Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1382, 133. löggjafarþing 588. mál: veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald (heildarlög, leyfisveitingar).
Lög nr. 85 29. mars 2007.

Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.


I. KAFLI
Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið og yfirstjórn.
     Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
     Lög þessi taka til:
 1. sölu á gistingu,
 2. sölu og veitingar hvers kyns veitinga í atvinnuskyni á veitingastöðum og gististöðum og öðrum stöðum, svo sem samkomusölum eða um borð í skipum,
 3. tækifærisleyfa vegna skemmtanahalds,
 4. útleigu samkomusala í atvinnuskyni.

     Lög þessi taka þó hvorki til framleiðslu og dreifingar matvæla, sbr. lög um matvæli, né hollustuhátta, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Um veitingu og neyslu áfengis, að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum, fer eftir ákvæðum áfengislaga.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja allsherjarreglu í starfsemi veitinga- og gististaða og við skemmtanahald og stuðla að stöðugleika í rekstri, sem og að starfsemi falli að skipulagi viðkomandi sveitarfélags hverju sinni.

3. gr.

Flokkun gististaða.
     Gististaðir eru staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga. Heimagisting er gisting á heimili leigusala gegn endurgjaldi.
     Heimilt er að gera mismunandi kröfur til starfsemi í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum og haga gjaldtöku vegna þess eftir tegund og flokkun gististaða.
     Flokkun gististaða er sem hér segir:
 1. Heimagisting.
 2. Gististaður án veitinga.
 3. Gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum.
 4. Gististaður með minibar.
 5. Gististaður með bar og/eða veitingaaðstöðu þar sem áfengi er veitt.

     Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um einstakar tegundir gististaða, flokkun þeirra og búnað.

4. gr.

Flokkun veitingastaða.
     Veitingastaðir eru staðir þar sem eitthvað af eftirfarandi á við:
 1. Framreiddur er matur og/eða drykkur sem boðinn er viðskiptavinum í atvinnuskyni, til neyslu á staðnum, þar með taldir skemmtistaðir þar sem fram fer reglubundið skemmtanahald og samkomusalir sem leigðir eru í atvinnuskyni.
 2. Framreiddur er og boðinn til sölu, í atvinnuskyni, matur sem ekki er til neyslu á staðnum, enda er sú starfsemi meginstarfsemi staðarins.

     Heimilt er að gera mismunandi kröfur til starfsemi í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum og haga gjaldtöku þess eftir tegund og flokkun veitingastaða.
     Veitingastaðir flokkast með eftirfarandi hætti:
 1. Staðir án áfengisveitinga.
 2. Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23 og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu.
 3. Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.

     Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Leyfisveitandi getur þó heimilað í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastað, að fengnum jákvæðum umsögnum umsagnaraðila skv. 10. gr. Á slíkum stöðum er sýnendum óheimilt að fara um á meðal áhorfenda og jafnframt eru hvers konar einkasýningar bannaðar.
     Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um einstakar tegundir veitingastaða, flokkun þeirra og búnað.

II. KAFLI
Almenn ákvæði um veitingastaði.

5. gr.

Dvöl ungmenna á veitingastöðum.
     Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. Dyraverðir, eftirlitsmenn, framreiðslumenn og/eða aðrir sem ábyrgð bera á rekstri staðarins skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 22 að kvöldi, án framangreindrar fylgdar, sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.
     Veita má í reglugerð undanþágu frá reglu 1. mgr. sem tekur til ákveðinna tegunda veitingastaða og sérstakra tilefna, svo sem skóladansleikja, enda fari engar áfengisveitingar þar fram og afgreiðslutími viðkomandi veitingastaðar sé í samræmi við heimilan afgreiðslutíma samkvæmt rekstrarleyfi staðarins, nema sótt hafi verið um tímabundið leyfi skv. 4. mgr. 18. gr.

6. gr.

