Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1409, 133. löggjafarþing 395. mál: Vatnajökulsþjóðgarður (heildarlög).
Lög nr. 60 28. mars 2007.

Lög um Vatnajökulsþjóðgarð.


I. KAFLI
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og markmið.

1. gr.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og gildissvið.
     Umhverfisráðherra friðlýsir með reglugerð Vatnajökul og helstu áhrifasvæði jökulsins. Friðlýsing Vatnajökulsþjóðgarðs tekur gildi við setningu reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.
     Landsvæði í Vatnajökulsþjóðgarði getur verið í eigu íslenska ríkisins eða í eigu annarra aðila enda liggi fyrir samþykki eiganda viðkomandi lands um að það verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Leita skal samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar fyrir friðlýsingu landsvæðis í sveitarfélaginu.
     Lög þessi gilda um friðlýsingu, stjórn og rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs og verndun náttúrufars innan þjóðgarðsins.

2. gr.

Markmið verndunar.
     Markmiðið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins.
     Verndarstig einstakra svæða eða landslagsheilda innan Vatnajökulsþjóðgarðs skal taka mið af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins og annarri landnýtingu á viðkomandi svæði í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði.

3. gr.

Land í einkaeign innan þjóðgarðs.
     Heimilt er með samþykki landeiganda að friðlýsa land sem hluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Gerður skal samningur milli umhverfisráðherra og landeiganda um slíka friðlýsingu þar sem m.a. kemur fram hvaða landnýting er heimil á svæðinu. Stjórn þjóðgarðsins hefur eftirlit með að samningar við landeigendur í þjóðgarðinum séu virtir.
     Svæðisráð, sbr. 7. gr., skulu a.m.k. einu sinni á ári halda fund með eigendum lands á viðkomandi rekstrarsvæði og árlega skal halda sameiginlegan fund landeigenda, svæðisráða og stjórnar um málefni þjóðgarðsins.

II. KAFLI
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

4. gr.

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.
     Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun og fer umhverfisráðherra með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins fer sérstök stjórn skipuð af umhverfisráðherra. Í stjórn skulu sitja sjö fulltrúar: formenn allra svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar, þ.e. formaður og varaformaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum skal eiga áheyrnaraðild að fundum stjórnar. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal skipuð til fjögurra ára í senn.

5. gr.

Ákvarðanataka í stjórn og daglegur rekstur.
     Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal funda eftir því sem ástæða þykir til en þó eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti og skulu ákvarðanir hennar samkvæmt ákvæðum laga þessara teknar á fundum hennar. Svæðisráð getur, ef það telur nauðsynlegt að leita eftir afstöðu eða ákvörðun stjórnar um tiltekið málefni, óskað eftir því að haldinn sé fundur í stjórn þjóðgarðsins. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum stjórnar. Um ákvarðanir stjórnar gilda stjórnsýslulög. Stjórn þjóðgarðsins er heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra eða gera samning við aðra opinbera stofnun eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og umsýslu stjórnar.

6. gr.

Hlutverk stjórnar.
     Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur umsjón með náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði. Helstu verkefni stjórnar eru:
  1. Stefnumótun í málefnum þjóðgarðsins í samræmi við markmið laga þessara.
  2. Yfirumsjón með gerð tillögu að verndaráætlun og reglugerðar fyrir þjóðgarðinn.
  3. Gerð fjárhagsáætlunar um rekstur þjóðgarðsins, ráðstöfun fjár til rekstrarsvæða og samþykkt rekstraráætlunar hvers svæðis.
  4. Samræming á starfsemi rekstrarsvæða þjóðgarðsins.
  5. Eftirlit með framkvæmd reglna þjóðgarðsins og verndaráætlunar.
  6. Samstarf við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins.

     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni og starfsemi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

7. gr.

Svæðisráð.
     Vatnajökulsþjóðgarður skiptist í fjögur rekstrarsvæði sem rekin skulu sem sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Á hverju rekstrarsvæði skal starfa svæðisráð skipað af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn. Mörk rekstrarsvæða skulu tilgreind í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.
     Í svæðisráði skulu sitja sex fulltrúar: þrír fulltrúar tilnefndir af sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru á viðkomandi rekstrarsvæði, einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á viðkomandi svæði, einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum og einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Svæðisráð kýs sér formann úr hópi sveitarstjórnarmanna og varaformann.
     Þjóðgarðsvörður situr fundi svæðisráðs.

8. gr.

