Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 454, 136. löggjafarþing 231. mál: tollalög, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki (tollfrjáls innflutningur ferðamanna á varningi o.fl.).
Lög nr. 167 23. desember 2008.

Lög um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

1. gr.

     Í stað b-liðar 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna koma þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
 1. Varningur sem ferðamenn, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi umfram það sem greinir í a-lið, að verðmæti allt að 65.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 32.500 kr. Börn yngri en 12 ára skulu njóta réttinda samkvæmt þessum lið að hálfu.
 2. Varningur sem skipverjar og flugverjar, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun umfram það sem greinir í a-lið, að verðmæti allt að 24.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð, en 48.000 kr., hafi þeir verið lengur í ferð. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 24.000 kr.
 3. Matvæli, þ.m.t. sælgæti, sem ferðamenn og farmenn hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun, að verðmæti allt að 18.500 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Þyngd matvæla skal þó að hámarki vera 3 kg. Matvæli skulu talin með varningi skv. b- og c-lið.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna:
 1. 1. og 2. málsl. a-liðar orðast svo: Af bifreiðum sem eru skráðar erlendis eða keyptar nýjar og óskráðar á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum ef innflytjandi eða eftir atvikum kaupandi hennar hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis, hyggst dvelja hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Það er jafnframt skilyrði að bifreiðin sé flutt til landsins eða eftir atvikum keypt ný og óskráð.
 2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Af bifreiðum, skráðum erlendis, sem vinnuveitandi með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum sér starfsmanni sínum fyrir, enda sé bifreiðin nauðsynleg til þess að starfsmaðurinn geti sinnt starfsskyldum sínum. Það er jafnframt skilyrði að notkun bifreiðarinnar hér á landi sé tímabundin og ekki meiri en notkun hennar erlendis. Bifreiðin telst vera notuð tímabundið hér á landi ef hún er ekki notuð lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili. Notkun bifreiðarinnar telst vera meiri hér á landi en erlendis ef hún er á 12 mánaða tímabili notuð meira hér á landi í einkaerindum og í atvinnuskyni en hún er notuð erlendis í atvinnuskyni, í kílómetrum talið.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
 1. Í stað fjárhæðarinnar „15.000 evrum“ í 2. mgr. kemur: 10.000 evrum.
 2. Á eftir orðinu „reiðufé“ í 2. mgr. kemur: eða handhafabréfum, þ.m.t. ferðatékkum.
 3. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Sérhver farmaður skal ótilkvaddur gera tollgæslu skriflega grein fyrir öllum varningi sem hann hefur fengið erlendis eða í ferðinni, hvort sem varningurinn er tollskyldur eður ei.


4. gr.

     Í stað orðsins „Ráðherra“ í lokamálslið 2. tölul. 2. mgr. 48. gr. laganna kemur: Tollstjóra.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 91. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „öðrum“ í 2. málsl. kemur: ótengdum aðilum.
 2. Við bætist nýr málsliður er verður 3. málsl. og orðast svo: Tollstjóra er þó heimilt að veita öðrum starfsleyfi ef leyfishafi uppfyllir kröfur tollstjóra um fullnægjandi aðstöðu og bókhaldslega aðgreiningu og stenst áhættumat.
 3. Í stað orðsins „Ráðherra“ í lokamálslið 2. tölul. kemur: Tollstjóra.


6. gr.

     Við 122. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Tollstjóra er heimilt, á grundvelli umsóknar, að fresta gjalddaga skuldfærðs virðisaukaskatts skv. 2. mgr. fram að uppgjöri virðisaukaskatts fyrir sama uppgjörstímabil, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda sé aðili að jafnaði með lægri útskatt en innskatt þar sem verulegur hluti veltunnar er undanþeginn virðisaukaskatti skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Heimild, útgefin af tollstjóra, skal gilda í 12 mánuði í senn.

7. gr.

     Við 10. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt er gjaldtaka heimil til að standa straum af kostnaði við gerð innsigla vegna farmverndar, sbr. 7. gr. laga um siglingavernd, nr. 50/2004.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

8. gr.

     Við 36. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Áfengi og tóbak skv. 5., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

9. gr.

     Í stað 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna koma þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
 1. Af áfengi sem ferðamenn hafa meðferðis til landsins sem hér segir:
  1. 1 lítra af sterku áfengi og 1 lítra af léttvíni, eða
  2. 3 lítra af léttvíni, eða
  3. 1 lítra af sterku áfengi eða 1,5 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli.
 2. Af áfengi sem skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila hafa meðferðis eftir að hafa verið 15 daga eða lengur í ferð, sem hér segir:
  1. 1,5 lítra af sterku áfengi og 3 lítra af léttvíni, eða
  2. 1,5 lítra af sterku áfengi eða léttvíni og 24 lítra af öli.
       Ef sömu aðilar hafa verið skemur en 15 daga í ferð skulu þeir njóta að hálfu réttinda samkvæmt þessum lið. Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra og bryta, svo og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum, er jafnframt heimilt að taka gjaldfrjálst aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir mega hafa gjaldfrjálst samkvæmt þessum lið.
 3. Af áfengi sem flugverjar, þ.m.t. flugverjar í aukaáhöfn, hafa meðferðis, eftir að hafa verið 15 daga eða lengur í ferð, sem hér segir:
  1. 1 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni, eða
  2. 1 lítra af sterku áfengi eða 0,75 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli.
       Hafi ferð varað skemur en 15 daga er sömu aðilum heimilt að hafa meðferðis gjaldfrjálst:
  1. 0,375 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni, eða
  2. 0,375 lítra af sterku áfengi eða 0,75 lítra af léttvíni og 3 lítra af öli.10. gr.

     2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Tóbak sem ferðamenn eða farmenn hafa meðferðis til landsins skal undanþegið gjaldi skv. 1. mgr. að því hámarki sem hér segir:
 1. 100 vindlingar eða 125 g af öðru tóbaki sem flugverjar er hafa verið skemur en 15 daga í ferð hafa meðferðis.
 2. 200 vindlingar eða 250 g af öðru tóbaki sem ferðamenn, skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila er hafa verið skemur en 15 daga í ferð hafa meðferðis og flugverjar, þ.m.t. flugverjar í aukaáhöfn, er hafa verið 15 daga eða lengur í ferð hafa meðferðis.
 3. 400 vindlingar eða 500 g af öðru tóbaki sem skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila er hafa verið 15 daga eða lengur í ferð hafa meðferðis.


11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 2008.