Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1408, 133. löggjafarþing 639. mál: náttúruvernd (rýmkun kæruréttar og aukin vernd bergtegunda).
Lög nr. 66 28. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar, í réttri stafrófsröð:
  1. Berg: Samsafn steinda, oftast margra mismunandi steinda, sem finnst í náttúrunni og ekki hefur orðið til fyrir tilverknað mannsins. Berggler, svo sem hrafntinna og biksteinn, telst einnig til bergtegunda.
  2. Steind: Fast efni með ákveðna samsetningu, oftast kristallað, sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og ekki hefur orðið til af manna völdum.
  3. Steingervingur: Leifar og steingerðar leifar lífveru eða för eftir hana sem finnast í jarðlögum.
  4. Umhverfisverndarsamtök: Samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
  5. Útivistarsamtök: Samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
  1. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Óheimilt er að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað. Umhverfisráðuneytið getur þó að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæði þessu í þágu jarðfræðirannsókna.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Steindir og steingervingar.


3. gr.

     2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laganna orðast svo: Náttúrumyndanir, svo sem fossa, eldstöðvar, hella og dranga, svo og fundarstaði steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og bergforma, sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúrumyndanir svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í friðlýsingu. Friðlýstar náttúrumyndanir nefnast náttúruvætti.

4. gr.

     Við 74. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðunum Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum þessum geta skotið málinu til ráðherra í þeim tilgangi að fá ákvarðanir felldar úr gildi eða þeim breytt. Umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök sem varnarþing eiga á Íslandi njóta sama réttar, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.