Hlutverk svæðisráða.
     Hlutverk svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs er:
  1. Að vera þjóðgarðsverði og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á viðkomandi rekstrarsvæði.
  2. Að vinna tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði.
  3. Að gera tillögu að rekstraráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði innan þess fjárhagsramma sem því er ætlaður hverju sinni samkvæmt ákvörðun stjórnar.
  4. Að gera tillögu að ráðningu þjóðgarðsvarða á viðkomandi rekstrarsvæði.

     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni og starfsemi svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs.

9. gr.

Þjóðgarðsverðir.
     Á hverju rekstrarsvæði skal starfa þjóðgarðsvörður sem ráðinn er af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt tillögu viðkomandi svæðisráðs. Á þeim rekstrarsvæðum þar sem eru tvær meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins er heimilt að ráða tvo þjóðgarðsverði. Stjórn ákveður verkaskiptingu milli þjóðgarðsvarða á sama rekstrarsvæði í samráði við svæðisráð, þ.m.t. með hvaða hætti ábyrgð þeirra skv. 1.–3. málsl. 10. gr. er skipt, og skal verkaskiptingin koma fram í erindisbréfi þjóðgarðsvarða.

10. gr.

Hlutverk þjóðgarðsvarða.
     Þjóðgarðsvörður annast daglegan rekstur og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í umboði stjórnar. Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi gagnvart stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Þjóðgarðsvörður ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins. Önnur helstu verkefni þjóðgarðsvarðar eru:
  1. Að aðstoða svæðisráð við gerð tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi rekstrarsvæði.
  2. Að koma verndaráætlun þjóðgarðsins til framkvæmda innan þess fjárhagsramma sem viðkomandi rekstrarsvæði er ætlaður hverju sinni.
  3. Að hafa eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum laga þessara og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og að ákvæði verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn séu virt.
  4. Samstarf við stofnanir, sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaaðila um málefni þjóðgarðsins.
  5. Fræðsla um náttúruvernd á viðkomandi svæði og um Vatnajökulsþjóðgarð.


11. gr.

Hlutverk Umhverfisstofnunar.
     Umhverfisstofnun veitir aðstoð og faglega ráðgjöf við verkefni stjórnar og svæðisráða samkvæmt sérstökum samstarfssamningi.

III. KAFLI
Verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

12. gr.

Verndaráætlun.
     Verndaráætlun skal unnin fyrir Vatnajökulsþjóðgarð svo sem nánar greinir í þessu ákvæði.
     Í verndaráætlun skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings, aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum.
     Svæðisráðin, hvert á sínu svæði, skulu vinna tillögu að verndaráætlun í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Við gerð verndaráætlunar skal svæðisráð hafa samráð við eigendur lands innan þjóðgarðs á viðkomandi svæði, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.
     Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fer yfir tillögur svæðisráða og vinnur á grundvelli þeirra verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn skal gæta þess að verndaráætlun samræmist ákvæðum laga og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn getur gert breytingar á tillögum svæðisráða. Tillaga stjórnar að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal unnin í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Tillagan skal auglýst opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg tillaga er send ráðherra. Frestur til að gera athugasemdir við tillögu að verndaráætlun skal a.m.k. vera sex vikur frá birtingu auglýsingar.
     Tillaga stjórnar að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal send umhverfisráðherra til staðfestingar. Umhverfisráðherra getur gert breytingar á verndaráætlun telji hann hana eða einstaka hluta hennar fara í bága við lög þessi, reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð eða verndarmarkmið þjóðgarðsins. Þegar umhverfisráðherra hefur staðfest verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal hún auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og tekur hún gildi við birtingu.
     Heimilt er að gera breytingar á verndaráætlun og fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum 3.–5. mgr. Stjórn þjóðgarðsins getur lagt til breytingar á verndaráætlun án þess að um það berist tillaga frá viðkomandi svæðisráði. Í þeim tilvikum skal ávallt leita umsagnar svæðisráðs áður en tillagan er send umhverfisráðherra. Verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á 10 ára fresti.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um efni verndaráætlunar og málsmeðferð við gerð og staðfestingu hennar.

13. gr.

Réttaráhrif verndaráætlunar.
     Sveitarstjórnir eru bundnar af efni verndaráætlunar við gerð skipulagsáætlana fyrir landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
     Mannvirkjagerð, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari eða landslagi í Vatnajökulsþjóðgarði. Ekki þarf sérstakt leyfi samkvæmt lögum þessum fyrir þeim framkvæmdum sem er gert ráð fyrir í verndaráætlun. Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga þessara, reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og verndaráætlunar og að farið sé að þeim skilyrðum sem viðkomandi framkvæmd voru sett í verndaráætlun. Að öðru leyti gilda ákvæði náttúruverndarlaga um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði.

