Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1456, 132. löggjafarþing 279. mál: breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar (sameiginleg forsjá barns o.fl.).
Lög nr. 69 13. júní 2006.

Lög um breyting á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar.


I. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76 27. mars 2003, með síðari breytingu.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns síns eftir skilnað og slit sambúðar sem skráð hefur verið í þjóðskrá nema annað sé ákveðið. Foreldrar skulu ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Sýslumaður skal tilkynna þjóðskrá hjá hvoru foreldra barnið eigi lögheimili. Sýslumaður skal leiðbeina foreldrum um inntak sameiginlegrar forsjár og um þau réttaráhrif sem skráning lögheimilis barns hefur í för með sér.
  3. Orðin „sameiginleg eða“ í 2. mgr. falla brott.


2. gr.

     3. og 4. málsl. 2. mgr. 48. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     Fyrri málsliður 54. gr. laganna orðast svo: Meðlagsgreiðslur með barni skal ávallt ákveða við skilnað foreldra að borði og sæng og við lögskilnað, svo og við ákvörðun um forsjá barns eða lögheimili vegna slita foreldra á sambúð sem skráð hefur verið í þjóðskrá.

4. gr.

     Við 1. mgr. 68. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef ákvörðun um meðlag skv. IX. kafla hefur verið tekin hér á landi og meðlagsgreiðandi er búsettur hér á landi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130 31. desember 1999.

5. gr.

     Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 1. mgr., svohljóðandi:
     Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar um umsókn um leyfi til að ættleiða barn nema augljóst sé að skilyrði fyrir útgáfu ættleiðingarleyfis séu ekki uppfyllt.

6. gr.

     Orðið „öðrum“ í 1. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     Við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 1. mgr., svohljóðandi:
     Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar um umsókn um forsamþykki til að ættleiða erlent barn nema augljóst sé að skilyrði fyrir útgáfu forsamþykkis séu ekki uppfyllt.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
  1. Orðið „öðrum“ í 1. mgr. fellur brott.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er þó að framlengja gildistíma forsamþykkis einu sinni í allt að 12 mánuði ef sérstaklega stendur á.


9. gr.

     Við 41. gr. laganna bætist: þar á meðal um þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla.

III. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31 14. apríl 1993, með síðari breytingum.

10. gr.

     Við VII. kafla laganna bætist ný grein, 52. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
C. Fjárnámsheimild.
     Gera má fjárnám fyrir fjárframlögum til framfærslu skv. 49. gr. og lífeyri skv. 51. gr. á grundvelli úrskurðar sýslumanns. Sýslumaður getur staðfest samning milli hjóna um fjárframlag til framfærslu. Fyrir slíkum fjárframlögum og lífeyri, sem samningur staðfestur af sýslumanni tekur til, má einnig gera fjárnám.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 132. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Útgáfa skilnaðarleyfis, hvort sem um er að ræða leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, verður þó ekki kærð til ráðuneytisins.
  2. 3. mgr. fellur brott.


12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.