Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 260, 137. löggjafarþing 85. mál: fjármálafyrirtæki (sparisjóðir).
Lög nr. 76 14. júlí 2009.

Lög um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. mgr. 21. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeim er enn fremur heimilt að veita þjónustu í umboði annarra, svo sem vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og annarra fjármálafyrirtækja, enda telji Fjármálaeftirlitið þá starfsemi hvorki skerða möguleika þeirra til þess að veita þjónustu samkvæmt starfsleyfi sínu né skerða möguleika þess til að hafa eftirlit með starfseminni. Skal Fjármálaeftirlitinu tilkynnt fyrir fram um áform viðkomandi svo að mat þess geti legið fyrir áður en veiting þjónustunnar hefst.

2. gr.

     Orðin „sbr. þó 64. gr.“ í 4. mgr. 28. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     8. tölul. 1. mgr. 42. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     61. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skilgreining.
     Sparisjóður er sjálfseignarstofnun sem starfar sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum þessum. Honum er skylt að nota heitið „sparisjóður“ í firmanafni sínu og skilgreina í samþykktum sínum samfélagslegt hlutverk sitt. Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu vera a.m.k. 30. Ákvæði um lágmarksfjölda stofnfjáreigenda gildir þó ekki um sparisjóð sem er dótturfélag annars sparisjóðs eða að meiri hluta í eigu eins eða fleiri sveitarfélaga eða ríkissjóðs.
     Stofnfjáreigendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt og eiga ekki hlutdeild í öðru eigin fé sparisjóðs en bókfærðu stofnfé eins og það er á hverjum tíma. Þeir eiga rétt á greiðslu arðs af stofnfé sínu í samræmi við reglur 68. gr.
     Að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum þessum skal beita ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, um sparisjóði, eftir því sem við getur átt. Ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eiga ekki við um sparisjóði.

5. gr.

     62. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stofnun. Stjórn.
     Á stofnfundi sparisjóðs fer hver stofnandi með eitt atkvæði. Stofnfundur setur sparisjóði samþykktir. Í þeim skulu vera ákvæði sem varða sérstaklega hlutaðeigandi sparisjóð, svo sem:
 1. heiti sparisjóðs,
 2. heimili sparisjóðs, varnarþing,
 3. heildarupphæð stofnfjár, skipting í stofnfjárhluti,
 4. kosning sparisjóðsstjórnar, störf hennar,
 5. helstu áherslur sparisjóðs varðandi samfélagslegt hlutverk hans,
 6. breytingar á samþykktum,
 7. slit á sparisjóði, ráðstöfun eigin fjár í því sambandi.

     Fundur stofnfjáreigenda er æðsta vald í málefnum sparisjóðsins og kýs honum stjórn. Stjórn ræður sparisjóðsstjóra sem er framkvæmdastjóri sparisjóðsins og ber ábyrgð á daglegum rekstri hans.

6. gr.

     63. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stofnfjárbréf.
     Sparisjóðsstjórn gefur út stofnfjárbréf til þeirra sem skráðir eru fyrir stofnfjárhlutum. Stofnfjárbréf má ekki afhenda fyrr en hlutur er að fullu greiddur.
     Stofnfjárbréf skulu hljóða á nafn og tilgreina:
 1. heiti sparisjóðs og heimilisfang,
 2. númer og fjárhæð hlutar,
 3. nafn, heimilisfang og kennitölu stofnfjáreiganda,
 4. útgáfudag stofnfjárbréfs,
 5. sérstök atriði er varða réttindi og skyldur stofnfjáreigenda.

     Stjórn sparisjóðsins skal færa skrá yfir stofnfjáreigendur og skal hún aðgengileg öllum. Sparisjóðsstjórn skal uppfæra skrána þegar breytingar verða á eignarhaldi stofnfjárbréfa.

7. gr.

     64. og 65. gr. laganna falla brott.

8. gr.