IV. KAFLI
Almennar meginreglur.

14. gr.

Bann við spjöllum og raski.
     Óheimilt er að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Allar framkvæmdir innan þjóðgarðsins skulu samræmast verndarmarkmiðum þjóðgarðsins samkvæmt ákvæðum laga þessara, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og verndaráætlunar þjóðgarðsins. Heimilar eru framkvæmdir sem miða að því að endurheimta landgæði, verja lífríki, jarðmyndanir og landsvæði, svo sem vegna ágangs manna, dýra eða plantna eða vegna náttúruhamfara, ágangs vatns og sjávar, jarðvegseyðingar eða annarrar röskunar af völdum manna eða náttúru.

15. gr.

Umferð í þjóðgarðinum.
     Setja skal í reglugerð ákvæði um umferð gangandi vegfarenda, ríðandi eða hjólandi manna og um umferð vélknúinna ökutækja í Vatnajökulsþjóðgarði.
     Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og á leyfðum vetraraksturssvæðum, sbr. 3. mgr., svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin. Í reglugerð er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum á Vatnajökli allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins.
     Í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð skal gerð sérstök grein fyrir öllum vegum sem heimilt er að aka innan þjóðgarðsins. Enn fremur skal skilgreina þau svæði þar sem heimilt er að aka að vetri á snjó eða frosinni jörð og hvaða skilyrðum slíkur akstur er bundinn. Heimilt er að takmarka umferð á einstökum vegum, slóðum eða svæðum við tiltekinn tíma ársins eða binda hana við tiltekna notkun, svo sem vegna veiða, smölunar búfjár eða annarra landbúnaðarstarfa eða vegna rannsókna, ef það er talið nauðsynlegt vegna verndunar viðkomandi landsvæðis.
     Liggi landsvæði undir skemmdum og talið er nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða getur viðkomandi þjóðgarðsvörður tekið ákvörðun um tímabundna lokun afmarkaðs svæðis fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Ákvörðun þjóðgarðsvarðar um tímabundna lokun svæðis skal birt í B-deild Stjórnartíðinda og með öðrum áberandi hætti í dagblöðum og á vefsíðu þjóðgarðsins.
     Ákvæði þessara laga um akstur utan vega í Vatnajökulsþjóðgarði ganga framar ákvæðum náttúruverndarlaga um sama efni og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

V. KAFLI
Þjónusta í Vatnajökulsþjóðgarði.

16. gr.

Þjónustustöðvar.
     Þjónusta og upplýsingar eru veittar á starfsstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs. Meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins skulu staðsettar á eftirfarandi stöðum: Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri. Ráðherra ákveður nánari staðsetningu meginstarfsstöðva þjóðgarðsins í reglugerð.
     Í þjóðgarðinum skulu enn fremur reknar upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar þar sem almenningi er veitt fræðsla um náttúruvernd í Vatnajökulsþjóðgarði og þjónusta eftir því sem þörf krefur og samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar þjóðgarðsins. Meginstarfsstöðvar og upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar mynda þjónustunet þjóðgarðsins.

17. gr.

Samstarf stjórnar og svæðisráða.
     Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráð einstakra rekstrarsvæða skulu vinna saman að málefnum þjóðgarðsins og markmiðum hans skv. 2. gr.
     Árlega skal haldinn sameiginlegur ársfundur stjórnar, Umhverfisstofnunar og svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem fjallað skal um málefni þjóðgarðsins, kynningu hans og heildarstefnumörkun.
     Stjórn og rekstrarsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs skulu hafa sameiginlega heimasíðu á vefnum þar sem almenningi eru veittar upplýsingar og fræðsla um Vatnajökulsþjóðgarð.

VI. KAFLI
Eftirlit og úrskurður um ágreining.

18. gr.

Eftirlit.
     Þjóðgarðsverðir, hver á sínu rekstrarsvæði, hafa eftirlit með því að virt séu ákvæði laga þessara, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og verndaráætlunar fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðsverðir annast samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.
     Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum eða einstökum svæðum hans fyrirvaralaust ef hann telur að dvöl manna eða umferð geti spillt lífríki, jarðmyndunum eða landslagi eða ef hættuástand skapast í þjóðgarðinum vegna náttúruvár.
     Þjóðgarðsverði eða öðrum starfsmönnum þjóðgarðsins er heimilt að vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim sem brýtur ákvæði laga þessara og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð.

