Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 511, 138. löggjafarþing 17. mál: endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn (matvælalöggjöf, EES-reglur, breyting ýmissa laga).
Lög nr. 143 28. desember 2009.

Lög um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.


I. KAFLI
Breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

1. gr.

     Síðari málsliður 1. gr. laganna orðast svo: Þessu skal ná með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Lög þessi taka til framleiðslu og dreifingar matvæla á öllum stigum. Þau taka ekki til frumframleiðslu til einkanota eða til vinnslu, meðferðar eða geymslu á matvælum til einkaneyslu. Lögin ná þó til allra efna og hluta sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli á einkaheimilum. Lögin taka til matvælaeftirlits hérlendis og um borð í skipum í höfnum og á leið til hafna hérlendis. Sama á við um loftför á flugvöllum hérlendis.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Lyf, sbr. lyfjalög, eru undanþegin ákvæðum þessara laga. Þó gilda lög þessi um matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf. Tóbak, sbr. lög um tóbaksvarnir, og vímuefni, önnur en áfengi, sbr. lög um ávana- og fíkniefni, eru undanþegin ákvæðum þessara laga. Það sama gildir um plöntur, fyrir uppskeru, sbr. lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, fóður, sbr. lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og lifandi dýr nema þau séu alin til markaðssetningar til manneldis.


3. gr.

     Skilgreining á hugtakinu „matvæli“ í 4. gr. laganna fellur brott en jafnframt bætast við eftirfarandi skilgreiningar:
  1. Áhættugreining er ferli sem er samsett af þremur innbyrðis tengdum þáttum, þ.e. áhættumati, áhættustjórnun og áhættukynningu.
  2. Frumframleiðsla er framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjöltum og eldi dýra fram að slátrun. Frumframleiðsla tekur einnig til dýra og fiskveiða og nýtingar villigróðurs.
  3. Fæðubótarefni eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif.
  4. Markaðssetning er að hafa umráð yfir matvælum með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða þau til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.
  5. Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið „matvæli“ tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, þ.m.t. neysluvatns, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
  6. Matvælafyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem rekur starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei, og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.
  7. Neysluvatn er vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum, og er ætlað til neyslu eða matargerðar, einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
  8. Neytandi er sá sem notar matvæli ekki sem lið í rekstri eða starfsemi matvælafyrirtækis.
  9. Opinberir eftirlitsaðilar eru Matvælastofnun eða heilbrigðisnefndir sveitarfélaga í samræmi við 6. og 22. gr.
  10. Rekjanleiki er sá möguleiki að rekja uppruna og feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í eða í snertingu við matvæli í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar.
  11. Stjórnandi matvælafyrirtækis er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um matvæli í matvælafyrirtækjum undir hans stjórn.
  12. Smásala er meðhöndlun og/eða vinnsla matvæla og geymsla þeirra á staðnum þar sem þau eru seld eða afhent neytanda, þ.m.t. dreifingarstöðvar, matsölufyrirtæki, mötuneyti starfsfólks, veitingahús og önnur samsvarandi matarþjónusta ásamt verslunum og dreifingarstöðvum stórmarkaða og heildsölumarkaðir.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. A-liður orðast svo: frumframleiðslu.
  2. Á eftir a-lið koma þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
    1. innflutningi og útflutningi búfjárafurða,
    2. kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum, að undanskildum kjötvinnslum sem starfræktar eru í smásöluverslunum,
    3. mjólkurstöðvum og eggjavinnslu.
  3. Í stað „a–e-lið“ í f-lið kemur: a–h-lið.


5. gr.

     Við IV. kafla laganna bætast þrjár nýjar greinar, 8. gr. a – 8. gr. c, svohljóðandi:
     
     a. (8. gr. a.)
     Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu.
     Við ákvörðun um hvort matvæli séu örugg skal hafa hliðsjón í fyrsta lagi af því hvernig neytendur nota matvælin venjulega á hverju stigi framleiðslu og dreifingar og í öðru lagi af upplýsingum sem neytendum eru veittar, þ.m.t. upplýsingum á merkimiða, eða öðrum upplýsingum sem neytendur hafa almennt aðgang að, þar sem fram kemur hvernig þeir geti forðast tiltekin matvæli eða tiltekinn matvælaflokk sem getur haft skaðleg áhrif á heilsuna.
     Við ákvörðun um hvort matvæli séu heilsuspillandi skal hafa hliðsjón í fyrsta lagi af líklegum, bráðum áhrifum og/eða skammtímaáhrifum og/eða langtímaáhrifum þessara matvæla á heilsu þeirra sem neyta þeirra og einnig á næstu kynslóðir, í öðru lagi líklegum, uppsöfnuðum eituráhrifum og í þriðja lagi sérstöku næmi ákveðins hóps neytenda fyrir tilteknum matvælum ef matvælin eru ætluð þeim hópi.
     Við ákvörðun um hvort matvæli séu óhæf til neyslu skal hafa hliðsjón af því hvort matvælin séu óviðunandi til neyslu með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar eða vegna mengunar eða vegna þess að þau eru rotin, spillt eða skemmd.
     Stjórnandi matvælafyrirtækis, sbr. 8. gr. b, og opinberir eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum skulu í störfum sínum tryggja eins og kostur er að ekki berist á markað matvæli sem geta valdið matarsjúkdómum. Til að tryggja ýtrasta matvælaöryggi og vernda líf og heilsu manna og dýra skal ráðherra setja reglugerð þar sem kveðið er almennt á um sýnatökur, vottorðagjöf og skilyrði markaðssetningar matvæla til að fyrirbyggja að þau geti valdið matarsjúkdómum.
     
