Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1276, 135. löggjafarþing 548. mál: stimpilgjald (undanþágur frá gjaldi).
Lög nr. 59 7. júní 2008.

Lög um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, svohljóðandi:
     Skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings eru stimpilfrjáls samkvæmt lögum þessum að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í grein þessari.
     Skilyrði niðurfellingar skv. 1. mgr. eru eftirfarandi:
  1. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, hafi ekki áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
  2. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, skal vera þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er.
  3. Sú lánsfjárhæð sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skal einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign.

     Með íbúðarhúsnæði og fasteign í grein þessari er eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota.
     Séu fleiri en einn skuldari útgefendur að skuldabréfi eða tryggingarbréfi skv. 1. mgr. skal niðurfelling stimpilgjalds af skjalinu fara eftir hlut þess skuldara sem uppfyllir skilyrði þessarar greinar um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði.
     Hafi maki kaupanda og skuldara, eða sambúðaraðili, áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur þess sem uppfyllir skilyrði greinarinnar til niðurfellingar stimpilgjalds aldrei vera meiri en nemur helmingi af annars ákvörðuðu stimpilgjaldi hins stimpilfrjálsa skjals.
     Með vísan til 12. og 13. gr. skulu þeir aðilar sem hafa á hendi stimplun skjala kanna, við ákvörðun um stimpilgjald skuldabréfs eða tryggingarbréfs sem tryggt er með veði og gefið út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði, hvort skilyrði þessarar greinar um niðurfellingu stimpilgjalds, að hluta til eða að fullu, séu uppfyllt. Í því skyni er þeim heimilt að óska eftir gögnum frá kaupanda og skuldara en að jafnaði skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir:
  1. Afrit af þinglýstum kaupsamningi, afsali eða annarri eignarheimild vegna fasteignar sem hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út til fjármögnunar kaupa á.
  2. Staðfesting úr Landskrá fasteigna um að kaupandi hafi ekki áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
  3. Staðfesting um hjúskaparstöðu kaupanda og hvort maki hans eða sambúðaraðili hafi áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.

     Í samræmi við 13. gr. er unnt að skjóta ákvörðun um stimpilgjald undir úrskurð fjármálaráðuneytisins innan tveggja mánaða frá dagsetningu hennar.
     Um viðurlög við brotum á grein þessari fer skv. 37. gr.
     Fjármálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um fyrirkomulag niðurfellingar stimpilgjalds samkvæmt grein þessari.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008 og taka til skjala sem gefin eru út eftir það tímamark.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.