Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1350, 135. löggjafarþing 442. mál: alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands (heildarlög).
Lög nr. 121 17. september 2008.

Lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.


1. gr.

Almennt ákvæði.
     Með lögum þessum er mælt fyrir um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.
     Við framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands skal tekið mið af stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum samþykktum um þróunarsamvinnu sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að uppfylla.
     Meginmarkmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands eru að styðja viðleitni stjórnvalda í þróunarlöndum til að útrýma fátækt og hungri, stuðla að efnahags- og félagslegri þróun, þ.m.t. mannréttindum, menntun, bættu heilbrigði, jafnrétti kynjanna, sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Það heyrir einnig til markmiða þessara að tryggja öryggi á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að friði og gæta hans, vinna að uppbyggingu og gæslu friðar og veita mannúðar- og neyðaraðstoð þar sem hennar er þörf.

2. gr.

Yfirstjórn alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.
     Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands.
     Framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu skulu greidd úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hvers árs.
     Alþingi kýs sjö fulltrúa til setu í Þróunarsamvinnunefnd. Hlutverk Þróunarsamvinnunefndar er að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma, sbr. 3. og 4. gr.

3. gr.

Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu.
     Ráðherra leggur annað hvert ár fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fjögurra ára í senn.
     Í áætluninni skal greint frá framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og hvernig þau skiptast á grundvelli stefnumiða Íslands í þróunarsamvinnu til lengri og skemmri tíma litið. Þá skal áætlunin fela í sér heildstætt yfirlit yfir það hvernig ráðherra hyggst ná settum markmiðum hennar.
     Í áætluninni skal m.a. tiltaka fyrirhugað hlutfall framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum.
     Drög að tillögu til þingsályktunar skv. 1. mgr. skulu lögð fyrir Þróunarsamvinnunefnd til umsagnar og skal umsögn hennar fylgja tillögunni til Alþingis.

4. gr.

Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu.
     Ráðherra skipar 17 fulltrúa í samstarfsráð um þróunarsamvinnu til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Formaður samstarfsráðsins er skipaður án tilnefningar. Fulltrúar í Þróunarsamvinnunefnd skulu eiga sæti í ráðinu, en níu fulltrúar skulu skipaðir með eftirfarandi hætti:
  1. fimm í samráði við samstarfshóp íslenskra mannúðarsamtaka í alþjóðlegu hjálparstarfi og þróunarsamvinnu,
  2. tveir í samráði við samstarfsnefnd háskólastigsins,
  3. tveir í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

     Samstarfsráðið skal sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku, m.a. um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 3. gr., framlög til þróunarsamvinnu og skiptingu þeirra milli marghliða og tvíhliða samvinnu, forgangsröðun í þróunarsamvinnu, þ.m.t. um þátttöku Íslands í starfi fjölþjóðastofnana, og um val á samstarfslöndum.
     Samstarfsráðið kemur saman til fundar að lágmarki tvisvar ár hvert.
     Ráðherra getur kveðið nánar á um hlutverk samstarfsráðsins í reglugerð.

5. gr.

Marghliða þróunarsamvinna.
     Utanríkisráðuneytið annast marghliða þróunarsamvinnu Íslands, í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir og innlend og alþjóðleg félagasamtök eftir því sem við á, samkvæmt áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 3. gr.

6. gr.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
     Þróunarsamvinnustofnun Íslands er sérstök stofnun sem lýtur yfirstjórn utanríkisráðuneytisins.
     Þróunarsamvinnustofnun annast tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands í umboði ráðherra í samræmi við áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 3. gr., og samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins.
     Ráðherra er heimilt að ákveða að umdæmisskrifstofur Þróunarsamvinnustofnunar skuli reka sem sendiráð og fela umdæmisstjórum stofnunarinnar að gegna tímabundið starfi forstöðumanna þeirra auk umdæmisstjórastarfsins samkvæmt lögum nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, enda taki þeir við beinum fyrirmælum utanríkisráðuneytisins og viðkomandi sendiherra varðandi hefðbundin störf utanríkisþjónustunnar, eftir því sem við á.
     Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar og setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjóri skal hafa lokið háskólaprófi og búa yfir þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Hann skal taka þátt í starfi utanríkisráðuneytisins um alþjóðlega þróunarsamvinnu eftir því sem ráðherra ákveður. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegri framkvæmd og rekstri stofnunarinnar. Hann ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og tengsl hennar við utanríkisráðuneytið, sem og um það hlutverk sem umdæmisskrifstofur stofnunarinnar gegna við framkvæmd þróunarsamvinnu, meðferð utanríkismála og gæslu hagsmuna Íslands.