     b. (8. gr. b.)
     Stjórnandi matvælafyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu og dreifingar í fyrirtækjum undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.
     
     c. (8. gr. c.)
     Ef stjórnandi matvælafyrirtækis álítur eða hefur ástæðu til að álíta að matvæli, sem hann hefur flutt inn, framleitt eða dreift, séu ekki í samræmi við kröfur um öryggi matvæla og hann hefur ekki lengur beint forræði yfir þeim skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að taka umrædd matvæli af markaðnum og tilkynna það hlutaðeigandi opinberum eftirlitsaðila. Ef varan er komin í hendur neytenda skal stjórnandinn upplýsa þá á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan var tekin af markaðnum og, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem neytendum hafa þegar verið afhentar ef aðrar ráðstafanir nægja ekki til þess að tryggja víðtæka heilsuvernd.
     Álíti stjórnandi matvælafyrirtækis eða hafi hann ástæðu til að álíta að tiltekin matvæli, sem hann hefur markaðssett, geti verið heilsuspillandi skal hann þegar í stað tilkynna það hlutaðeigandi opinberum eftirlitsaðila. Stjórnendur skulu tilkynna yfirvöldum um aðgerðir til að fyrirbyggja hættu fyrir neytandann og jafnframt eiga allt það samstarf við yfirvöld sem dregið getur úr eða eytt áhættu vegna viðkomandi matvæla.

6. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Matvælafyrirtæki skulu hafa starfsleyfi frá viðkomandi opinberum eftirlitsaðila, sbr. 20. gr., og skulu þau sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Matvælafyrirtæki sem annast frumframleiðslu matjurta eða sauðfjár- og hrossarækt þurfa ekki starfsleyfi en þurfa að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en hún hefst. Heimilt er að binda starfsleyfi tilteknum skilyrðum, sbr. ákvæði í 2.–4. mgr.
     Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsreglna sem um hana gilda. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Stjórnanda ber að veita opinberum eftirlitsaðila upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi matvæla eða framkvæmd matvælaeftirlits.
     Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að gefa út starfsleyfi til bráðabirgða þannig að matvælafyrirtæki gefist ráðrúm til nauðsynlegra úrbóta á starfsemi sinni enda sé um smávægilegar athugasemdir opinbers eftirlitsaðila að ræða.
     Í starfsleyfi skal tilgreina stjórnanda og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.
     Þrátt fyrir skilgreiningu á matvælafyrirtæki í 4. gr. er ráðherra heimilt að undanskilja frá starfsleyfis- eða tilkynningarskyldu aðila sem halda búfé en ekki í ágóðaskyni en þeir skulu þó uppfylla önnur skilyrði þessara laga og stjórnvaldsreglna sem settar eru með heimild í þeim.
     Í sérlögum er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis fyrir starfsemi einstakra matvælafyrirtækja.
     Ef einnig er kveðið á um starfs- eða vinnsluleyfisskyldu í sérlögum eða lögum um eftirlit með fóðri fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði þessara laga er opinberum eftirlitsaðila heimilt að gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli hvorra tveggja laganna.

7. gr.

     1. og 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Matvælafyrirtæki skulu haga starfsemi sinni í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt.
     Stjórnendur matvælafyrirtækja bera ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, byggt á meginreglum hættugreiningar, til að fyrirbyggja að matvæli geti valdið matarsjúkdómum og til þess að tryggja að matvæli séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Innra eftirlit fyrirtækisins skal miðast við eðli og umfang starfseminnar og byggjast á reglum sem ráðherra ákveður í reglugerð. Starfsfólk, sem starfar við framleiðslu matvæla eða dreifir þeim, skal gæta hreinlætis við störf sín. Það skal hafa þekkingu á meðferð matvæla. Stjórnendur matvælafyrirtækja bera ábyrgð á að starfsfólkinu sé veitt fræðsla. Ráðherra er heimilt að setja reglur um að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla skuli sækja námskeið um meðferð matvæla þar sem sérstök áhersla er lögð á innra eftirlit og öryggi matvæla. Ef opinberir aðilar annast námskeiðahald er heimilt að taka gjald sem nemur raunkostnaði við það.

