Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1404, 133. löggjafarþing 706. mál: þingsköp Alþingis.
Lög nr. 68 28. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992 og 102/1993.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
 1. Orðið „fasta“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Í stað orðsins „umræðunum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fundinum.
 3. 3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Tillögurnar má bera upp munnlega, án nokkurs fyrirvara, og greiða má atkvæði um þær í einu lagi.
 4. 3. mgr. orðast svo:
 5.      Við umræður um tillögur skv. 2. mgr. gilda sömu reglur og við 2. umræðu um lagafrumvörp.


2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.
     Meðan þingmaður hefur ekki unnið heit samkvæmt þessari grein má hann ekki taka þátt í þingstörfum, sbr. þó 5. mgr. 5. gr.

3. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Rétt kjörinn forseti er sá er hefur hlotið meira en helming greiddra atkvæða. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju. Fái þá heldur enginn nógu mörg atkvæði skal kjósa um þá tvo þingmenn er flest atkvæði fengu við síðari kosninguna. Hafi við þá kosningu fleiri en tveir fengið jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá jafnmörg atkvæði við þriðju kosninguna ræður hlutkesti hvor þeirra verður forseti.

4. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Kosning forseta, varaforseta, fastanefnda og alþjóðanefnda, sbr. 3., 13. og 35. gr., gildir fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó, hvenær sem er, kosið að nýju skv. 3., 13. og 35. gr. ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.
     Fráfarandi forseti og varaforsetar skulu gegna störfum frá kjördegi og fram til þingsetningar hafi þeir verið endurkjörnir alþingismenn. Sé forseti ekki endurkjörinn gegnir störfum hans sá varaforseti sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta, ella aldursforseti, sbr. 1. gr., sé enginn þeirra þingmaður lengur.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
 2.      Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann skal sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga.
       Forseti tekur við öllum erindum til Alþingis og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá þinginu eiga að fara. Forseti skýrir á þingfundi frá erindum sem send eru Alþingi og þingskjölum sem lögð eru fram meðan á þingfundi stendur.
       Beina má fyrirspurnum til forseta á þingskjali og óska skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. Gilda þá ákvæði 49. gr. um meðferð fyrirspurna eins og við getur átt.
 3. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hann getur sett almennar reglur um fundarsköp nefndanna og starfsaðstöðu, að höfðu samráði við formenn nefnda og þingflokka.


6. gr.

     3. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Skrifstofustjóri ræður aðra starfsmenn þingsins.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
 1. Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
 2.      Skrifstofustjóri Alþingis, eða fulltrúi hans, situr þingfundi og er forsetum til aðstoðar.
       Alþingistíðindi, B-deild, eru gerðabók þingsins, sbr. 2. mgr. 77. gr.
 3. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
 4.      Í skjalasafni Alþingis skal varðveita erindi er þinginu berast, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 28. gr., svo og gerðabækur þess, fundargerðir nefnda og önnur skjöl er varða starfsemi þingsins og rekstur eða Alþingi er falið að varðveita, sbr. og 10. gr. stjórnarskrárinnar.


8. gr.

     Síðari málsgrein 13. gr. laganna orðast svo:
     Fastanefndir skal kjósa á fyrsta fundi Alþingis að afloknum alþingiskosningum, sbr. 68. gr.

9. gr.

     4. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Nefnd getur, hvenær sem er, kosið að nýju formann eða varaformann ef fyrir liggur beiðni meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.

10. gr.

     Við 2. mgr. 17. gr. laganna bætist: nema þingflokkur hans ákveði annað. Skal þá fylgt reglum 3. mgr. um staðgengil. Ákvæði þetta á þó ekki við ef kosnir eru varamenn í nefndum. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig við fráfall þingmanns eða afsögn.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
 1. Orðið „byggðamálum“ í 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Á eftir 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal allsherjarnefnd fjalla um skýrslu umboðsmanns Alþingis áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skila áliti um hana.


12. gr.

     Við 3. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal fjárlaganefnd fjalla um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skila áliti um hana.

13. gr.

     Við 26. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Í skýrslu frá nefnd má og gera tillögu til þingsályktunar og kemur tillagan til afgreiðslu við lok umræðunnar um skýrsluna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 44. gr.

14. gr.

     35. gr. laganna orðast svo:
     Á Alþingi starfa þessar alþjóðanefndir:
 1. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU.
 2. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
 3. Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA.
 4. Íslandsdeild NATO-þingsins.
 5. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
 6. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
 7. Íslandsdeild þings Vestur-Evrópusambandsins, VES.
 8. Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE.
 9. Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.