Dyravarsla.
     Dyravarsla á veitingahúsum og öðrum samkomum fer eftir flokkun þeirra, tegund, stærð, afgreiðslutíma og hvort um áfengisveitingar er að ræða. Nánar skal kveða á um hæfni og þjálfun dyravarða í reglugerð og er heimilt að kveða þar á um að dyraverðir skuli sækja sérstök námskeið þar sem farið er yfir atriði sem á reynir við dyravörslu, svo sem ákvæði áfengislaga, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum og hvernig þekkja megi merki um neyslu og sölu ólöglegra vímuefna. Leyfisveitanda er heimilt að binda útgáfu rekstrarleyfis því skilyrði að hluti dyravarða hafi lokið slíku námskeiði.
     Nánar skal kveða á um skyldu til dyravörslu og framkvæmd námskeiða í reglugerð.

III. KAFLI
Leyfisveitingar.

7. gr.

Leyfisskylda.
     Hver sá sem hyggst stunda starfsemi sem fellur undir lög þessi skal hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda. Í rekstrarleyfi getur falist leyfi til sölu gistingar og/eða veitingar og sölu veitinga, hvort sem er í mat eða drykk, bæði áfengra og óáfengra, og/eða útleigu samkomusala í atvinnuskyni.
     Rekstrarleyfið skal tilgreina þann flokk og þá tegund staðar sem starfsemi fellur undir og leyfi fæst fyrir.
     Leyfisveitendur samkvæmt lögum þessum eru sýslumenn að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans.
     Leyfishafi skal hafa leyfisbréf til leyfisskyldrar starfsemi samkvæmt lögum þessum sýnilegt fyrir viðskiptavinum þar sem leyfisskyld starfsemi fer fram.

8. gr.

Skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla.
     Til þess að öðlast rekstrarleyfi þarf umsækjandi og/eða forsvarsmaður umsækjanda ef hann er lögaðili að uppfylla eftirfarandi skilyrði og framvísa nauðsynlegum vottorðum því til staðfestingar:
 1. Hafa búsetu á Íslandi.
 2. Vera lögráða og hafa náð a.m.k. 20 ára aldri á umsóknardegi.
 3. Hafa forræði á búi sínu.
 4. Hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra.
 5. Hafa ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög, lög um ávana- og fíkniefni, lög um hlutafélög, lög um einkahlutafélög, lög um bókhald, lög um ársreikninga, lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um tryggingagjald né lög þessi sem og reglur settar samkvæmt tilgreindum lögum.
 6. Hafa ekki verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn.
 7. Skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr.

     Ákvæði c–g-liðar 1. mgr. gilda jafnt um umsækjanda sem er lögaðili og forsvarsmann umsækjanda.
     Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði rekstrarleyfis og gögn sem afla þarf.

9. gr.

Umsókn.
     Umsækjandi um leyfi samkvæmt lögum þessum getur verið hvort sem er einstaklingur eða lögaðili. Ef leyfishafi er lögaðili skal tilgreindur forsvarsmaður sem jafnframt ber ábyrgð á rekstrinum og uppfyllir skilyrði laga þessara.
     Umsókn skal vera skrifleg og send leyfisveitanda í því umdæmi þar sem leyfisskyld starfsemi er fyrirhuguð. Sækja skal um rekstrarleyfi vegna sölu veitinga um borð í skipum til leyfisveitanda þar sem heimahöfn skipsins er samkvæmt lögum um skráningu skipa.
     Umsóknareyðublað skal vera tiltækt bæði á prentuðu formi hjá leyfisveitanda og rafrænt á heimasíðu hans. Skal þar getið um þau gögn sem fylgja þurfa umsókn.
     Heimilt er að skila umsókn rafrænt og skal á umsókn vera heimild til handa umsækjanda að fela leyfisveitanda að afla nauðsynlegra gagna sem fylgja þurfa umsókn rafrænt, þar sem slíkt er mögulegt. Kjósi umsækjandi að nýta sér þessa heimild skal það skoðast sem upplýst samþykki í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
     Heimilt er að kveða nánar á um það sem koma þarf fram í umsókn og um fylgigögn með umsókn í reglugerð.

10. gr.

