Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 685, 136. löggjafarþing 321. mál: skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl. (útgreiðsla séreignarsparnaðar).
Lög nr. 13 13. mars 2009.

Lög um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „verðbréfasjóðum“ í 5. málsl. 5. mgr. kemur: og fjárfestingarsjóðum.
  2. Við 10. mgr. bætist: frá og með 1. janúar 2010.


2. gr.

     Á eftir orðinu „verðbréfasjóðum“ í c-lið 1. mgr. 36. gr. a laganna kemur: og fjárfestingarsjóðum sem hlutfall af hreinni eign.

3. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (VIII.)
     Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er vörsluaðila séreignarsparnaðar skv. 3.–5. mgr. 8. gr. heimilt, á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010, að greiða út séreignarsparnað sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi skv. II. kafla, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.
     Heimilt er á því tímabili sem tilgreint er í 1. mgr. að hefja útborgun innstæðu séreignarsparnaðar rétthafa, ásamt vöxtum, að fjárhæð sem við gildistöku laga þessara nemur samanlagt allt að 1.000.000 kr. óháð því hvort samanlagður séreignarsparnaður er í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 1.000.000 kr. er að ræða.
     Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. 2. mgr. skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Ef rétthafi á séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal hann gera grein fyrir því.
     Vörsluaðili séreignarsparnaðar fer yfir umsókn rétthafa skv. 2. mgr. og hefur umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans.
     Skuldheimtumönnum er óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 2. mgr. 8. gr.
     Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag eftirlits og útgreiðslu og jafnframt heimild vörsluaðila til innheimtu sérstaks gjalds vegna umsýslu við útgreiðslu séreignarsparnaðar.
     Útgreiðsla séreignarsparnaðar hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsaleigubóta skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt og atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
     
     b. (IX.)
     Á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 er vörsluaðila séreignarsparnaðar heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í þessu ákvæði.
     Frestun skv. 1. mgr. skal vera almenn og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir rétthafa séreignarsparnaðar krefjist þess. Frestun á útgreiðslum skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og er háð samþykki þess, sbr. 44. gr. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að útgreiðslum séreignarsparnaðar verði frestað krefjist hagsmunir rétthafa sparnaðarins eða almennings þess.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. skal gjalddagi greiðslu vegna skila á staðgreiðslu í þeim tilvikum sem ákvæði til bráðabirgða VIII við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, tekur til vera tveimur mánuðum síðar en kveðið er á um í 3. mgr. 20. gr. og eindagi 14 dögum eftir það.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 4. og 5. tölul. A-liðar 30. gr. laganna er heimilt að draga allt að 6% frá af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða til aukningar lífeyrisréttinda, til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eða til starfstengdra eftirlaunasjóða samkvæmt lögum um starfstengda eftirlaunasjóði á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2009.