Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1309, 133. löggjafarþing 642. mál: Þjóðskjalasafn Íslands (öryggismálasafn).
Lög nr. 36 27. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands.


1. gr.

     Á eftir 16. gr. laganna koma sex nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (17. gr.)
Öryggismálasafn.
     Í Þjóðskjalasafni Íslands skal hafa sérstakt safn, öryggismálasafn, sem varðveitir öll skjöl og skráðar heimildir sem verið hafa í vörslum skilaskyldra aðila og snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 6. gr. skulu skilaskyldir aðilar afhenda Þjóðskjalasafni Íslands öll skjöl og skráðar heimildir sem eru í vörslum þeirra og varða öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991.
     Útbúin skal skrá yfir öll mál og skjöl þeirra sem tilheyra þessari deild safnsins.
     
     b. (18. gr.)
Aðgangur fræðimanna að öryggismálasafni.
     Öll skjöl öryggismálasafns, svo og skrá skv. 3. mgr. 17. gr., skulu vera aðgengileg fræðimönnum í Þjóðskjalasafni Íslands að uppfylltum skilyrðum þessarar greinar.
     Sá sem fær aðgang að skjölum öryggismálasafns skal áður skrifa undir yfirlýsingu þar sem hann heitir því að virða þagnarskyldu skv. 3. og 4. mgr., svo og önnur ákvæði þessarar greinar.
     Óheimilt er fræðimanni að skýra frá eða miðla á annan hátt persónugreinanlegum upplýsingum um lifandi einstaklinga sem taldir voru geta ógnað öryggi ríkisins samkvæmt skjölum safnsins nema sá samþykki sem í hlut á.
     Óheimilt er að skýra frá eða miðla á annan hátt persónugreinanlegum upplýsingum um viðkvæm einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og finna má í skjölum öryggismálasafns nema sá samþykki sem í hlut á. Þetta bann fellur niður þegar liðin eru 80 ár frá því að gögn urðu til.
     Eftir því sem skráningu mála í öryggismálasafni vindur fram skal Þjóðskjalasafn Íslands skrifa þeim einstaklingum sem á lífi eru eða nánum vandamanni hins látna, sbr. 19. gr., bréf komi fram upplýsingar í gögnum öryggismálasafns um þá sem falla undir 3. mgr. og kanna hvort þeir vilji veita samþykki sitt fyrir því að birta megi opinberlega upplýsingar um þá. Með bréfinu skulu fylgja almennar leiðbeiningar um það hvaða réttaráhrif það hefur að veita slíkt samþykki.
     Samþykki skv. 3.–5. mgr. skal vottað af lögbókanda eða tveimur lögráða vitundarvottum. Það skal skýlaust tekið fram að útgefandi samþykkisins hafi ritað nafn sitt eða kannast við undirskrift sína í viðurvist þess eða þeirra er undirskriftina staðfesta, svo og að hann hafi verið sjálfráða er hann ritaði nafn sitt.
     Fræðimönnum er óheimilt að taka út af safninu ljósrit, ljósmynd eða stafræna mynd af skjölum hafi þau að geyma upplýsingar sem falla undir 3. eða 4. mgr. nema sá sem í hlut á hafi samþykkt opinbera birtingu upplýsinganna, sbr. 5. mgr., eða veitt sérstakt samþykki fyrir heimild til afhendingar á ljósriti af skjalinu til fræðimannsins sem afhent skal Þjóðskjalasafni Íslands.
     Til fræðimanna í skilningi þessarar greinar teljast þeir sem hafa stundað fræðirannsóknir í hug- eða félagsvísindum og birt rannsóknir sínar á viðurkenndum vettvangi. Fræðimaður skal sýna fram á að gögn öryggismálasafns hafi mikilsverða þýðingu fyrir rannsókn sem hann vinnur að. Heimilt er að kæra synjun þjóðskjalavarðar til menntamálaráðherra.
     Persónugreinanlegar upplýsingar í skilningi 3. og 4. mgr. teljast þær upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.
     Ef maður, sem fengið hefur aðgang að gögnum þessarar deildar Þjóðskjalasafns Íslands, brýtur í bága við ákvæði 3., 4. eða 7. mgr. varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
     Nú brýtur maður ákvæði 3. eða 4. mgr. af ásetningi eða gáleysi og má þá dæma hann til að greiða þeim sem upplýsingarnar varðar bætur fyrir fjártjón og miska.
     
     c. (19. gr.)
Upplýsingaréttur hins skráða.
     Þjóðskjalasafni Íslands er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum í öryggismálasafni ef þau hafa að geyma persónugreinanlegar upplýsingar um hann sjálfan.
     Ef í skjali koma jafnframt fram persónugreinanlegar upplýsingar um aðra einstaklinga sem falla undir 3. eða 4. mgr. 18. gr. skal afmá þær upplýsingar úr ljósriti eða afriti skjals áður en aðila er veittur aðgangur að því nema sá sem í hlut á hafi samþykkt opinbera birtingu upplýsinganna, sbr. 5. mgr. 18. gr.
     Nú er maður látinn sem upplýsingar varða skv. 1. mgr. og getur þá maki hans, börn og barnabörn, sem náð hafa 18 ára aldri, óskað eftir aðgangi að upplýsingum um hann skv. 1. mgr. Hið sama gildir um systkini hins látna eigi hann ekki á lífi maka, börn eða barnabörn.
     
     d. (20. gr.)
Upplýsingaréttur almennings.
     Þjóðskjalasafni Íslands er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að skjölum öryggismálasafns, enda komi þar ekki fram upplýsingar sem falla undir ákvæði 3. eða 4. mgr. 18. gr.
     Ef ákvæði 3. og 4. mgr. 18. gr. eiga aðeins við um afmarkaðan hluta skjals skal afmá þær upplýsingar og veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins.
     
     e. (21. gr.)
Afhending utanríkisráðuneytisins á gögnum til öryggismálasafns.
     Áður en gögn utanríkisráðuneytisins, sem falla undir 17. gr., eru afhent öryggismálasafni skulu þau skoðuð og skráð til afhendingar í samræmi við fyrirmæli Þjóðskjalasafns Íslands.
     Skjöl sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig með þjóðréttarsamningi við Norður- Atlantshafsbandalagið til að halda leyndum skulu ekki afhent öryggismálasafni.
     Skjöl sem hafa að geyma upplýsingar um virka varnar- og öryggishagsmuni íslenska ríkisins skulu ekki afhent öryggismálasafni ef:
  1. þau hafa ekki náð þrjátíu ára aldri eða
  2. sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka rétt almennings til aðgangs að þeim.

     
     f. (22. gr.)
Kæruheimild.
     Heimilt er að bera synjun Þjóðskjalasafns Íslands um að veita aðgang að gögnum öryggismálasafns undir menntamálaráðherra sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun Þjóðskjalasafns Íslands um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2007.