Umsóknarferli.
     Útgáfa rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum er háð því að starfsleyfi, sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli, fáist fyrir þeirri starfsemi sem umsókn lýtur að.
     Liggi starfsleyfi heilbrigðisnefndar ekki fyrir þegar sótt er um rekstrarleyfi getur umsækjandi sótt um slíkt leyfi samhliða umsókn um rekstrarleyfi á þar til gerðu eyðublaði sem nálgast má hjá leyfisveitanda, hvort sem er á skrifstofu hans eða heimasíðu. Um umsókn um starfsleyfi fer eftir ákvæðum laga og reglna sem um slík leyfi gilda.
     Þegar fullnægjandi umsókn um rekstrarleyfi hefur borist leyfisveitanda skal hann þegar í stað senda umsókn til umsagnaraðila skv. 4. mgr. þrátt fyrir að starfsleyfi liggi ekki fyrir.
     Leyfisveitandi skal leita umsagna eftirtalinna aðila í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð og skulu umsagnir vera skýrar og rökstuddar:
 1. Sveitarstjórnar sem m.a. staðfestir að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
 2. Heilbrigðisnefndar sem gætir að samræmi við starfsleyfi og metur grenndaráhrif starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist.
 3. Slökkviliðs sem staðfestir að kröfum um brunavarnir sé fullnægt.
 4. Vinnueftirlits sem m.a. kannar hvort aðstæður á vinnustað séu í samræmi við ákvæði laga og reglna.
 5. Byggingarfulltrúa sem m.a. staðfestir að starfsemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála sem og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
 6. Lögreglu sem m.a. kveður á um nauðsyn til dyravörslu.

     Óheimilt er að gefa út rekstrarleyfi ef einhver framangreindra aðila leggst gegn útgáfu leyfisins og skal rekstrarleyfi jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögnunum.
     Leita skal umsagnar Siglingastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til veitingarekstrar um borð í skipi auk annarra umsagna eftir því sem við á.
     Heimilt er með reglugerð að kveða nánar á um umsóknarferli vegna rekstrarleyfa, þar á meðal útgáfu leiðbeininga fyrir umsagnaraðila um þau atriði sem umsögn skal lúta að og tímafresti.

11. gr.

Rekstrarleyfi.
     Rekstrarleyfi til starfsemi samkvæmt lögum þessum skal veitt til fjögurra ára í senn og getur leyfishafi sótt um endurnýjun leyfis að þeim tíma loknum.
     Heimilt er að veita rekstrarleyfi til skemmri tíma óski umsækjandi eftir því eða sérstakar ástæður mæla með því en þó ekki í styttri tíma en til eins árs í senn. Rekstrarleyfi er bundið við leyfishafa og er á engan hátt framseljanlegt. Þá er rekstrarleyfið jafnframt bundið við hina tilgreindu starfsemi og staðsetningu.
     Í rekstrarleyfi skal koma fram gildistími leyfis, sú starfsemi sem veitt er leyfi fyrir og þau skilyrði sem sett eru fyrir leyfi, svo sem um gestafjölda, heimilan afgreiðslutíma, heimild til útiveitinga, dyravörslu, hávaða, umgengni, öryggi, þrifnað og annan aðbúnað.
     Heimilt er að binda rekstrarleyfi mismunandi skilyrðum og haga töku leyfisgjalds eftir flokkun og tegund starfsemi. Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um mismunandi kröfur sem gera má til starfsemi og mismunandi skilyrði sem setja má fyrir rekstrarleyfi eftir tegund og flokkun staða og annað það sem koma skal fram í rekstrarleyfi.

12. gr.

