Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1298, 133. löggjafarþing 464. mál: íslenskur ríkisborgararéttur (próf í íslensku o.fl.).
Lög nr. 81 28. mars 2007.

Lög um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á undan 1. gr. laganna kemur kaflafyrirsögn er orðast svo: I. kafli, Ríkisborgararéttur við fæðingu o.fl.

2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Gangi foreldrar barnsins í hjúskap öðlast barnið íslenskan ríkisborgararétt við hjúskapinn ef það hefur eigi gengið í hjúskap og er eigi fullra 18 ára.

3. gr.

     5. gr. a laganna fellur brott.

4. gr.

     Á undan 6. gr. laganna kemur kaflafyrirsögn er orðast svo: II. kafli, Veiting ríkisborgararéttar með lögum.

5. gr.

     Í stað 7. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Veiting ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun, með fimm nýjum greinum er orðast svo, og breytist greinatala annarra greina laganna samkvæmt því:
     
     a. (7. gr.)
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. er dómsmálaráðherra heimilt, að fenginni umsögn lögreglu og Útlendingastofnunar, að veita íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn sem borin er fram af umsækjanda sjálfum eða forsjármönnum hans hafi hann ekki náð 18 ára aldri, enda fullnægi hann skilyrðum 8. og 9. gr.
     Heimild dómsmálaráðherra samkvæmt ákvæðum þessa kafla er bundin við þau mál þar sem vafalaust er að umsækjandi uppfylli lögmælt skilyrði. Er dómsmálaráðherra þó ávallt heimilt að vísa umsókn um ríkisborgararétt til ákvörðunar Alþingis sem eftir atvikum veitir umsækjanda ríkisborgararétt með lögum.
     Ákvarðanir skv. 2. mgr. eru undanþegnar III.–V. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og upplýsingalögum, nr. 50/1996.
     
     b. (8. gr.)
     Um veitingu íslensks ríkisborgararéttar skv. 1. mgr. 7. gr. gilda eftirtalin búsetuskilyrði:
 1. Umsækjandi hafi verið hér búsettur í sjö ár; ríkisborgari í einhverju Norðurlandanna þó einungis í fjögur ár.
 2. Umsækjandi, sem er í hjúskap eða staðfestri samvist með íslenskum ríkisborgara, hafi verið hér búsettur í þrjú ár frá giftingu eða stofnun staðfestrar samvistar, enda hafi hinn íslenski maki haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
 3. Umsækjandi, sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, hafi verið hér búsettur í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar, enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
 4. Umsækjandi, sem á íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri, hafi verið hér búsettur í tvö ár, enda hafi hið íslenska foreldri haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
 5. Umsækjandi, sem verið hefur íslenskur ríkisborgari en hefur gerst erlendur ríkisborgari, hafi verið hér búsettur í eitt ár.
 6. Flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi verið hér búsettur sem slíkur í fimm ár. Sama gildir um mann sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum.

     Skilyrði 1. mgr. miðast við fasta búsetu og lögheimili og samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu ár áður en umsókn er lögð fram. Heimilt er að víkja frá því skilyrði þótt dvöl umsækjanda hér hafi verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Sá tími, sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl, verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður samkvæmt áðurgreindum reglum að uppfylla.
     Umsækjandi skal uppfylla skilyrði þess að fá búsetuleyfi útgefið af Útlendingastofnun. Umsækjandi skal jafnframt hafa slíkt leyfi þegar sótt er um íslenskan ríkisborgararétt nema hann sé undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi hér á landi.
     
     c. (9. gr.)
     Um veitingu íslensks ríkisborgararéttar skv. 1. mgr. 7. gr. gilda að öðru leyti eftirtalin skilyrði:
 1. Umsækjandi hafi sannað með fullnægjandi hætti hver hann sé.
 2. Umsækjandi sé starfhæfur og vel kynntur og leggi m.a. því til staðfestingar fram álit tveggja valinkunnra íslenskra ríkisborgara.
 3. Umsækjandi hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð. Í reglugerð skal jafnframt mælt fyrir um undanþágur frá þessu skilyrði fyrir þá sem telja verður ósanngjarnt að gera þessa kröfu til.
 4. Árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert hjá umsækjanda sl. þrjú ár, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann í vanskilum með skattgreiðslur.
 5. Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sl. þrjú ár. Er umsækjanda skylt að sýna fram á að hann hafi framfært sig með löglegum hætti hér á landi og er dómsmálaráðuneytinu heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar.
 6. Umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Frá þessu má þó víkja að liðnum fresti sem hér greinir, enda sé ekki um að ræða endurtekin brot:
  1. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnu einu ári frá því að brot var framið sem sætti sekt lægri en 50.000 kr.
  2. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum þremur árum frá því að brot var framið sem sætti sekt að fjárhæð 50.000 kr. eða hærri.
  3. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum sex árum frá því að fangelsisrefsing í allt að 60 daga var afplánuð.
  4. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum átta árum frá því að fangelsisrefsing í allt að sex mánuði var afplánuð.
  5. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum tíu árum frá því að fangelsisrefsing í allt að eitt ár var afplánuð.
  6. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum 14 árum frá því að lengri fangelsisrefsing en eitt ár var afplánuð. Hið sama gildir um öryggisgæslu.
       Þegar talið er að refsing sé úttekin með gæsluvarðhaldi, eða hún skilorðsbundin að öllu leyti, reiknast tíminn samkvæmt þessum tölulið frá því að viðkomandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi eða skilorðsdómur kveðinn upp. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum þremur árum frá því að ákvörðun um skilorðsbundna ákærufrestun var tilkynnt.
       Nú hefur ákvörðun um refsingu verið frestað skilorðsbundið og skal þá eftir atvikum miðað við skilyrði þau sem greinir í c–f-liðum þessa töluliðar.

     
     d. (10. gr.)
     Dómsmálaráðherra er einnig heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt barni sem fætt er hér á landi og hefur sannanlega ekki öðlast annan ríkisborgararétt við fæðingu og hefur ekki öðlast hann né átt rétt til að öðlast hann þegar umsókn um ríkisborgararétt er borin fram. Barnið skal hafa átt lögheimili og samfellda dvöl hér á landi frá fæðingu í að minnsta kosti þrjú ár.
     Um börn þeirra sem fá ríkisborgararétt samkvæmt þessum kafla gilda ákvæði 5. gr., nema öðruvísi sé ákveðið.
     
     e. (11. gr.)
     Sektir eða fangelsi allt að einu ári liggur við því að veita íslenskum yfirvöldum rangar upplýsingar við umsókn um ríkisborgararétt.

6. gr.

     Á undan 8. gr. laganna, er verður 12. gr., kemur kaflafyrirsögn er orðast svo: IV. kafli, Önnur ákvæði.

7. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „8. gr.“ í 3. mgr. A-liðar 9. gr. b, 2. mgr. 11. gr. laganna og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lögin og tilvísunarinnar „9. gr. b“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: 12. gr.; og: 14. gr.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi nema ákvæði 3. tölul. c-liðar 5. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2009.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2007.