Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 46, 134. löggjafarþing 1. mál: Stjórnarráð Íslands (sameining ráðuneyta, tilfærsla verkefna).
Lög nr. 109 25. júní 2007.

Lög um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.


1. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „félagsmálaráðuneyti“ í 1. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðuneyti.
  2. Orðin „Hagstofa Íslands“ í 1. mgr. falla brott.
  3. Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti“ í 1. mgr. kemur: heilbrigðisráðuneyti.
  4. Orðið „landbúnaðarráðuneyti“ í 1. mgr. fellur brott.
  5. Í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneyti“ í 1. mgr. kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
  6. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands.


2. gr.

     Orðin „og hagstofustjóri“ í 1. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     Við 3. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama á við ef starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er boðið annað starf innan Stjórnarráðsins. Í reglum, sem forsætisráðherra setur, skal mæla fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis.

4. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta, sbr. 8. gr., og skal þá bjóða hlutaðeigandi starfsmönnum að sinna þeim áfram í því ráðuneyti er tekur við málefninu. Við flutninginn verða ekki breytingar á starfskjörum starfsmanna. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eiga ekki við um ráðstöfun starfa samkvæmt þessari grein.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi að frátöldum a–e-lið 1. gr. og 2. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2008.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2007.