Breytingar er varða rekstrarleyfi og leyfishafa.
     Leyfishafi skal tilkynna leyfisveitanda þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi. Kalli þær á breytingar á skilmálum gildandi rekstrarleyfis skal sótt um slíkar breytingar sérstaklega til leyfisveitanda.
     Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi er fyrir samkvæmt lögum þessum eða hyggist leyfishafi hætta hinni leyfisskyldu starfsemi skal það tilkynnt leyfisveitanda án tafar. Leyfishafi ber ábyrgð á rekstrinum þar til slík tilkynning hefur borist leyfisveitanda en nýr aðili sem við rekstrinum tekur frá þeim tíma og skal hann þegar í stað sækja um nýtt rekstrarleyfi.
     Með umsókn skv. 1.–2. mgr. skal að jafnaði fara eftir ákvæðum 9.–11. gr. eftir því sem við á. Leyfisveitanda er þó heimilt að falla frá öflun umsagna skv. 10. gr. að öllu leyti eða hluta ef um umsókn skv. 2. mgr. er að ræða telji hann slíkt óþarft, svo sem ef ekki er um breytingar að ræða á starfsemi sem rekstrarleyfi tekur til. Um umsókn og skilyrði fyrir rekstrarleyfi fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara.
     Á meðan umsókn skv. 1.–2. mgr. er til meðferðar má leyfisveitandi gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra leyfi, til allt að þriggja mánaða. Að liðnum þriggja mánaða gildistíma bráðabirgðaleyfis verður bráðabirgðaleyfi einungis framlengt ef umsækjanda verður ekki kennt um tafir á útgáfu rekstrarleyfis.
     Leyfisveitandi skal tilkynna umsagnaraðilum um nýjan rekstraraðila eftir því sem við á.
     Gildistími rekstrarleyfis sem sótt er um breytingar á skv. 1. mgr. breytist ekki við breytingar á starfsemi nema leyfisveitandi telji sérstakar ástæður til þess. Við gjaldtöku vegna viðbótarstarfsemi skal miða við mismun gjalds vegna upphaflegs rekstrarleyfis og gjalds fyrir rekstrarleyfi eftir breytingu.

13. gr.

Endurnýjun rekstrarleyfis.
     Leyfishafi sem vill endurnýja rekstrarleyfi sitt skal sækja um endurnýjun til leyfisveitanda a.m.k. tveimur mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út.
     Meðan umsókn um endurnýjun er til meðferðar er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra rekstrarleyfi, til allt að þriggja mánaða. Gildistími bráðabirgðaleyfis verður þó aldrei lengri en þrír mánuðir frá því að rekstrarleyfi rann út. Að þeim tíma liðnum verður bráðabirgðaleyfi ekki framlengt nema tafir á afgreiðslu endurnýjunar sé ekki að rekja til umsækjanda. Óheimilt er að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi hafi umsókn um endurnýjun borist eftir að fyrra rekstrarleyfi rann út.
     Við mat á umsókn um endurnýjun skal taka mið af því hvernig starfsemi hefur gengið á leyfistíma og þeirri reynslu sem fengist hefur af rekstrinum. Skal við það hafa hliðsjón af tilkynningum og upplýsingum sem borist hafa frá eftirlitsaðilum skv. 21. gr. á leyfistíma og skal leyfisveitandi leita upplýsinga frá eftirlitsaðilum skv. 21. gr. og umsagna skv. 10. gr., um starfsemi, eftir því sem hann telur nauðsynlegt til afgreiðslu umsóknar.
     Ef ekki er um breytingar á starfsemi að ræða og starfsemi hefur verið athugasemdalaus af hálfu eftirlitsaðila skv. 21. gr. á leyfistíma er leyfisveitanda heimilt að gefa út nýtt rekstrarleyfi án þess að leita umsagna skv. 10. gr.
     Um endurnýjun starfsleyfis heilbrigðisnefnda fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

IV. KAFLI
Synjun, brottfall, afturköllun og svipting rekstrarleyfis.

14. gr.

Synjun rekstrarleyfis.
     Leyfisveitandi synjar um rekstrarleyfi ef einhver af skilyrðum 8. gr. eru ekki uppfyllt og/eða einhver umsagnaraðila skv. 10. gr. mælir gegn útgáfu rekstrarleyfis.
     Umsækjanda skal tilkynnt um fyrirhugaða synjun skriflega og skal þar getið um ástæður hennar. Skal umsækjanda gefinn kostur á að bæta úr því sem er ábótavant við umsókn, ef þess er kostur, innan hæfilegs tíma sem tilgreindur skal í tilkynningu. Að öðrum kosti skal umsókn synjað.

15. gr.