8. gr.

     Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Óheimilt er að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr.

9. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein sem verður 13. gr. a, svohljóðandi:
     Á öllum stigum framleiðslu og dreifingar skal vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli.
     Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafa afhent þeim matvæli, dýr sem gefa af sér afurðir til manneldis eða hvers kyns efni sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli. Einnig skulu stjórnendur geta tilgreint fyrirtæki sem þeir hafa afhent vörur sínar. Í þessu skyni skulu umræddir stjórnendur hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar opinberum eftirlitsaðilum að beiðni þeirra. Þá skulu matvæli vera merkt og auðkennd á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við framangreindar kröfur.

10. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Matvælaöryggi, framleiðsla, markaðssetning og rekjanleiki.

11. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein sem verður 18. gr. a, svohljóðandi:
     Leitast skal við að vernda hagsmuni neytenda og gefa neytendum kost á upplýstu vali með tilliti til matvælanna sem þeir neyta. Þannig skal leitast við að fyrirbyggja framleiðslu og markaðssetningu svikinna matvæla, sviksamlegar eða villandi starfsvenjur og aðrar starfsvenjur sem gætu villt um fyrir neytendum.
     Óheimilt er að villa um fyrir neytendum með merkingu, auglýsingu og framsetningu matvæla, þ.m.t. lögun þeirra, útliti eða umbúðum og umbúðaefni, hvernig þeim er fyrir komið og í hvaða umhverfi þau eru sýnd, sem og upplýsingum sem eru veittar um þau.

12. gr.

     Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Framkvæmd, neytendavernd og fræðslustarfsemi.

13. gr.

     1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
     Framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðisnefndar skv. 9. gr. Þegar ákvæði þessi eiga við um starfsemi sem er undir opinberu eftirliti Matvælastofnunar skv. 6. gr. er leyfisveiting í höndum þeirrar stofnunar.

14. gr.

     Við 22. gr. laganna bætast sjö nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ef bæði Matvælastofnun og heilbrigðisnefnd hafa eftirlitsskyldur með sama matvælafyrirtæki, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, skal ráðherra úrskurða hvor aðilinn skuli fara með opinbert eftirlit og veita leyfi skv. 20. gr.
     Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að fela hver öðrum að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði þessara aðila samkvæmt lögum þessum.
     Flutningur verkefna skv. 3. mgr. getur einnig tekið til ákvarðana um þvingunarúrræði og viðurlög skv. 30. gr. og 30. gr. a – 30. gr. d og gjaldtöku fyrir eftirlitið skv. 25. gr.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd framsals á eftirliti.
     Matvælaeftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat að beiðni ráðherra eða Matvælastofnunar. Tíðni opinbers eftirlits skal vera regluleg og í réttu hlutfalli við áhættuna, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlunum.
     Matvælastofnun hefur yfirumsjón með matvælaeftirliti og skal sjá um að vöktun og rannsóknir vegna þessa eftirlits séu framkvæmdar. Í yfirumsjón felst samræming matvælaeftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu.
     Matvælastofnun skal koma á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa og skal í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi matvælaeftirlit sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá skal stofnunin vinna að samræmingu krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði matvælaeftirlits og að því að slíkum kröfum sé framfylgt. Til þess að stuðla sem best að því að þessu markmiði verði náð gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.

15. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara.
     Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum opinbers eftirlitsaðila sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita honum upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem hann ákveður.
     Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við opinberan eftirlitsaðila, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir hann þeim áminningu eða riftir við þá samningi ef sakir eru miklar.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum og enn fremur um gerð samninga.
     Jafnframt getur ráðherra sett reglur um hvernig innra eftirlit matvælafyrirtækja, sem starfrækt er samkvæmt vottuðu gæðakerfi, getur verið þáttur í opinberu matvælaeftirliti.
     Þá er ráðherra heimilt að ákveða að tilteknar rannsóknastofur, sem hlotið hafa faggildingu á viðkomandi rannsóknar- eða prófunarsviði, skuli vera tilvísunarrannsóknastofur.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Matvælaframleiðendum og dreifendum“ í 1. mgr. kemur: Matvælafyrirtækjum.
  2. Í stað orðanna „Eftirlitsaðilar og þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim“ í 3. mgr. kemur: Heilbrigðisnefnd, aðilar sem hafa faggildingu og fara með tiltekin eftirlitsverkefni og matvælafyrirtæki.


17. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu matvælafyrirtæki greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við matvælaeftirlitið:
  1. launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
  2. öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
  3. kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.

