Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 202, 136. löggjafarþing 151. mál: stimpilgjald (undanþága gjalds vegna skuldbreytingar lána).
Lög nr. 132 19. nóvember 2008.

Lög um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
  1. (I.)
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 8. og 24. gr. laganna skulu skjöl, sem gefin eru út á tímabilinu frá og með 7. október 2008 til og með 31. desember 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga, eða ný veðskuldabréf, sem gefin eru út til uppgreiðslu vanskila á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga, vera undanþegin greiðslu stimpilgjalds að því tilskildu að sömu aðilar séu að fasteignaveðskuldabréfinu og hinu nýja skjali.
  3. (II.)
  4.      Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laganna skal, þegar fasteignaveðskuldabréf einstaklings er, á tímabilinu frá og með 7. október 2008 til og með 31. desember 2009, endurnýjað með nýju fasteignaveðskuldabréfi sem kemur í stað þess eldra, ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja fasteignaveðskuldabréfsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfsins ásamt vanskilum. Er ákvæði þetta óháð því hvort um nýjan kröfuhafa er að ræða samkvæmt hinu nýja fasteignaveðskuldabréfi.
  5. (III.)
  6.      Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laganna skal ekki greiða stimpilgjald af þeim kröfuhafaskiptum á fasteignaveðskuldabréfum sem til koma ef Íbúðalánasjóður nýtir þá heimild sem honum er veitt í V. kafla laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

3. gr.

     Við gildistöku laga þessara bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. laganna skal ekki greiða þinglýsingargjald af skjölum sem stimpilfrjáls eru samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða II–IV í lögum um stimpilgjald.

Samþykkt á Alþingi 17. nóvember 2008.