Brottfall, innlögn, afturköllun og svipting rekstrarleyfis.
     Rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum fellur niður við lok gildistíma sem tiltekinn er í leyfisbréfi. Rekstrarleyfi telst jafnframt niður fallið frá þeim tíma þegar það er móttekið hjá leyfisveitanda kjósi leyfishafi að leggja það inn.
     Leyfisveitandi skal afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi eða forsvarsmaður uppfyllir ekki lengur skilyrði 8. gr., sbr. þó heimild 16. gr.
     Leyfisveitanda er heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfi tímabundið verði hann eða forsvarsmaður hans uppvís að því að misnota rekstrarleyfið eða vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum sem um reksturinn gilda eða brjóti hann að öðru leyti gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Verði leyfishafi uppvís að ítrekuðum brotum samkvæmt þessari málsgrein er leyfisveitanda heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfinu að fullu.
     Áður en kemur til afturköllunar skv. 2. mgr. eða sviptingar skv. 3. mgr. skal leyfisveitandi senda leyfishafa viðvörun þar um, þar sem fram komi tilefni afturköllunar eða sviptingar og skal leyfishafa eftir atvikum gefinn frestur til að bæta úr annmörkum sé það mögulegt.
     Komi til afturköllunar eða sviptingar rekstrarleyfis skal leyfishafa tilkynnt um það skriflega og frá hvaða tíma rekstrarleyfið telst niður fallið og skal leyfishafi skila leyfisbréfi til leyfisveitanda án tafar fyrir þau tímamörk. Leyfisveitandi skal tilkynna heilbrigðisnefnd um afturköllun eða sviptingu rekstrarleyfis.
     Við innlögn rekstrarleyfis á leyfishafi ekki rétt á endurgreiðslu hluta gjalds sem greitt var fyrir rekstrarleyfi þótt leyfistími sé ekki liðinn. Sama gildir ef rekstrarleyfi er afturkallað skv. 2. mgr. eða leyfishafi er sviptur rekstrarleyfi skv. 3. mgr.
     Beita skal úrræði 23. gr. um lokun staðar ef starfsemi er haldið áfram eftir brottfall rekstrarleyfis, afturköllun eða sviptingu þess skv. 1.–3. mgr.

16. gr.

Gjaldþrot eða andlát.
     Þrotabúi leyfishafa er heimilt að halda starfsemi áfram meðan á skiptum stendur og tekur skiptastjóri þrotabúsins þá stöðu leyfishafa.
     Dánarbúi leyfishafa eða þeim sem hefur tekið við starfsemi að arfi er heimilt að halda starfseminni áfram í allt að eitt ár eftir andlát leyfishafa án nýs rekstrarleyfis en sækja skal um bráðabirgðaleyfi ef rekstrarleyfi rennur út innan ársins. Að þeim tíma liðnum skal erfingi sækja um rekstrarleyfi vilji hann halda starfsemi áfram.

V. KAFLI
Tækifærisleyfi.

17. gr.

Tækifærisleyfi.
     Sækja þarf um leyfi fyrir einstakar skemmtanir og atburði sem fram fara utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni og eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða, og kalla á eftirlit og/eða löggæslu. Hér undir geta fallið t.d. útihátíðir, útitónleikar, skóladansleikir og tjaldsamkomur. Leyfi samkvæmt ákvæði þessu er bundið við einstaka skemmtun og/eða atburð og skal gildistími að jafnaði ekki vera lengri en 7 dagar. Ekki þarf leyfi fyrir einkasamkvæmum.
     Sækja skal um tækifærisleyfi með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Umsækjandi og/eða forsvarsmaður ef umsækjandi er lögaðili skal uppfylla skilyrði 8. gr. eftir því sem við á. Leyfisveitanda er þó heimilt að víkja frá fjárræðisskilyrði í því tilviki að umsækjandi hafi ekki náð tilskildum aldri enda verði tilnefndur ábyrgðarmaður að skemmtun eða atburði sem uppfyllir skilyrðið.
     Leyfisveitandi getur bundið leyfi eftirfarandi skilyrðum að fenginni umsögn lögreglustjóra:
 1. að sá sem fyrir skemmtun stendur geri fullnægjandi ráðstafanir til að halda uppi reglu, öryggi og velsæmi,
 2. að eigi annist aðrir dyravörslu en hann samþykkir,
 3. að lögreglumenn verði á skemmtuninni,
 4. að sá sem fyrir skemmtun stendur greiði kostnað af ráðstöfunum sem lögreglustjóri ákveður í samráði við umsækjanda,
 5. öðrum þeim skilyrðum sem nauðsyn ber til, svo sem um aldur og fjölda gesta og slit skemmtunar.