     Opinber eftirlitsaðili framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, með matvælum þegar tiltekin starfsemi matvælafyrirtækis eða matvæli eru ekki talin uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis matvæla vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber matvælafyrirtæki. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að afurðir eða vara hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits opinberra eftirlitsaðila og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlit Matvælastofnunar að fengnum tillögum stofnunarinnar. Með sama hætti skulu sveitarfélögin gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitsskylda starfsemi heilbrigðisnefnda vegna matvælaeftirlits.
     Við gerð reglugerðar og gjaldskrár opinberra eftirlitsaðila skal taka tillit til eftirfarandi atriða:
  1. hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
  2. hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
  3. hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
  4. þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.
Ráðherra skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár Matvælastofnunar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
     Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi opinbers eftirlitsaðila.
     Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
     Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um innheimtu gjalds fyrir eftirlit á landamærastöðvum með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld opinbers eftirlitsaðila vegna eftirlits sem hann felur faggiltum aðilum að framkvæma skv. 23. gr.

18. gr.

     27. gr. laganna fellur brott.

19. gr.

     Við lögin bætast þrjár nýjar greinar sem verða 27. gr. a – 27. gr. c, svohljóðandi:
     
     a. (27. gr. a.)
     Matvælastofnun er heimil skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna á búfjár- og sjávarafurðum sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins enda sé rökstuddur grunur um að matvælin séu heilsuspillandi eða óhæf til neyslu eða geti valdið dýrasjúkdómum. Þegar nauðsyn krefur getur opinber eftirlitsaðili lagt fyrir stjórnanda matvælafyrirtækis að hann tilkynni honum, með hæfilegum fyrirvara, um flutning matvæla til landsins frá EES-ríkjum.
     Viðtakandi búfjár- og sjávarafurða skal halda dagbók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu opinbers eftirlitsaðila.
     
     b. (27. gr. b.)
     Allur innflutningur búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- eða sjávardýra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal fara um landamærastöðvar.
     Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
     Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað.
     Matvælastofnun skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsóknar á rannsóknastofu. Skal Matvælastofnun í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðunar og sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða taka hana til annarra nota enda sé það talið öruggt.
     Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.
     Um innflutning sjávarafurða og lifandi sjávardýra vísast að öðru leyti til 22. og 23. gr. og 25.– 27. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.
     
     c. (27. gr. c.)
     Matvælafyrirtæki sem markaðssetja matvæli sem falla undir ákvæði 27. gr. a og 27. gr. b skulu starfrækja innra eftirlit og byggja á hættugreiningu, sbr. ákvæði 10. gr., til að fyrirbyggja að matvæli geti valdið matarsjúkdómum og til þess að tryggja að matvæli séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.

20. gr.

     28. gr. laganna orðast svo:
     Þegar hætta er talin á að matvæli geti valdið alvarlegu heilsutjóni er ráðherra heimilt að fyrirskipa nauðsynlegar varúðar- og varnaraðgerðir.
     Í sérstökum tilvikum þar sem mat á fyrirliggjandi upplýsingum leiðir í ljós möguleika á heilsuspillandi áhrifum en vísindaleg óvissa ríkir áfram er ráðherra heimilt að samþykkja nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja heilsu almennings vegna hugsanlegra heilsuspillandi áhrifa.
     Ráðstafanir, sem eru samþykktar á grundvelli 2. mgr., skulu vera í réttu hlutfalli við markmið þeirra og ekki hamla viðskiptum meira en nauðsynlegt er. Ráðstafanirnar skulu endurskoðaðar innan eðlilegs tíma miðað við eðli þeirrar áhættu fyrir líf eða heilsu manna sem greind hefur verið og þá tegund vísindalegra upplýsinga sem þarf til að eyða vísindalegri óvissu og til að framkvæma umfangsmeira áhættumat.
     Varúðar- og varnaraðgerðir geta náð til alls landsins eða hluta þess. Skal ráðherra hafa samráð við Matvælastofnun og sóttvarnalækni áður en til aðgerða er gripið.

21. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 28. gr. a, svohljóðandi:
     Leiki rökstuddur grunur á að tiltekin matvæli hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna skulu hlutaðeigandi opinberir eftirlitsaðilar upplýsa almenning um eðli áhættunnar fyrir heilsu manna. Slíkar ráðstafanir opinbers eftirlitsaðila skulu miðast við eðli, alvarleika og umfang þeirrar áhættu sem um er að ræða. Tilgreina skal eins nákvæmlega og unnt er matvælin sem um er að ræða, tegund matvæla, þá áhættu sem kann að vera á ferðum og ráðstafanir sem hafa verið gerðar eða verða gerðar á næstunni til að fyrirbyggja, draga úr eða eyða þessari áhættu.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um opinbera birtingu niðurstaðna vegna eftirlits sem fram fer skv. 1. mgr.
     Jafnframt er ráðherra heimilt að setja með reglugerð reglur um birtingu niðurstaðna almenns matvælaeftirlits eða upplýsinga sem falla undir 18. gr. a. Ráðherra getur m.a. ákveðið að kæra fresti ekki réttaráhrifum opinberrar birtingar og jafnframt ákveðið að vissum upplýsingum sé haldið leyndum. Slíkar reglur skulu kveða á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og á hvaða tímamarki skuli birta slíkar upplýsingar. Heimilt er að birta niðurstöður eftirlits er varða eitt matvælafyrirtæki eða fleiri eftir atvikum.

