Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 569, 138. löggjafarþing 81. mál: tekjuskattur (stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki).
Lög nr. 137 29. desember 2009.

Lög um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Sérstakur frádráttur nýsköpunarfyrirtækis samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

2. gr.

     Við B-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fé sem varið er til kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum skv. 6. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, enda sé um hlutafjáraukningu að ræða skv. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
     Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og nema verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa í sams konar félögum, en þó aldrei hærri en 300.000 kr. hjá einstaklingi og 600.000 kr. hjá hjónum.
     Til keyptra hlutabréfa skv. 2. mgr. teljast einungis hlutabréf lögaðila sem fengið hafa staðfestingu frá Rannís skv. 6. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og eru á skrá sem ríkisskattstjóri heldur vegna viðkomandi tekjuárs.
     Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að maður eigi viðkomandi hlutabréf yfir þrenn áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra á skattframtali. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf í hlutafélagi sem uppfyllir skilyrði þessa töluliðar, fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 2. málsl. eiga við um mismuninn. Fenginn frádrátt skal tekjufæra að fullu með 10% álagi, eða í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar að endurfjárfest sé í stað hinna seldu.
     Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. þessa töluliðar.
     Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið.

3. gr.

     Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fé sem varið er til kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, enda sé um hlutafjáraukningu að ræða skv. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
     Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og nema verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa í sams konar félögum, en þó aldrei hærri en 15.000.000 kr.
     Til keyptra hlutabréfa skv. 2. mgr. teljast einungis hlutabréf í félögum sem fengið hafa staðfestingu frá Rannís skv. 6. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og eru á skrá sem ríkisskattstjóri heldur vegna viðkomandi tekjuárs.
     Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að skattaðili eigi viðkomandi hlutabréf yfir þrenn áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra á skattframtali. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef skattaðili kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf í hlutafélagi sem uppfyllir skilyrði þessa töluliðar, fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 2. málsl. eiga við um mismuninn. Fenginn frádrátt skal tekjufæra að fullu með 10% álagi, eða í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar að endurfjárfest sé í stað hinna seldu.
     Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. þessa töluliðar.
     Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. B-lið 7. gr.
     Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið.

4. gr.

     Við 4. mgr. 112. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Frá álögðum tekjuskatti lögaðila sem falla undir 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki skal draga fjárhæð sem ákvörðuð er skv. 11. gr. þeirra laga áður en greiðsluskylda samkvæmt þessari málsgrein er ákvörðuð. Sé engin eða lægri greiðsluskylda fyrir hendi skal greiða frádráttinn út að hluta eða öllu leyti. Reglur um skuldajöfnun skattfrádráttar á móti opinberum gjöldum eða vörslusköttum til ríkissjóðs, þar á meðal um forgangsröð, skulu settar í reglugerð.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 vegna tekjuársins 2010.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2009.