     Leyfisveitandi skal jafnframt leita umsagna heilbrigðisnefnda og slökkviliðs og eftir atvikum annarra umsagnaraðila skv. 10. gr.
     Heimilt er leyfisveitanda að krefja leyfishafa um þann kostnað sem leiðir af aukinni löggæslu umfram venjubundna löggæslu á sama tíma. Getur leyfisveitandi krafist þess að sá kostnaður verði greiddur fyrir fram eða trygging sett fyrir greiðslu hans.
     Ákvæði 23. gr. gilda um úrræði vegna brota gegn ákvæði þessu.
     Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd við útgáfu leyfa, skilyrði fyrir leyfum og innheimtu og ákvörðun löggæslukostnaðar.

18. gr.

Tímabundin áfengisveitingaleyfi.
     Sækja þarf um leyfi til sölu og/eða afhendingar áfengisveitinga við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu veitinganna er að ræða eða hvers kyns afhendingu þeirra, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í hvers konar samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innan dyra, undir berum himni eða í tjaldi. Slík leyfi verða eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en tólf sinnum ár hvert vegna sama staðar.
     Ekki þarf leyfi fyrir áfengisveitingum í einkasamkvæmum.
     Tímabundið leyfi samkvæmt ákvæði þessu verður ekki gefið út til veitingar og/eða sölu áfengisveitinga á stað sem hefur fengið útgefið rekstrarleyfi heldur fara allar áfengisveitingar á slíkum stöðum fram á grundvelli rekstrarleyfisins og á ábyrgð leyfishafa.
     Rekstrarleyfishafa er heimilt að sækja um leyfi samkvæmt ákvæði þessu sem viðbót við gilt rekstrarleyfi, svo sem vegna tímabundins viðbótarafgreiðslutíma áfengisveitinga.
     Um leyfi samkvæmt ákvæði þessu fer samkvæmt ákvæðum 17. gr. eftir því sem við á og er leyfið bundið við einstaka atburði og getur gilt í allt að 7 daga hið mesta. Ákvæði 23. gr. gilda um úrræði vegna brota gegn ákvæði þessu.
     Heimilt er að kveða nánar á um framkvæmd leyfisveitinga samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.

VI. KAFLI
Upplýsingaskylda, eftirlit, viðurlög o.fl.

19. gr.

Upplýsingaskylda.
     Rekstraraðilar er undir þessi lög falla skulu veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt nánari fyrirmælum Hagstofu Íslands eða viðkomandi stjórnvalds. Slíkar upplýsingar skulu einungis notaðar til könnunar og skipulagningar á ferðaþjónustu almennt og/eða rekstri veitingastaða og gististaða sérstaklega sem atvinnugreinar.

20. gr.

Skrá.
     Leyfisveitandi skal skrá útgefin rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum í miðlægt leyfakerfi sem nánar er kveðið á um í reglugerð og birta rekstrarleyfi í gildi með aðgengilegum hætti, svo sem á heimasíðu sinni. Skráin skal innihalda upplýsingar um nafn leyfishafa, kennitölu, hvar aðalstarfsemin er rekin, útgáfu rekstrarleyfis og annað sem ákveðið kann að vera í reglugerð.

21. gr.

