Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1278, 135. löggjafarþing 547. mál: uppbót á eftirlaun.
Lög nr. 84 12. júní 2008.

Lög um uppbót á eftirlaun.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum sem eiga takmörkuð eða engin réttindi til eftirlauna frá lífeyrissjóðum tiltekna uppbót á eftirlaun sem greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.

Gildissvið.
     Einstaklingur sem á takmarkaðan eða engan rétt til eftirlauna frá lífeyrissjóði getur öðlast rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum, enda uppfylli hann eftirfarandi skilyrði við lok viðmiðunarárs:
  1. hafi náð 67 ára aldri,
  2. sé búsettur á Íslandi og
  3. hafi búið á Íslandi í 10 ár samtals frá 16 ára aldri.

     Eigi einstaklingur réttindi í lífeyrissjóði getur hann einungis öðlast rétt til uppbótar samkvæmt lögum þessum hafi hann hafið töku þeirra eftirlauna sem hann á rétt til.
     Með búsetu samkvæmt þessari grein er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Eftirlaun: Ellilífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar ellilífeyrisgreiðslur erlendis frá.
  2. Lífeyrissjóður: Aðili sem veitir viðtöku skyldubundnu iðgjaldi til greiðslu eftirlauna (ellilífeyris) til æviloka, sbr. lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Til lífeyrissjóða skal í þessu sambandi einnig telja erlenda aðila sem veita einstaklingum sambærileg réttindi.
  3. Uppbót á eftirlaun: Fjárhæð sem greidd er út með reglubundnum hætti að lokinni álagningu opinberra gjalda fyrir viðmiðunarár.
  4. Viðmiðunarár: Næstliðið tekjuár á undan álagningarári.
  5. Greiðslutímabil: Tímabil sem greiðsla uppbótar skiptist niður á og hefst fyrsta almanaksmánuð að lokinni álagningu á álagningarári. Greiðslutímabil byrjar að jafnaði í ágúst ár hvert og lýkur í júlí árið eftir.


II. KAFLI
Eftirlaunauppbót.

4. gr.

Fjárhæð.
     Uppbót á eftirlaun einstaklinga sem uppfylla skilyrði 2. gr. skal ákvarða þannig að frá því sem á vantar að eftirlaun þeirra úr lífeyrissjóðum nemi að meðaltali 25.000 kr. á mánuði, eða 300.000 kr. á ári miðað við heilt ár, skal draga eigin tekjur eins og nánar er kveðið á um í 5. gr. Þeir sem engan rétt eiga til eftirlauna hjá lífeyrissjóði skulu njóta sambærilegra réttinda.

5. gr.

Ákvörðun uppbótar á eftirlaun.
     Ákvörðun um uppbót á eftirlaun skal miðast við tekjur viðmiðunarárs samkvæmt skattframtali.
     Tekjur skv. A- og B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna, frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga og undantekninga eða takmarkana samkvæmt sérlögum, skulu koma til lækkunar þeirri fjárhæð sem kveðið er á um í 4. gr.
     Jafnframt skal helmingur tekna skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og undantekninga eða takmarkana samkvæmt sérlögum, koma til lækkunar þeirri fjárhæð sem kveðið er á um í 4. gr. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum skv. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun samkvæmt þessari málsgrein er fundin.
     Ekki teljast til tekna, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., eftirlaun úr lífeyrissjóðum, bætur samkvæmt almannatryggingum eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
     Nú hefur einstaklingur hafið töku eftirlauna á viðmiðunarári og skal þá eingöngu greiða uppbót vegna þeirra mánaða viðmiðunarársins sem viðkomandi fékk greidd eftirlaun. Við ákvörðun um viðmið skal, varðandi tekjur skv. 2. mgr., miða við þær tekjur sem til féllu eftir að viðkomandi hóf töku eftirlauna, en varðandi tekjur skv. 3. mgr. skal miða við meðalmánaðartekjur margfaldaðar með þeim fjölda mánaða sem viðkomandi fékk greidd eftirlaun á viðmiðunarárinu. Þegar um er að ræða einstakling sem engin réttindi á í lífeyrissjóðum skal með sama hætti miða við fyrsta dag þess mánaðar þegar viðkomandi nær 67 ára aldri.

6. gr.

