Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 325, 136. löggjafarþing 175. mál: vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur (endurgreiðsla vegna útflutnings ökutækja).
Lög nr. 140 15. desember 2008.

Lög um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Heimilt er að endurgreiða vörugjald af áður skráðu vélknúnu ökutæki sem hefur verið afskráð og flutt úr landi enda sé ástand ökutækisins í samræmi við eðlilega notkun og aldur að mati tollstjóra. Fjárhæð endurgreiðslu skal miða við það vörugjald sem greitt var við innflutning ökutækisins. Sú fjárhæð skal lækka um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina eftir nýskráningu ökutækisins og 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir það þar til 100% fyrningu er náð. Samanlögð endurgreiðsla vörugjalds samkvæmt ákvæði þessu og virðisaukaskatts samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIII í lögum um virðisaukaskatt skal ekki vera hærri en 2.000.000 kr. fyrir hvert ökutæki.
     Tollstjóra er heimilt að innheimta skoðunargjald vegna skoðunar á notuðum ökutækjum sem flytja á úr landi skv. 1. mgr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar skoðunarinnar.
     Heimild til endurgreiðslu vörugjalds skv. 1. mgr. gildir til og með 31. desember 2009. Tollstjórinn í Reykjavík annast endurgreiðslu.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu, um ástand ökutækja, um gögn sem leggja þarf fram með umsókn um endurgreiðslu og um eftirlit og kæruheimildir.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af áður skráðu vélknúnu ökutæki sem hefur verið afskráð og flutt úr landi enda sé ástand ökutækisins í samræmi við eðlilega notkun og aldur að mati tollstjóra. Fjárhæð endurgreiðslu skal miða við þann virðisaukaskatt sem greiddur var við innflutning ökutækisins. Sú fjárhæð skal lækka um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina eftir nýskráningu ökutækisins og 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir það þar til 100% fyrningu er náð. Hafi eigandi hins útflutta ökutækis fengið virðisaukaskatt af því endurgreiddan í formi innskatts skapast ekki réttur til endurgreiðslu. Samanlögð endurgreiðsla virðisaukaskatts samkvæmt ákvæði þessu og vörugjalds samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. skal ekki vera hærri en 2.000.000 kr. fyrir hvert ökutæki.
     Tollstjóra er heimilt að innheimta skoðunargjald vegna skoðunar á notuðum ökutækjum sem flytja á úr landi skv. 1. mgr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar skoðunarinnar.
     Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 1. mgr. gildir til og með 31. desember 2009. Tollstjórinn í Reykjavík annast endurgreiðslu.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu, um ástand ökutækja, um gögn sem leggja þarf fram með umsókn um endurgreiðslu og um eftirlit og kæruheimildir.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. desember 2008.