Eftirlit.
     Lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal eftirlit með því að leyfishafi uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi, að fylgt sé skilyrðum sem leyfi er bundið, svo sem um dyravörslu, leyfilegan afgreiðslutíma og gestafjölda, einnig að fylgt sé ákvæðum laganna um dvöl ungmenna á veitingastöðum og um áfengisveitingar.
     Um eftirlit með starfsemi sem lög þessi taka til fer að öðru leyti samkvæmt lögum og reglugerðum um matvæli, hollustuhætti og mengunarvarnir, eftirlit, aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, brunamál og öðrum lögum sem átt geta við um viðkomandi starfsemi. Eftirlitið er í höndum þeirra sem lögin kveða á um hverju sinni.
     Heilbrigðisnefnd skal tilkynna viðkomandi leyfisveitanda ef fyrirhuguð er svipting starfsleyfis.
     Eftirlitsaðilar skulu tilkynna leyfisveitanda um alvarlegar athugasemdir sem þeir kunna að gera við rekstur leyfishafa og annað sem er tilefni athugasemda af þeirra hálfu við starfsemi og áhrif kann að hafa á rekstrarleyfið og endurnýjun þess, sem og ef fyrirhuguð er stöðvun starfseminnar á grundvelli heimildar í lögum skv. 2. mgr.

22. gr.

Viðurlög vegna brota.
     Hver sá er brýtur gegn 5. gr. um dvöl ungmenna á veitingastöðum eða rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis, sbr. 7., 12., 17. og/eða 18. gr., skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Brot gegn reglugerðum settum með stoð í lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Misbeiti leyfishafi sem hefur leyfi til veitingar áfengis leyfi sínu með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt gegn fyrirmælum sem um áfengisveitingar gilda, varðar það refsingu samkvæmt áfengislögum.
     Gera má lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 1. og 2. mgr.
     Heimilt er jafnframt í tilefni brota skv. 1. og 2. mgr. að beita úrræði 23. gr. um lokun starfsstöðvar þar sem brot er framið.

23. gr.

Þvingunarúrræði.
     Lögreglustjóri skal án fyrirvara eða aðvörunar stöðva leyfisskylda starfsemi sem fer fram án tilskilins leyfis. Á það við um eftirfarandi tilvik:
 1. Þegar ekki hefur verið gefið út rekstrarleyfi vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi, útrunnið rekstrarleyfi hefur ekki verið endurnýjað, nýr rekstraraðili hefur ekki fengið útgefið nýtt rekstrarleyfi, rekstrarleyfi hefur verið lagt inn, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því.
 2. Þegar leyfisskyld starfsemi fer út fyrir mörk og skilmála útgefins rekstrarleyfis, svo sem varðandi heimilaðan afgreiðslutíma og þá tegund leyfisskyldrar starfsemi sem hið útgefna rekstrarleyfi tekur til.
 3. Þegar veitingar áfengis, sem leyfisskyldar eru skv. 18. gr., fara fram án tilskilins leyfis eða út fyrir mörk og skilmála útgefins leyfis.

     Lögreglustjóri skal jafnframt slíta samkomu sem fram fer á grundvelli 17. gr. ef hún brýtur gegn ákvæðum laga eða brotin eru fyrirmæli eða skilyrði sem leyfisveitandi hefur sett, ef regla á samkomu er eigi nægilega góð eða þegar slík samkoma fer fram án tilskilins leyfis.
     Lögreglustjóri skal tilkynna heilbrigðisnefnd um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt ákvæði þessu.

24. gr.

Gjaldtaka.
     Um gjald fyrir rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

25. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

26. gr.

Kæruheimild.
     Stjórnsýsluákvörðunum leyfisveitanda, svo sem um synjun á útgáfu leyfa og ákvörðun um sviptingu leyfa, má skjóta til ráðuneytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum.

VII. KAFLI
Gildistaka, brottfall laga o.fl.

27. gr.

Gildistaka og brottfall laga.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2007.
     Við gildistöku laga þessara falla brott eftirfarandi lög:
 1. lög nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði, og
 2. lög nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma.


28. gr.