     Í alþjóðanefndir skal kjósa samhliða kosningu fastanefnda skv. 13. gr. Í Íslandsdeild Norðurlandaráðs skulu kosnir sjö aðalmenn og jafnmargir varamenn, í Vestnorræna ráðið sex aðalmenn og jafnmargir varamenn og í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA fimm aðalmenn og jafnmargir varamenn. Í aðrar alþjóðanefndir skal kjósa þrjá aðalmenn og jafnmarga varamenn.
     Alþjóðanefndir skulu kjósa sér formann og varaformann.
     Um fundarsköp alþjóðanefnda gilda sömu reglur og um fastanefndir eftir því sem við á.
     Hver alþjóðanefnd skal hafa ritara sem er henni til aðstoðar.
     Forseti getur sett almennar reglur um störf alþjóðanefnda þingmanna.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
 1. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Forseti getur sett leiðbeiningarreglur um frágang lagafrumvarpa.
 2. Í stað orðanna „að meiri hluti þingmanna samþykki það“ í 2. mgr. kemur: að þingið samþykki það, sbr. 67. gr.


16. gr.

     Í stað síðari málsliðar 38. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Þá er þeirri umræðu er lokið gengur það til annarrar umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.

17. gr.

     Í stað síðari málsliðar 1. mgr. 39. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Síðan skal greiða atkvæði um greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær sem fram hafa komið, svo og um einstök atriði er þingmenn beiðast. Frumvarpið gengur síðan til 3. umræðu en þó skal leita atkvæða um það ef einhver þingmaður óskar þess.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
 1. Í stað síðari málsliðar 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Tillögur um vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra, tillögur um kosningu nefnda skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, svo og tillögur nefnda, sbr. 2. mgr. 26. gr., skulu þó ræddar og afgreiddar við eina umræðu eftir reglum um síðari umræðu um þingsályktunartillögur. Sama gildir um tillögur um frestun á fundum Alþingis samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar.
 2. Í stað 2. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Er fyrri umræðu er lokið gengur tillagan til síðari umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.
 3. Í stað orðanna „þessari málsmeðferð“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: ræðutíma við fyrri umræðu.
 4. Á eftir 3. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Séu engar breytingartillögur má þó bera tillöguna upp í heild.
 5. Í stað orðanna „að meiri hluti þings samþykki það“ í 6. mgr. kemur: að þingið samþykki það, sbr. 67. gr.


19. gr.

     Orðin „skal samþykkja gerðabók frá síðasta fundi, sbr. 12. gr. Þar næst“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. 53. gr. laganna falla brott.

20. gr.

     Síðari málsliður 3. mgr. 57. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
 1. 1. mgr. fellur brott.
 2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tillagan kemur eigi til afgreiðslu fyrr en við lok umræðu.


22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
 1. Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
 2.      Forseti getur gert hlé á fundum þingsins, í samræmi við starfsáætlun þess, sbr. 10. gr. og 1. mgr. 72. gr., en þó er honum skylt að boða til fundar, ef ósk berst um það frá forsætisráðherra eða meiri hluta þingmanna, með þeirri dagskrá sem slíkri ósk fylgir.
 3. 3. mgr., er verður 4. mgr., orðast svo:
 4.      Forseti getur ákveðið, ef ósk liggur fyrir um það og enginn þingmaður andmælir því, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum. Gildir þá ræðutími sem um eitt mál. Séu mál ósamkynja gildir sá ræðutími sem rýmstur er.


23. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „við nafnakall“ í síðari málslið 1. mgr. kemur: eða við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði.
 2. 2. mgr. fellur brott.


24. gr.

     Á eftir orðinu „ef“ í síðari málslið 65. gr. laganna kemur: þingflokkur eða.

25. gr.

     66. gr. laganna orðast svo:
     Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða úrslit máls séu ljós fyrir fram má hann lýsa yfir því að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað atkvæðagreiðslu. Um lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna verður forseti þó að viðhafa atkvæðagreiðslu.
     Atkvæðagreiðsla skal fara fram með rafeindabúnaði þar sem staðfest er hverjir taka þátt í henni og hvernig hver þingmaður greiðir atkvæði. Forseti skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar. Atkvæði hvers þingmanns við lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna skal skrásetja í þingtíðindum, svo og við aðrar atkvæðagreiðslur nema allir séu á einu máli. Skrifstofan varðveitir afrit allra atkvæðagreiðslna með rafeindabúnaði.
     Ef atkvæðagreiðsla getur eigi farið fram með rafeindabúnaði skal hún fara fram á þann hátt að hver þingmaður réttir upp hönd þegar forseti leitar atkvæða með eða móti máli eða hvaða þingmenn greiði ekki atkvæði. Forseti lætur telja atkvæðin, svo og þá sem greiða ekki atkvæði, og skýrir frá úrslitum.
     Forseti getur látið fara fram nafnakall í stað atkvæðagreiðslu skv. 2. eða 3. mgr. Honum er það og heimilt þótt atkvæðagreiðsla hafi áður farið fram ef hún hefur verið óglögg eða verið hreyft athugasemdum við hana, enda fari hin síðari atkvæðagreiðsla fram þegar í stað. Komi fram ósk um nafnakall skal við henni orðið. Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá í stafrófsröð og hlutað um í hvert sinn á hverri raðtölunni skuli byrja nafnakallið. Við nafnakall greiðir forseti atkvæði síðastur.
     Atkvæðagreiðslu skv. 2. mgr. má endurtaka þótt úrslitum hennar hafi verið lýst ef forseti telur ástæðu til þess eða ósk berst um það frá þingmanni. Hin nýja atkvæðagreiðsla skal þá fara fram þegar í stað og áður en nokkur önnur ályktun er gerð eða nýtt mál tekið fyrir. Vilji þingmaður á fundi gera leiðréttingu eftir að atkvæði hafa verið greidd skv. 2. mgr. er honum heimilt að láta skrá hana í þingtíðindin en þó því aðeins að hann hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Leiðréttingin breytir ekki úrslitum atkvæðagreiðslunnar.