22. gr.

     29. gr. laganna fellur brott.

23. gr.

     Í stað 30. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, sem verða 30. gr. og 30. gr. a – 30. gr. d, svohljóðandi:
     
     a. (30. gr.)
     Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að stöðva starfsemi að hluta eða í heild ef rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi, óhæf til neyslu eða valdi tjóni á öðrum hagsmunum.
     Sama gildir ef um er að ræða starfsemi sem er stunduð án tilskilins leyfis eða tilkynningarskyldu hefur ekki verið sinnt skv. 9. gr.
     Einnig er opinberum eftirlitsaðila heimilt að gefa fyrirmæli um afmengun matvæla, stöðva eða takmarka framleiðslu og markaðssetningu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvælin uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða stjórnvaldsreglna settra samkvæmt þeim. Þegar opinberir eftirlitsaðilar leggja hald á matvæli er þeim heimil förgun þeirra sé það talið nauðsynlegt.
     Þá getur opinber eftirlitsaðili jafnframt, til að knýja á um aðgerðir samkvæmt lögum þessum, stjórnvaldsreglum eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum, beitt eftirfarandi aðgerðum:
  1. veitt áminningu,
  2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.

     Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegt tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur opinber eftirlitsaðili afturkallað leyfi viðkomandi matvælafyrirtækis til reksturs skv. 9. gr., sbr. 20. gr.
     
     b. (30. gr. a.)
     Þegar stjórnandi sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur opinber eftirlitsaðili ákveðið matvælafyrirtæki dagsektir þar til úrbætur hafa verið framkvæmdar. Dagsektir sem Matvælastofnun ákveður renna í ríkissjóð en dagsektir sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna ákveða skulu renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Hámark dagsekta skal ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur. Jafnframt er opinberum eftirlitsaðila heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi opinberum eftirlitsaðila en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi matvælafyrirtæki. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar.
     
     c. (30. gr. b.)
     Opinberum eftirlitsaðila skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Einnig er opinberum eftirlitsaðila heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi og stjórnvaldsreglur settar samkvæmt þeim ná til.
     Stjórnendum er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber þeim endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits. Þá getur opinber eftirlitsaðili ákveðið að matvælafyrirtæki skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.
     
     d. (30. gr. c.)
     Telji Matvælastofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir, en tilkynna skal það hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.
     Matvælastofnun skal sjá um samhæfingu aðgerða samkvæmt lögum þessum þegar upp kemur bráð eða alvarleg matarsýking, matareitrun eða önnur vá svipaðs eðlis. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skulu þegar í stað tilkynna Matvælastofnun um slík mál og skal stofnunin að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisnefnd taka ákvörðun um nauðsynlegar ráðstafanir. Starfsmenn Matvælastofnunar og heilbrigðisnefndir skulu jafnframt tilkynna um slík mál til yfirlæknis viðkomandi heilsugæslu og sóttvarnalæknis, sbr. 4. og 5. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 11. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
     
     e. (30. gr. d.)
     Við meðferð mála skv. 30. gr., 30. gr. a, 30. gr. b og 30. gr. c skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar.

24. gr.

     30. gr. a laganna verður 30. gr. e.

25. gr.

     Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Varúðarráðstafanir, þvingunarúrræði og valdsvið.

26. gr.

     31. gr. laganna orðast svo:
     Brot gegn ákvæðum þessara laga og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
     Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á stjórnanda eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sömu skilyrðum, gera lögaðila sekt ef stjórnandi eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
     Mál út af brotum skv. 1. og 2. mgr. skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

27. gr.

     Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Viðurlög.

28. gr.

