Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 396, 136. löggjafarþing 209. mál: verslun með áfengi og tóbak (álagning ÁTVR).
Lög nr. 149 23. desember 2008.

Lög um breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63/1969, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðanna „11. gr.“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: 10. gr.

2. gr.

     Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%. Við ákvörðun á áfengisinnihaldi vísast til laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.
     Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbak skal vera 18%.
     Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal lögð á innkaupsverð vöru.

3. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er heimilt að innheimta gjald af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins við að taka nýja vöru til sölu.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2008.