7. gr.

Starfsmenn ríkisins við alþjóðlega þróunarsamvinnu.
     Þróunarsamvinnustofnun Íslands er heimilt að ráða starfsmenn til tímabundinna starfa við afmörkuð verkefni í þróunarsamvinnu erlendis, þó ekki lengur en fimm ár í senn. Þróunarsamvinnustofnun getur sagt upp slíkum ráðningarsamningi með þriggja mánaða uppsagnarfresti ef verkefninu er hætt, því lýkur fyrr en ætlað var eða starfsmaðurinn getur ekki sinnt starfi sínu vegna aðstæðna í gistiríkinu.
     Utanríkisráðuneytinu er heimilt, að höfðu samráði við Þróunarsamvinnustofnun Íslands, að ráða starfsmann Þróunarsamvinnustofnunar tímabundið í starf hjá ráðuneytinu, þó ekki lengur en fimm ár í senn. Telst viðkomandi vera starfsmaður ráðuneytisins og í launalausu leyfi frá Þróunarsamvinnustofnun á meðan hann gegnir starfinu. Við slíka ráðningu er heimilt að víkja frá ákvæðum 7. gr. laga nr. 70/1996. Með sama hætti má veita embættismanni eða fastráðnum starfsmanni ráðuneytisins tímabundið starf hjá Þróunarsamvinnustofnun.
     Útsendir starfsmenn ríkisins í þróunarsamvinnu erlendis skulu í störfum sínum hafa í heiðri þær þjóðréttarlegu reglur sem Ísland er skuldbundið af og réttaráhrif hafa gagnvart einstaklingum. Þeim er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt samningum, lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls. Þagnarskyldan helst eftir að látið er af starfi. Þeir mega ekki taka þátt í stjórnmálastarfi eða mótmælum í því landi þar sem þeir starfa.

8. gr.

Framkvæmd, eftirlit og úttektir.
     Við framkvæmd þróunarsamvinnu skal fylgja viðurkenndum aðferðum, reglum og leiðbeiningum alþjóðasamfélagsins, m.a. þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar, og þeim kröfum um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu sem Ríkisendurskoðun gerir. Framkvæmd áætlunar um alþjóðlega þróunarsamvinnu, sbr. 3. gr., skal háð reglulegu eftirliti og úttektum óháðra aðila.

9. gr.

Skýrslur utanríkisráðherra og upplýsingagjöf til Alþingis.
     Utanríkisráðherra gefur Alþingi skýrslu annað hvert ár um framkvæmd áætlunar stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, samtímis því sem hann leggur fram tillögu til þingsályktunar skv. 3. gr.
     Auk þess sem greinir í 1. mgr. upplýsir ráðherra utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd reglulega um framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

10. gr.

Gildistaka og lagaskil.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 43 26. maí 1981, um Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þeir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem þegar eru að störfum erlendis skulu eiga rétt á að halda núverandi starfskjörum skv. 7. gr. laga nr. 43/1981 þar til starfstíma þeirra erlendis samkvæmt núgildandi ráðningarsamningum lýkur.

II.
     Þrátt fyrir gildistökuákvæði skal stjórn Þróunarsamvinnustofnunar samkvæmt lögum nr. 43 26. maí 1981 halda umboði sínu og starfa til 1. nóvember 2008.

Samþykkt á Alþingi 11. september 2008.