     Á undan 32. gr. laganna kemur ný grein sem verður 31. gr. a, svohljóðandi:
     Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga með reglugerðum. Þar skal m.a. kveðið nánar á um framleiðslu og markaðssetningu matvæla, hollustuhætti í matvælaiðnaði, rekjanleika matvæla og umbúða, merkingar matvæla, notkun fullyrðinga í merkingum matvæla, efnainnihald matvæla, viðmiðunarmörk fyrir örverufræðilega þætti og aðskotaefni, neysluvatn, umbúðir og pökkun, erfðabreytt matvæli og merkingar þeirra, tilkynningarskyldu þeirra sem framleiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli og efni eða efnablöndur sem nota á við framleiðslu og dreifingu matvæla, matvælaeftirlit, innra eftirlit matvælafyrirtækja, um sölu framleiðanda af eigin framleiðslu beint til neytenda, um innflutning dýraafurða frá þriðju ríkjum og starfsemi landamærastöðva, hraðviðvörunarkerfi og stjórnun vegna neyðartilvika og skipun ráðgefandi nefndar sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat.
     Einnig er ráðherra heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 134/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.
     Þá er ráðherra heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 852/2004, frá 29. apríl 2004, um hollustuhætti sem varða matvæli, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, frá 29. apríl 2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004, frá 29. apríl 2004, um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004, frá 29. apríl 2004, um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um dýraheilbrigði og velferð dýra séu virt, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 137/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við framangreindar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í þessar reglugerðir EB.
     Ráðherra er jafnframt heimilt að innleiða með reglugerð tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2004/41/EB, frá 21. apríl 2004, um niðurfellingu tiltekinna tilskipana sem varða hollustuhætti í tengslum við matvælaiðnað og heilbrigðisskilyrði við framleiðslu og markaðssetningu tiltekinna afurða úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis og um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/662/EBE og 92/118/EBE og ákvörðun ráðsins 95/408/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 137/2007.

29. gr.

     Fyrirsögn XIII. kafla laganna verður: Reglugerðarheimild, gildistaka o.fl.

30. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að fresta innleiðingu efnisákvæða reglugerða sem getið er í 3. mgr. 31. gr. a og varða kjöt, mjólk og egg til 1. nóvember 2011. Sama gildir um hráar afurðir úr þessum matvælategundum og aðrar unnar afurðir úr mjólk.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum.

31. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist eftirfarandi skilgreining, í stafrófsröð: Aukaafurðir úr dýrum: Heil hræ, skrokkar, skrokkhlutar, líffæri eða aðrar afurðir af dýrum sem ekki eru hæfar eða ætlaðar til manneldis.

32. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins er óheimilt að flytja til landsins eftirtaldar vörutegundir:
  1. hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, bæði unnar og óunnar, hrá egg, ósótthreinsuð hrá skinn og húðir, alidýraáburð og rotmassa blandaðan alidýraáburði,
  2. kjötmjöl, beinamjöl, blóðmjöl og fitu sem fellur til við vinnslu þessara efna,
  3. hey og hálm,
  4. hvers konar notaðar umbúðir, reiðtygi, vélar, tæki, áhöld og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang,
  5. hvers konar notaðan búnað til stangveiða.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt að leyfa innflutning á vörum þeim sem taldar eru upp í a–e-lið, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að ákvæði 1. mgr. skuli ekki gilda fyrir einstakar vörutegundir sem þar eru taldar upp ef varan sótthreinsast við tilbúning eða sérstök sótthreinsun er framkvæmd fyrir innflutning og vörunni fylgir fullnægjandi vottorð um uppruna, vinnslu og sótthreinsun. Ráðherra er heimilt að banna með auglýsingu innflutning á vörum sem hætta telst á að smitefni geti borist með og hætta telst geta stafað af varðandi heilbrigði dýra.
     Um framkvæmd þessarar greinar fer einnig eftir ákvæðum samningsins um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

33. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Aukaafurðir dýra, sem ekki eru ætlaðar til manneldis, skal meðhöndla, geyma, flytja, vinna eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Þeir sem meðhöndla, geyma, flytja eða vinna aukaafurðir dýra sem ekki teljast til úrgangs skulu sækja um leyfi Matvælastofnunar áður en starfsemin hefst. Ef aukaafurðir dýra teljast til úrgangs gilda um starfsemina ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
     Vinnslu-, geymslu-, lífgas- og myltingarstöðvar, svo og stöðvar fyrir milliefni og líffituefni, sem ætlað er að vinna aukaafurðir úr dýrum sem ekki teljast til úrgangs, þ.m.t. stöðvar sem annast vinnslu úr sjávar- og eldisafurðum, skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun áður en rekstur hefst.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aukaafurðir dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis, svo sem meðferð slíkra aukaafurða, flokkun og starfsleyfi vegna þeirra, sbr. 29. gr. a.

34. gr.

     Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt með reglugerð að skilgreina arfgerðir þeirra líflamba sem má ekki flytja yfir varnarlínur, þegar um er að ræða endurnýjun bústofns eftir niðurskurð vegna riðuveiki.

35. gr.

     Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein sem verður 29. gr. a, svohljóðandi:
     Heimilt er ráðherra að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 frá 3. október 2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 135/2007 og nr. 136/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, með síðari breytingum.

