Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 673, 133. löggjafarþing 232. mál: breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlagaákvæði).
Lög nr. 163 21. desember 2006.

Lög um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlagaákvæði).


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

1. gr.

     Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist eftirfarandi málsliður: Þá er Fiskistofu heimilt, að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á löndunarstað, að veita einstökum aðilum leyfi til að vigta afla, enda hafi hann áður verið veginn á hafnarvog.

2. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.
     Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.

3. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Fiskistofa skal afturkalla leyfi aðila til vigtunar sjávarafla skv. 2. mgr. 6. gr. ef hann, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Hafi vigtunarleyfi aðila verið afturkallað skv. 1. mgr. skal ekki veita honum slíkt leyfi að nýju fyrr en átta vikur eru liðnar frá afturköllun leyfis. Hafi ítrekað komið til afturköllunar á vigtunarleyfi aðila skal honum ekki veitt slíkt leyfi að nýju fyrr en sextán vikur eru liðnar frá því að leyfi var síðast afturkallað.
     Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi aðila skriflega áminningu.
     Brjóti aðili sem hefur vigtunarleyfi eða þeir sem í þágu hans starfa gegn ákvæðum III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim þannig að bersýnilega leiði til þess að afli verði ranglega skráður skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfi hlutaðeigandi aðila. Hafi vigtunarleyfi aðila verið afturkallað samkvæmt þessari málsgrein skal honum ekki veitt slíkt leyfi að nýju fyrr en 26 vikur eru liðnar frá afturköllun, enda geri aðili þá í umsókn um leyfi fullnægjandi grein fyrir hvernig hann hyggst tryggja að framkvæmd vigtunar verði í samræmi við lög og reglur. Heimavigtunarleyfi, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 6. gr., skal þó ekki veitt aðila fyrr en eitt ár er liðið frá afturköllun fyrra leyfis.
     Hafi ítrekað komið til afturköllunar á vigtunarleyfi aðila skv. 4. mgr. skal ekki veita honum slíkt leyfi að nýju fyrr en tvö ár eru liðin frá því að leyfi var síðast afturkallað.

4. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Áminningar, sviptingar veiðileyfa og afturkallanir vigtunarleyfa, sem ákveðnar eru skv. 15. og 17. gr. laga þessara eða 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.

5. gr.

     Í stað orðanna „skv. 17. og 19. gr. laga þessara“ í 3. málsl. 21. gr. laganna kemur: skv. 17. gr. laga þessara.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

6. gr.

     Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist eftirfarandi málsliður: Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni vegna vanskila á afladagbókum og skal leyfissvipting standa þar til skil hafa verið gerð eða skýringar hafa verið gefnar á ástæðum vanskila.

7. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar verður skotið til sjávarútvegsráðuneytisins, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingu.

8. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Við stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot gegn 3.–5. gr. laga þessara skal gera upptæk þau veiðarfæri skips sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar, þar með talda dragstrengi, svo og ólögmætan afla þess. Sama gildir sé skip staðið að veiðum á svæðum þar sem veiðar hafa verið bannaðar með stoð í 1. mgr. 8. gr. og 9.–11. gr.
     Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk skv. 1. mgr. er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis afla og veiðarfæra samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna.

9. gr.

     Orðið „öðrum“ í 1. málsl. 17. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

     Í stað orðanna „3. mgr. 16. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: 2. mgr. 16. gr.

11. gr.

     20. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að gera ólögleg veiðarfæri upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum.

12. gr.

     Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Fiskistofa skal svipta skip leyfi, sem veitt hefur verið skv. 6. eða 7. gr. laga þessara, ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.
     Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.
     Áminningar og sviptingar veiðileyfa, sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.
     Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar samkvæmt þessari grein verður skotið til sjávarútvegsráðuneytisins, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingu.

13. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Við stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot gegn reglum, sem settar hafa verið skv. 2. málsl. 7. gr. laga þessara, skal gera upptæk þau veiðarfæri skips sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar, þar með talda dragstrengi, svo og ólögmætan afla þess.
     Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk skv. 1. mgr. er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis afla og veiðarfæra samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna.

14. gr.

     Orðið „öðrum“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     Í stað orðanna „3. mgr. 13. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 2. mgr. 13. gr.

16. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að gera ólögleg veiðarfæri upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum.

V. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

17. gr.

     1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Ólögmætur er sá sjávarafli sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur og afli sem 2. mgr. 7. gr. tekur til.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.