Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 605, 136. löggjafarþing 280. mál: Seðlabanki Íslands (skipulag yfirstjórnar og peningastefnunefnd).
Lög nr. 5 26. febrúar 2009.

Lög um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.


1. gr.

     Í stað orðsins „Bankastjórn“ í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: Seðlabankastjóri.

2. gr.

     Í stað 2. málsl. 22. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd, sbr. 24. gr. Stjórn bankans er að öðru leyti í höndum seðlabankastjóra.

3. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra til fimm ára í senn. Seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri skulu hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Aðeins er hægt að skipa sama mann seðlabankastjóra eða aðstoðarseðlabankastjóra tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru falin öðrum með lögum þessum. Aðstoðarseðlabankastjóri er staðgengill seðlabankastjóra.
     Við skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra skal forsætisráðherra skipa þriggja manna nefnd er hafi það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda. Skal einn nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
     Forfallist seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri getur forsætisráðherra sett menn tímabundið í stöður þeirra.
     Seðlabankastjóri setur reglur um umboð starfsmanna og aðstoðarseðlabankastjóra til að skuldbinda bankann með undirskrift sinni og skulu reglurnar staðfestar af bankaráði, sbr. 28. gr.

4. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd. Stjórntæki bankans teljast í þessu sambandi vera vaxtaákvarðanir hans, viðskipti við lánastofnanir önnur en tilgreind eru í 2. mgr. 7. gr., ákvörðun bindiskyldu skv. 11. gr. og viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr. sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á gengi krónunnar. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika.
     Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, einn af yfirmönnum bankans á sviði mótunar eða stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem forsætisráðherra skipar til fimm ára í senn. Seðlabankastjóri er jafnframt formaður peningastefnunefndar. Peningastefnunefnd er ályktunarhæf ef fjórir af fimm nefndarmönnum sitja fund nefndarinnar. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns eða staðgengils hans. Peningastefnunefnd skal halda fundi að minnsta kosti átta sinnum á ári. Auk þess getur peningastefnunefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Peningastefnunefnd setur sér starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal birta fundargerðir peningastefnunefndar og gera grein fyrir ákvörðunum nefndarinnar og forsendum þeirra. Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til. Peningastefnunefnd getur þó ákveðið að skýra ekki frá ákvörðunum um viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr.
     Peningastefnunefnd skal gefa Alþingi skýrslu um störf sín tvisvar á ári. Skal efni skýrslunnar rætt á sameiginlegum fundi efnahags- og skattanefndar, fjárlaganefndar og viðskiptanefndar.

5. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra er óheimilt að sitja í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að. Forsætisráðherra hefur úrskurðarvald ef ágreiningur rís um beitingu þessa ákvæðis.
     Um þátttöku annarra starfsmanna Seðlabanka Íslands í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja skal seðlabankastjóri setja reglur sem bankaráð staðfestir, sbr. 28. gr.
     Nefndarmönnum í peningastefnunefnd sem forsætisráðherra skipar er óheimilt að sinna störfum utan bankans sem geta verið til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Forsætisráðherra hefur úrskurðarvald ef ágreiningur rís um beitingu þessa ákvæðis. Forsætisráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hæfisskilyrði nefndarmanna í peningastefnunefnd.

6. gr.

     2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo:
     Seðlabankastjóri situr fundi bankaráðs og hefur þar tillögurétt og tekur þátt í umræðum. Hann skal þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Bankastjórn“ í 2. málsl. kemur: Seðlabankastjóri.
  2. Í stað orðsins „bankastjórnar“ í a-lið kemur: seðlabankastjóra.
  3. Í stað orðsins „bankastjóra“ í b-lið kemur: seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og fulltrúa í peningastefnunefnd sem ekki eru reglulegir starfsmenn Seðlabanka Íslands.
  4. Í stað orðsins „bankastjórn“ í d-lið kemur: peningastefnunefnd.
  5. Við bætast tveir nýir stafliðir sem verða e- og f-liðir og orðast svo:
    1. Fylgjast með framkvæmd starfsreglna og starfsháttum peningastefnunefndar.
    2. Staðfesta val yfirmanna í peningastefnunefnd að fenginni tillögu seðlabankastjóra.
  6. Í stað orðsins „bankastjórn“ í j-, l-, m- og n-lið kemur: seðlabankastjóri.
  7. E-liður orðast svo: Staðfesta reglur sem seðlabankastjóri setur um umboð starfsmanna bankans og aðstoðarseðlabankastjóra til þess að skuldbinda bankann, sbr. 23. gr.


8. gr.

     Í stað orðsins „bankastjórn“ í 1. málsl. 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: seðlabankastjóra.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „bankastjórar“ í 1. mgr. kemur: seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, nefndarmenn í peningastefnunefnd.
  2. Í stað orðsins „bankastjórum“ í 2. mgr. kemur: seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra, nefndarmönnum í peningastefnunefnd.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „bankastjórn“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: seðlabankastjóra.
  2. Í stað orðsins „Bankastjórn“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: Seðlabankastjóri.


11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

12. gr.

Breytingar á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.
     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „bankastjórn Seðlabankans“ í 2. mgr. kemur: seðlabankastjóra.
  2. Í stað orðanna „bankastjórn Seðlabankans“ í 4. mgr. kemur: seðlabankastjóri.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laganna skal Alþingi eins fljótt og unnt er eftir gildistöku laga þessara kjósa bankaráð Seðlabanka Íslands ásamt varamönnum. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.

II.
     Við gildistöku laga þessara er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar. Forsætisráðherra skal svo fljótt sem við verður komið auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar samkvæmt ákvæðum laga þessara.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal forsætisráðherra við gildistöku laga þessara setja tímabundið menn sem uppfylla skilyrði laga þessara í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Um þessa tímabundnu setningu gilda ekki ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Settur seðlabankastjóri og settur aðstoðarseðlabankastjóri skulu gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsinga samkvæmt ákvæðum laganna.

III.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal forsætisráðherra er hann skipar aðstoðarseðlabankastjóra að undangenginni auglýsingu í fyrsta sinn eftir gildistöku laga þessara skipa hann til fjögurra ára í stað fimm ára eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 24. gr. laganna skal forsætisráðherra er hann skipar sérfræðinga í peningastefnunefnd samkvæmt ákvæðinu í fyrsta sinn við gildistöku laga þessara skipa einn sérfræðing til þriggja ára og annan til fjögurra ára í stað fimm ára eins og í ákvæðinu greinir.

Samþykkt á Alþingi 26. febrúar 2009.