Framkvæmd og greiðslutilhögun.
     Uppbót á eftirlaun skal ákvörðuð við álagningu og skal tekjuskattur og útsvar reiknast sérstaklega af þeirri fjárhæð miðað við skatthlutfall viðmiðunarárs og að teknu tilliti til ónýtts persónuafsláttar. Við ákvörðun um bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, skal farið með greiðslur samkvæmt lögum þessum sem ellilífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóði, sbr. lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     Uppbót á eftirlaun sem ákvörðuð er skv. 5. gr. skal að jafnaði greiða með 12 jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þó skal greiða með færri greiðslum sé mánaðarleg fjárhæð lægri en 2.000 kr.
     Fyrsta greiðsla hvers greiðslutímabils skal fara fram í mánuðinum eftir að álagning liggur fyrir.
     Greiðslur uppbótar, sem falla í gjalddaga eftir að rétthafi andast, falla sjálfkrafa niður.
     Fjársýsla ríkisins annast greiðslur uppbótar á eftirlaun.

7. gr.

Leiðrétting greiðslna.
     Hafi breytingar orðið á tekjum einstaklings sem ákvörðun um uppbót á eftirlaun er byggð á skal uppbót endurákvörðuð af hálfu skattyfirvalda.
     Hafi einstaklingur fengið hærri uppbót en hann átti rétt á skal honum gert að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 10% álagi. Álagið skal þó fellt niður ef viðkomandi færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til endurákvörðunar uppbótar. Greiðsla uppbótar kemur ekki til útborgunar sé fjárhæð hennar lægri en 500 kr. á ársgrundvelli.
     Heimilt er að draga ofgreiðslu uppbótar frá uppbót sem einstaklingur öðlast rétt til síðar. Um innheimtu ofgreiðslu fer að öðru leyti skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
     Óheimilt er að framselja eða veðsetja kröfur um greiðslur samkvæmt lögum þessum og ekki má leggja á þær löghald eða gera í þeim fjárnám eða halda eftir til greiðslu opinberra gjalda.
     Hafi rétthafi fengið lægri uppbót en honum bar samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skal greiða honum þá fjárhæð sem vangreidd var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var ógreitt, enda verði viðkomandi eigi kennt um að vangreitt var. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
     Sama á við þegar úrskurður ríkisskattstjóra leiðir til þess að einstaklingur á rétt á uppbót en hafi áður verið synjað um hana eða reiknuð lægri uppbót. Hafi uppbót verið vangreidd vegna skorts á upplýsingum sem rétthafa verður kennt um falla vextir niður.

III. KAFLI
Stjórnsýsla.

8. gr.

Framkvæmdaraðili.
     Skattstjóri í hverju umdæmi fer með framkvæmd laga þessara.

9. gr.

Afgreiðsla skattstjóra.
     Ákvörðun um uppbót eftirlauna skal byggjast á upplýsingum skattframtals og liggja fyrir við álagningu opinberra gjalda ár hvert og skal hún miðast við þann mánuð sem rétthafi hefur uppfyllt skilyrði laga þessara.
     Lífeyrissjóðir skulu ár hvert senda ríkisskattstjóra skrá, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, yfir alla þá sjóðfélaga sem náð höfðu 67 ára aldri á viðmiðunarári, ásamt upplýsingum um hvort greiðslur eftirlauna séu hafnar. Að öðru leyti skulu lífeyrissjóðir veita skattyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar til ákvörðunar á fjárhæð uppbótar á eftirlaun.
     Liggi ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar að mati skattstjóra til að ákvarða uppbót á eftirlaun skal skattstjóri gera einstaklingi viðvart um hugsanlegan rétt hans til greiðslu uppbótar samkvæmt lögum þessum.
     Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir 96. og 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eftir því sem við á.

10. gr.

Kæruheimild.
     Sé uppi ágreiningur um ákvörðun skattstjóra á uppbót til eftirlauna er hún kæranleg til skattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar.
     Úrskurð skattstjóra má kæra til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar.
     Úrskurður ríkisskattstjóra er lokaákvörðun á stjórnsýslustigi.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

11. gr.

Reglugerð.
     Fjármálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga með reglugerð.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Greiðsla uppbótar samkvæmt lögum þessum skal fara fram í fyrsta skipti í ágúst 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Lífeyrissjóðir skulu eigi síðar en 1. júlí 2008 senda ríkisskattstjóra þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 9. gr. að því er varðar tekjuárið 2007.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.