Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1265, 135. löggjafarþing 527. mál: ársreikningar (EES-reglur, endurskoðunarnefndir).
Lög nr. 80 7. júní 2008.

Lög um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo:
  1. eining tengd almannahagsmunum: eining samkvæmt skilgreiningu laga um endurskoðendur.


2. gr.

     Á eftir IX. kafla laganna kemur nýr kafli, IX. kafli A, Endurskoðunarnefnd, með fjórum nýjum greinum, svohljóðandi:
     
     a. (108. gr. a.)
     Við einingu tengda almannahagsmunum skal starfa endurskoðunarnefnd.
     Stjórn einingar ber ábyrgð á skipun endurskoðunarnefndar. Hún skal skipuð þremur mönnum hið minnsta eigi síðar en mánuði eftir aðalfund.
     Nefndarmenn skulu vera óháðir endurskoðanda eða endurskoðendum einingarinnar og meiri hluti nefndarmanna skal jafnframt vera óháður einingunni. Framkvæmdastjóri viðkomandi einingar skal ekki eiga sæti í nefndinni. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar og skal að minnsta kosti einn nefndarmanna hafa staðgóða þekkingu og reynslu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar.
     
     b. (108. gr. b.)
     Endurskoðunarnefnd skal meðal annars hafa eftirfarandi hlutverk án tillits til ábyrgðar stjórnar, stjórnenda eða annarra á þessu sviði:
  1. Eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila.
  2. Eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits einingarinnar, innri endurskoðun, ef við á, og áhættustýringu.
  3. Eftirlit með endurskoðun ársreiknings og samstæðureiknings einingarinnar.
  4. Mat á óhæði endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis og eftirlit með öðrum störfum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis.
  5. Setja fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.

     
     c. (108. gr. c.)
     Í einingum tengdum almannahagsmunum skal tillaga stjórnar um tilnefningu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis byggjast á tilmælum frá endurskoðunarnefndinni.
     
     d. (108. gr. d.)
     Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal árlega gera endurskoðunarnefnd grein fyrir störfum sínum og óhæði og skila skriflegri skýrslu um mikilvæg atriði sem fram hafa komið við endurskoðunina. Í skýrslunni skal sérstaklega geta um veikleika í innra eftirliti í vinnuferli við gerð reikningsskila.

3. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi eru sett til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, um breytingu á tilskipun ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/253/EBE eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 160/2006.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Samþykkt á Alþingi 29. maí 2008.