr. 2002/15/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2003.
 2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um breytingu á tilskipun ráðsins, nr. 91/671/EBE, um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi skyldubundna notkun öryggisbelta í ökutækjum innan við 3,5 tonn, nr. 2003/20/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 155/2003.


22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.