     66. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Útgáfa og viðskipti með stofnfjárhluti.
     Fundur stofnfjáreigenda getur samþykkt aukningu stofnfjár í viðkomandi sparisjóði með útgáfu nýrra stofnfjárhluta. Til þess að heimilt sé að fjalla um aukningu stofnfjár á aðalfundi eða sérstökum fundi stofnfjáreigenda skal hafa verið boðað til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal gera grein fyrir tillögu stjórnar um útgáfu nýrra stofnfjárhluta, þ.m.t. um heildarfjölda hluta, nafnverð hluta og útboðsgengi, greiðslukjör, ef einhver eru, áskriftartíma og áskriftarrétt. Lágmarksverð nýrra stofnfjárhluta skal vera jafnhátt og nafnverð stofnfjárhluta í viðkomandi sparisjóði.
     Í samþykktum sparisjóðs er heimilt að kveða á um forgangsrétt stofnfjáreigenda að aukningu.
     Framsal og önnur ráðstöfun stofnfjárhlutar í sparisjóði er heimil án takmarkana, sbr. þó ákvæði VI. kafla. Sparisjóðir skulu setja sér reglur um viðskipti með stofnfé sem samþykktar skulu af Fjármálaeftirlitinu. Því er heimilt að gefa út leiðbeinandi tilmæli um slík viðskipti.
     Nýr stofnfjáreigandi öðlast réttindi samkvæmt stofnfjárbréfinu þegar eigandabreyting hefur verið skráð skv. 3. mgr. 63. gr.
     Ef sparisjóður hefur gefið út nýtt stofnfé og hafi verið greitt meira en nafnverð fyrir útgáfuna skal fé það sem greitt var umfram nafnverð fært á yfirverðsreikning stofnfjár að frádregnum kostnaði sparisjóðsins af útgáfunni. Hann telst með óráðstöfuðu eigin fé sparisjóðs.

9. gr.

     67. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Lækkun stofnfjár.
     Að tillögu stjórnar sparisjóðs getur fundur stofnfjáreigenda tekið ákvörðun um lækkun stofnfjár til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt. Til þess að heimilt sé að fjalla um lækkun stofnfjár á fundi stofnfjáreigenda skal hafa verið boðað til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal gera grein fyrir tillögu um lækkun stofnfjár. Fyrir slíkri ákvörðun þarf samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða sem mætt er fyrir á fundi stofnfjáreigenda. Í fundarboði skal greina frá ástæðum fyrir lækkuninni og hvernig hún á að fara fram. Fjármálaeftirlitinu skal tilkynnt fyrir fram um fyrirhugaða lækkun stofnfjár.
     Ákvörðun fundar stofnfjáreigenda um lækkun skv. 1. mgr. tekur gildi þegar Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt hana.
     Ekki þarf að innkalla kröfur vegna lækkunar stofnfjár samkvæmt þessari grein.

10. gr.

     68. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Ráðstöfun hagnaðar.
     Aðalfundur sparisjóðs getur heimilað stjórn sparisjóðs að ráðstafa allt að 50% hagnaðar hans til hækkunar á nafnverði stofnfjár og arðgreiðslu til stofnfjáreigenda. Með hagnaði samkvæmt þessari grein er átt við hagnað eftir skatta samkvæmt samþykktum ársreikningi fyrir síðasta reikningsár. Aðalfundur má ekki ákveða að úthluta meiri arði en stjórn sparisjóðs leggur til eða samþykkir.
     Heimild til ráðstöfunar hagnaðar skv. 1. mgr. er því aðeins fyrir hendi að um óráðstafað eigið fé sé að ræða í viðkomandi sparisjóði.

11. gr.

     69. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Samstarf sparisjóða.
     Sparisjóðum er heimilt að hafa samstarf meðal annars um eftirfarandi verkefni, enda sé slíkt gert á almennum viðskiptalegum forsendum:
 1. ráðgjöf um áhættustýringu,
 2. rekstur upplýsingakerfa,
 3. öryggiseftirlit,
 4. starfsemi innri endurskoðunardeilda,
 5. bakvinnsla, bókhald, greining og skýrslugerð til eftirlitsstofnana,
 6. lögfræðiráðgjöf, samningar og samskipti við birgja,
 7. vöruþróun og markaðssamstarf um sameiginleg vörumerki,
 8. fræðsla og upplýsingagjöf,
 9. innlend og erlend greiðslumiðlun og þjónusta við erlend viðskipti.

