Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1365, 133. löggjafarþing 561. mál: lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins (ríkisstarfsmenn hjá alþjóðlegum stofnunum).
Lög nr. 62 27. mars 2007.

Lög um breyting á lögum er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Stjórn sjóðsins er með samþykki fjármálaráðherra heimilt að veita sjóðfélaga sem fær launalaust leyfi frá störfum til að starfa hjá alþjóðastofnun, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, rétt til að greiða áfram iðgjald til B-deildar sjóðsins á starfstíma hans hjá viðkomandi alþjóðastofnun, enda hafi hann átt aðild að B-deildinni er hann hóf störf erlendis og njóti ekki lífeyrisréttar hjá viðkomandi alþjóðastofnun. Stjórn sjóðsins skal ákveða viðmiðunarlaun fyrir starfið með hliðsjón af 6. mgr. 23. gr.

2. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „9,5%“ í 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: 7,5%.

3. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 41. gr. laganna og orðast svo:
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem falla undir samkomulag Norðurlandanna frá 1. júní 2001 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Fela má Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins framkvæmd samkomulagsins. Kostnaður sem hlýst af framkvæmd þess greiðist úr ríkissjóði.
     Heimilt er að ákveða í reglum, sbr. 1. mgr., að víkja megi frá skilyrðum laga þessara um upphaf lífeyristöku, enda teljist það nauðsynlegt við samhæfingu réttinda samkvæmt samkomulaginu. Með sama hætti má ákveða að upphæð ellilífeyris lækki svo að ekki aukist heildarskuldbindingar sjóðsins þegar ríkisstarfsmaður velur að hefja töku ellilífeyris fyrr en samkvæmt lögum þessum.
     Reikna skal út aukinn kostnað við greiðslu lífeyris sem kann að leiða af framkvæmd samkomulagsins og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð.
     Útreikningar skulu byggðir á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.
     Ágreiningi sem rísa kann út af beitingu samkomulagsins verður skotið til úrskurðar fjármálaráðherra.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.

4. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 27. gr. laganna og orðast svo:
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem falla undir samkomulag Norðurlandanna frá 1. júní 2001 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Fela má Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins framkvæmd samkomulagsins. Kostnaður sem hlýst af framkvæmd þess greiðist úr ríkissjóði.
     Heimilt er að ákveða í reglum, sbr. 1. mgr., að víkja megi frá skilyrðum laga þessara um upphaf lífeyristöku, enda teljist það nauðsynlegt við samhæfingu réttinda samkvæmt samkomulaginu. Með sama hætti má ákveða að upphæð ellilífeyris lækki svo að ekki aukist heildarskuldbindingar sjóðsins þegar ríkisstarfsmaður velur að hefja töku ellilífeyris fyrr en samkvæmt lögum þessum.
     Reikna skal út aukinn kostnað við greiðslu lífeyris sem kann að leiða af framkvæmd samkomulagsins og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð.
     Útreikningar skulu byggðir á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.
     Ágreiningi sem rísa kann út af beitingu samkomulagsins verður skotið til úrskurðar fjármálaráðherra.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 34. gr. laganna skal hlutfallið vera 7,5% frá 1. janúar 2007.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.