26. gr.

     Við 67. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skal þá telja atkvæði með og móti máli.

27. gr.

     Í stað 2. mgr. 71. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Í þingflokki skulu vera a.m.k. þrír þingmenn. Tveir þingmenn geta þó myndað þingflokk enda sé til þingflokksins stofnað þegar að loknum kosningum og þingmennirnir kosnir á listum sama stjórnmálaflokks eða sömu stjórnmálasamtaka.
     Enginn þingmaður má eiga aðild að fleiri en einum þingflokki.

28. gr.

     73. gr. laganna orðast svo:
     Við upphaf hvers þings skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál tveimur sólarhringum áður en hún er flutt.
     Forseti skal gera tillögu og leita samkomulags um fyrirkomulag umræðunnar, lengd hennar, umferðir og ræðutíma forsætisráðherra, þingflokka og einstakra þingmanna, svo og þingmanna utan flokka. Ef ekki tekst samkomulag skal forseti ákveða fyrirkomulag umræðunnar en þingflokkur getur þó krafist þess að um ákvörðun forseta séu greidd atkvæði á þingfundi.
     Eftirriti stefnuræðunnar skal fylgja yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu. Yfirlitið skal prenta í þingtíðindunum.

29. gr.

     74. gr. laganna orðast svo:
     Á síðari hluta þings skal fara fram almenn stjórnmálaumræða. Um fyrirkomulag hennar gilda ákvæði 2. mgr. 73. gr.

30. gr.

     Í stað 75.–86. gr. laganna kemur ein ný grein, er verður 75. gr., er orðast svo:
     Útvarpa skal frá þingsetningu, stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana og almennri stjórnmálaumræðu.
     Útvarpa skal umræðu um vantraust ef þingflokkur krefst þess.
     Útvarpa skal umræðu um þingmál, eða hluta hennar, ef þingflokkur krefst þess og samkomulag er um það milli þingflokka eða forseti hefur ákveðið slíka umræðu eftir kröfu þingflokksins. Þingflokkurinn á rétt á, sé kröfu hans hafnað, að beiðni hans sé borin undir atkvæði á þingfundi.
     Um fyrirkomulag umræðu skv. 2. og 3. mgr. gilda ákvæði 2. mgr. 73. gr.
     Þegar segir að útvarpa skuli umræðum er skyldan bundin við Ríkisútvarpið.

31. gr.

     Við 87. gr. laganna, sem verður 76. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Að flutningi máls skv. 36. og 44. gr., svo og breytingartillagna við það, geta staðið þingmenn, ráðherrar, þingflokkar og fastanefndir, sérnefndir eða alþjóðanefndir, svo og forsætisnefnd.

32. gr.

     88. gr. laganna, sem verður 77. gr., orðast svo:
     Umræður á Alþingi og þingskjöl skal prenta í Alþingistíðindum. Skrifstofa Alþingis annast útgáfu Alþingistíðindanna.
     Í A-deild Alþingistíðinda skal prenta þingskjöl og í B-deild skal prenta allar umræður og auk þess dagskrár þingfunda, tilkynningar, atkvæðagreiðslur og hvað annað sem fram fer á þingfundum og geta þar afgreiðslu mála og málsatriða.
     Í Alþingistíðindunum má ekkert undan fella sem þar á að standa og fram hefur komið í þinginu og hljóðupptaka ber með sér. Engar efnisbreytingar má gera nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur. Engu má bæta inn í Alþingistíðindin, hvort sem það varðar menn eða málefni, nema þess sé óhjákvæmilega þörf eða í því felist sjálfsögð leiðrétting.
     Forseti getur sett nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda, þar á meðal um birtingu þeirra í rafrænum búningi.

33. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.