     Í þeim tilfellum að fleiri en einn sparisjóður hafa falið einum og sama aðila verkefni skv. 1. mgr. skulu gerðir samningar á milli hvers einstaks sparisjóðs og þess sem veitir þjónustuna. Slíkir samningar víkja ekki til hliðar skyldum þeim sem hver einstakur sparisjóður ber gagnvart lögum og reglum, eftirlitsaðilum, stofnfjáreigendum eða öðrum.
     Rísi ágreiningur um hvort starfsemi falli undir 1. mgr. sker Samkeppniseftirlitið úr.

12. gr.

     70.–76. gr. laganna falla brott.

13. gr.

     Á eftir orðunum „yfirverðsreikningur hlutafjár“ í 5. mgr. 84. gr. laganna kemur: yfirverðsreikningur stofnfjár.

14. gr.

     Orðin „sbr. 4. mgr. 63. gr.“ í 2. tölul. 1. mgr. 103. gr. a laganna falla brott.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
 1. 3. mgr. orðast svo:
 2.      Heimilt er að sameina sparisjóð við annað fjármálafyrirtæki sem hefur starfsleyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. þannig að sparisjóði verði slitið. Við sameiningu fá stofnfjáreigendur hlutabréf í hinu sameinaða fjármálafyrirtæki í samræmi við hlutfall stofnfjár af eigin fé sparisjóðsins. Endurgjald fyrir óráðstafað eigið fé sparisjóðsins, sé það fyrir hendi, skal lagt í sérstaka sjálfseignarstofnun sem skal hafa þann tilgang að rækja og stuðla að framgangi þeirra samfélagslegu verkefna sem samþykktir sparisjóðsins kveða á um. Skal endurgjald til sjálfseignarstofnunarinnar vera í formi peningagreiðslu eða með skuldabréfi til ekki lengri tíma en 10 ára. Áður en til samruna kemur skal óháður aðili staðfesta hlutfallslega skiptingu stofnfjár og annars eigin fjár sparisjóðsins og leggja mat á verðmæti umsamins endurgjalds sem fara skal til sjálfseignarstofnunar, með tilliti til þess hvort það sé sanngjarnt, eðlilegt og í réttu hlutfalli miðað við verðmæti hlutabréfa sem koma í hlut stofnfjáreigenda. Skal Fjármálaeftirlitið staðfesta matið. Í stjórn sjálfseignarstofnunar samkvæmt þessari málsgrein skulu eiga sæti einn fulltrúi sveitarfélaga á starfssvæði sparisjóðsins, einn fulltrúi skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra, sem skal vera formaður stjórnar, og einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðherra. Samþykktir sjálfseignarstofnunarinnar skulu staðfestar sameiginlega af félags- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra.
 3. Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við samruna sparisjóða má óráðstafað eigið fé sameinaðs sparisjóðs ekki verða lægra en samanlagt óráðstafað eigið fé þeirra sparisjóða var fyrir samruna.


16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
 1. 19. tölul. orðast svo: 3. mgr. 63. gr. um að halda og uppfæra skrá yfir stofnfjáreigendur.
 2. 20. tölul. orðast svo: 3. mgr. 66. gr. um að setja og fylgja reglum um viðskipti með stofnfé.
 3. 21. tölul. orðast svo: 68. gr. um ráðstöfun arðs.
 4. 22. tölul. orðast svo: 2. mgr. 69. gr. um skyldur sparisjóðs.
 5. 23. tölul. fellur brott.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
 1. 14. tölul. orðast svo: 68. gr. um ráðstöfun arðs.
 2. 15. tölul. fellur brott.


18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. júlí 2009.