Brottfall og breyting lagaákvæða.
     Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga sem hér segir:
 1. Áfengislög, nr. 75/1998, með áorðnum breytingum:
  1. Orðið „veitingar“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. fellur brott.
  2. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. fellur brott.
  3. Á eftir 1. mgr. 3. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Um leyfi til veitingar áfengis fer eftir lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
  5. Orðið „veitingar“ í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. fellur brott.
  6. 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. fellur brott.
  7. Í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. kemur: lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
  8. V. kafli fellur brott.
  9. 2. mgr. 18. gr. fellur brott.
  10. Á eftir „3. gr.“ í 4. mgr. 19. gr. kemur: laga þessara og III. kafla laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
  11. Orðin „eða lögreglustjóri“ í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. falla brott og í stað orðsins „ríkislögreglustjóri“ kemur: lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
  12. VIII. kafli fellur brott.
 2. Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með áorðnum breytingum: Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr.:
  1. 20.–24. tölul. orðast svo:
   1. Gistileyfi skv. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald     
    1. flokkur I     18.500 kr.
    2. flokkur II     18.500 kr.
    3. flokkur III     24.500 kr.
    4. flokkur IV     74.500 kr.
    5. flokkur V     161.500 kr.
   2. Veitingaleyfi skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald     
    1. flokkur I     18.500 kr.
    2. flokkur II     124.500 kr.
    3. flokkur III     161.500 kr.
   3. Tækifærisleyfi skv. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald     6.000 kr.
   4. Tímabundið áfengisveitingaleyfi skv. 18. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald     20.000 kr.
   5. Endurnýjun     
    1. rekstrarleyfa skv. a–c-lið 20. tölul. og a-lið 21. tölul.     5.500 kr.
    2. rekstrarleyfa skv. d-lið 20. tölul.     25.000 kr.
    3. rekstrarleyfa skv. e-lið 20. tölul. og b–c-lið 21. tölul.     50.000 kr.
  2. 32. tölul. fellur brott.
  3. 47. tölul. fellur brott.
 3. Lögreglulög, nr. 90/1996: Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr.:
  1. 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðanna „Enn fremur má í slíkum reglum“ í 2. mgr. kemur: Lögreglustjóra er heimilt í sérstökum reglum sem dómsmálaráðherra setur að.
 4. Lög um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með áorðnum breytingum: 2. mgr. 7. gr. fellur brott.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Veitinga-, áfengisveitinga- og skemmtanaleyfi.
     Leyfishafar sem hafa í gildi leyfi til sölu veitinga og gistingar samkvæmt lögum nr. 67/1985, áfengissöluleyfi skv. V. kafla á fengislaga, nr. 75/1998, og skemmtanaleyfi samkvæmt reglugerð nr. 587/1987, sbr. lög nr. 120/1947, geta sótt um og fengið endurnýjað rekstrarleyfi skv. 13. gr. þegar einhver framangreindra leyfa renna út, þó ekki síðar en tveimur árum frá gildistöku laga þessara. Að þeim tíma liðnum þarf leyfishafi að sækja um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum.
     Leyfishafi sem sækir um endurnýjun rekstrarleyfis skv. 1. mgr. skal uppfylla skilyrði 8. gr. og jafnframt skal starfsemi hans hafa verið óaðfinnanleg á leyfistíma. Áður en endurnýjað rekstrarleyfi er gefið út leitar leyfisveitandi umsagna og álits aðila skv. 10. og 21. gr. í því skyni að kanna hvort rekstur hafi verið athugasemdalaus af þeirra hálfu og hvort ástæða er til að leggjast gegn endurnýjun og hvort setja þarf frekari skilyrði fyrir starfseminni. Í því tilviki að fallist er á endurnýjun er gefið út rekstrarleyfi. Allar breytingar á starfsemi frá fyrri leyfum, sbr. 1. mgr., kalla á umsókn um rekstrarleyfi.

II.
Tryggingar.
     Innheimtumanni ríkissjóðs er heimilt að fella niður tryggingar sem grundvallast á 14. gr. áfengislaga við gildistöku laga þessara hafi leyfishafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á því tímamarki. Hafi leyfishafi verið úrskurðaður gjaldþrota við gildistöku laga þessara skal tryggingin halda gildi sínu og skiptastjóri innheimta hana hjá ábyrgðaraðila.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.