19. gr.

Ágreiningur um framkvæmd laganna.
     Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til umhverfisráðherra. Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi.
     Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök sem varnarþing eiga á Íslandi, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 2. og 3. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

20. gr.

Reglugerð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.
     Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skal í samráði við svæðisráð og Umhverfisstofnun gera tillögu til ráðherra um reglugerð fyrir þjóðgarðinn. Í reglugerðinni skal kveðið á um stofnun þjóðgarðsins, mörk hans, verndun, verndarstig, staðsetningu meginstarfsstöðva, landnýtingu, þ.m.t. veiðar, meðferð skotvopna, búfjárbeit, eyðingu vargs, mörk rekstrarsvæða, umgengni, umferð, samgönguleiðir og mengunarvarnir.
     Drög að reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð skulu kynnt sveitarstjórnum á svæðinu, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við þau. Leita skal álits Náttúrufræðistofnunar Íslands á vistfræðilegu þoli þeirra svæða þar sem ætlunin er að veiðar og búfjárbeit verði heimil. Við setningu reglugerðarinnar skal við það miðað að landnýting innan þjóðgarðsins sé sjálfbær að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

21. gr.

Gjaldtaka.
     Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu til að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum. Fjárhæð gjaldsins skal birt í reglugerð og byggjast á rekstraráætlun þjóðgarðsins alls sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leggur fyrir umhverfisráðherra til samþykktar. Heimilt er að ákveða að gjaldið sé föst fjárhæð miðað við dagsdvöl í þjóðgarðinum og veiti aðgang að þjónustu á vegum þjóðgarðsins á öllum rekstrarsvæðum hans. Heimilt er að innheimta sérstaklega fyrir aðgang að tjaldstæðum innan þjóðgarðsins. Heimilt er að veita afslátt af gjaldinu ef greitt er fyrir lengri tíma í senn eða ef greitt er fyrir marga aðila í einu. Gestagjöld skulu renna til Vatnajökulsþjóðgarðs óháð því á hvaða rekstrarsvæði þau eru innheimt. Ráðherra ákveður nánara fyrirkomulag gjaldtöku í reglugerð að fengnum tillögum stjórnar þjóðgarðsins.

22. gr.

Refsiábyrgð og dagsektir.
     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.
     Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 500.000 kr., til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum eða láta af atferli sem er ólögmætt.

23. gr.

Breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.
     Eftirfarandi breytingar verða á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum:
  1. Við 1. mgr. 38. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði gilda lög um Vatnajökulsþjóðgarð.
  2. Á eftir orðunum „sbr. 51. gr.“ í a-lið 50. gr. kemur: og lög um Vatnajökulsþjóðgarð.
  3. Við 51. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Ákvæði þessa kafla taka ekki til Vatnajökulsþjóðgarðs, sbr. lög um Vatnajökulsþjóðgarð.


24. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi taka gildi 1. maí 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.
  1. Stjórn og svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs skulu skipuð fyrir 1. júní 2007.
  2. Unnið skal að kortlagningu vega og heimilla vetraraksturssvæða í Vatnajökulsþjóðgarði, sbr. 3. mgr. 15. gr., samhliða gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn.
  3. Starfsmenn Skaftafellsþjóðgarðs og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum skulu eiga forgangsrétt til starfa í Vatnajökulsþjóðgarði á fyrsta starfsári þjóðgarðsins. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.
  4. Ákvæði laga þessara um stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs skulu eigi síðar en 1. janúar 2013 endurskoðuð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.
  5. Eigi síðar en tveimur árum eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs skal lokið gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Skal tillaga svæðisráða, sbr. 3. mgr. 12. gr., send stjórn þjóðgarðsins eigi síðar en 18 mánuðum eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
  6. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 13. gr. getur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs veitt leyfi fyrir framkvæmdum í Vatnajökulsþjóðgarði þar til verndaráætlun hefur tekið gildi. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en slíkt leyfi er veitt. Við veitingu slíks leyfis eða í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum eða landslagi í Vatnajökulsþjóðgarði. Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga þessara og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og að farið sé að þeim skilyrðum sem sett voru við útgáfu leyfis. Auglýsa skal á vefsíðu þjóðgarðsins og með öðrum áberandi hætti leyfi stjórnar sem veitt eru samkvæmt ákvæði þessu.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.