36. gr.

     1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Dýralæknar samkvæmt lögum þessum eru þeir dýralæknar er lokið hafa prófi frá dýralæknaháskóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum. Jafnframt teljast þeir dýralæknar sem heimild hafa til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um leyfisveitingu, menntunarkröfur og viðurkenndar menntastofnanir. Ef um er að ræða próf frá dýralæknaháskóla sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss skal leita umsagnar dýralæknaráðs áður en leyfi er veitt samkvæmt lögunum.

37. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Matvælastofnun skal hafa sex umdæmisskrifstofur og við hverja þeirra skal héraðsdýralæknir ráðinn til starfa, en einnig er heimilt að ráða dýralækna og aðra eftirlitsmenn til aðstoðar ef þess er þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna. Skrifstofur Matvælastofnunar skulu vera í eftirfarandi umdæmum:
  1. Suðvesturumdæmi: Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kjósarhreppur, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Sveitarfélagið Álftanes, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
  2. Vesturumdæmi: Akraneskaupstaður, Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Kaldrananeshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbær, Reykhólahreppur, Skorradalshreppur, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
  3. Norðvesturumdæmi: Akrahreppur, Blönduósbær, Bæjarhreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.
  4. Norðausturumdæmi: Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð, Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.
  5. Austurumdæmi: Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vopnafjarðarhreppur.
  6. Suðurumdæmi: Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.

     Héraðsdýralæknar skulu eingöngu sinna opinberum eftirlitsstörfum og hafa m.a. eftirlit með sláturdýrum, sláturafurðum og afurðastöðvum, eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu og lyfjanotkun vegna búfjár, sbr. ákvæði 4. mgr. 11. gr. lyfjalaga. Einnig ber þeim að hafa með höndum framkvæmd sóttvarnaaðgerða í sínum umdæmum. Þeir skulu annast eftirlit með velferð búfjár í samræmi við lög um búfjárhald. Þá ber þeim að hafa eftirlit með búfé og öðrum dýrum eftir því sem lög ákveða. Matvælastofnun getur falið héraðsdýralækni og öðrum starfsmönnum umdæmisskrifstofu stofnunarinnar að annast verkefni í öðrum umdæmum þegar þörf er á og einnig önnur eftirlitsverkefni sem stofnuninni eru falin.
     Að fengnum tillögum Matvælastofnunar setur ráðherra reglur um gjald sem skal innheimt fyrir eftirlit og skoðanir héraðsdýralækna og annarra dýralækna og eftirlitsmanna sem starfa við umdæmisskrifstofur stofnunarinnar.

38. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Til að tryggja velferð dýra og almenna þjónustu við dýraeigendur skal dýralæknir jafnan vera á bakvakt utan venjulegs dagvinnutíma á hverju vaktsvæði, sbr. 3. mgr. Héraðsdýralæknar, hver í sínu umdæmi, skipuleggja bakvaktir í samráði við sjálfstætt starfandi dýralækna sem þar starfa og er heimilt að skipta bakvakt innan sama vaktsvæðis milli fleiri dýralækna samtímis. Við skipulagningu bakvakta er ætlast til að tekið sé mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vaktsvæða. Komi upp ágreiningur um skiptingu bakvakta innan vaktsvæða skal leita úrskurðar Matvælastofnunar.
     Fyrir bakvaktaþjónustu greiðist samkvæmt samningi Dýralæknafélags Íslands við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti.
     Vaktsvæði dýralækna eru sem hér greinir:
  1. Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kjósarhreppur, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Sveitarfélagið Álftanes, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
  2. Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur.
  3. Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær.
  4. Dalabyggð og Reykhólahreppur.
  5. Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
  6. Akrahreppur, Blönduósbær, Bæjarhreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.
  7. Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur.
  8. Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.
  9. Borgarfjarðarhreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.
  10. Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.
  11. Sveitarfélagið Hornafjörður.
  12. Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur.
  13. Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.


39. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Í því skyni að tryggja velferð dýra og dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu svo og bráðaþjónustu skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setja reglugerð um hvernig tryggja skal starfsaðstöðu og greiðslu staðaruppbótar og/eða ferðakostnaðar dýralæknis sem tekur að sér að veita slíka þjónustu. Við ákvörðun um hvar þörf er á opinberum greiðslum fyrir dýralæknaþjónustu skal ráðherra hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun.

40. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Matvælastofnun skal eftir þörfum ráða sérgreinadýralækna til að sinna verkefnum m.a. á sviði sóttvarna, dýravelferðar, dýralyfja, dýraheilbrigðis og heilbrigðis dýraafurða.
     Sérgreinadýralæknar skulu vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, forvarnastarfi og eftirliti með framkvæmd sóttvarnaaðgerða. Sérgreinadýralæknar skulu hafa frumkvæði að sýnatökum, rannsóknum og öðrum aðgerðum til að stuðla að heilbrigði og velferð dýra og öryggi búfjárafurða.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um störf sérgreinadýralækna.

41. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Störf héraðsdýralækna hjá Matvælastofnun eru lögð niður við gildistöku þessara laga. Viðkomandi starfsmönnum skulu boðin störf hjá Matvælastofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.
     Ráðherra er heimilt að fela héraðsdýralækni að sinna tímabundið almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu enda fáist ekki dýralæknar til að sinna slíkri þjónustu við dýraeigendur á umræddu svæði. Heimild ráðherra samkvæmt þessari málsgrein fellur úr gildi 1. janúar 2015.
     Ráðherra skal setja reglugerð skv. 13. gr. eigi síðar en 1. júlí 2010.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum.

42. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem verður 4. gr. a, svohljóðandi:
      Lög nr. 93/1995, um matvæli, gilda um slátrun og sláturafurðir. Sama á við um reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum.

43. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Heilbrigðisskoðun skal fara fram á öllum sláturdýrum áður en slátrað er. Skoðunina skal framkvæma innan 24 klukkustunda frá komu í sláturhús og innan 24 klukkustunda fyrir slátrun. Þá skal heilbrigðisskoðun á öllum sláturafurðum fara fram í sláturhúsinu áður en frekari vinnsla fer fram eða þær eru afhentar til dreifingar. Að skoðun lokinni skal merkja allar sláturafurðirnar samkvæmt reglugerð er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur um heilbrigðisskoðun og merkingu á sláturafurðum að fengnum tillögum Matvælastofnunar.
     Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu sláturleyfishafar greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið:
  1. launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
  2. öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
  3. kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.

     Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, með sláturafurðum og sláturdýrum þegar tiltekin starfsemi eða afurðir sláturleyfishafa eða framleiðanda eru ekki taldar uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis sláturafurða vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber sláturleyfishafi eða framleiðandi, eftir því hvaða starfsemi sætir viðbótareftirliti. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að sláturafurðir hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits og skal gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Ráðherra skal kynna Landssamtökum sláturleyfishafa og Bændasamtökum Íslands efni og forsendur reglugerðar og gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og óska eftir umsögnum þeirra. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra. Miða skal við að gjaldskrá verði gefin út með eins árs millibili og taki mið af rekstraruppgjöri eftirlits fyrir heilt rekstrarár.
     Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal ráðherra taka tillit til eftirfarandi atriða:
  1. hvers konar slátrun er um að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
  2. hagsmuna sláturleyfishafa með litla framleiðslu,
  3. hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
  4. þarfa sláturleyfishafa með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.

     Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Einnig er heimilt að taka gjald vegna raunkostnaðar við sýnatöku og rannsóknir á sláturdýrum og afurðum sem slátrað er með heimild í 4. mgr. 5. gr.
     Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um innheimtu gjalds fyrir eftirlit á landamærastöðvum með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld Matvælastofnunar vegna eftirlits sem hún felur faggiltum aðilum að framkvæma samkvæmt lögum þessum.

44. gr.

     13. gr. laganna fellur brott.

45. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, svohljóðandi:
     Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um meðferð aukaafurða úr sláturdýrum sem skal vera í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002, frá 3. október 2002, um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

46. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um slátrun og sláturafurðir.

V. KAFLI
Breytingar á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, með síðari breytingum.

47. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Skilgreining á „fiskafurðum“ í 1. mgr. orðast svo: Fiskafurðir: Matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla og hafbeitar-, vatna- og eldisfiski.
  2. Skilgreining á „sjávarafurðum“ í 1. mgr. orðast svo: Sjávarafurðir: Sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan.
  3. Skilgreining á „neysluvatni“ í 2. mgr. orðast svo: Neysluvatn: Vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum og er ætlað til neyslu, eða matargerðar, einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
  4. Við 2. mgr. bætast eftirfarandi skilgreiningar á hugtökum í viðeigandi stafrófsröð:
    1. Smásala: Meðhöndlun og/eða vinnsla sjávarafurða og geymsla þeirra á staðnum þar sem þær eru seldar eða afhentar neytanda, þ.m.t. dreifingarstöðvar, matsölufyrirtæki, mötuneyti starfsfólks, veitingahús og önnur samsvarandi matarþjónusta ásamt verslunum, dreifingarstöðvum stórmarkaða og heildsölumörkuðum.
    2. Stjórnandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsreglum í fyrirtækjum sem annast meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða undir hans stjórn.


48. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
      Lög nr. 93/1995, um matvæli, gilda um sjávarafurðir. Sama á við um reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum.

49. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „íslensk yfirvöld“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: lög og stjórnvaldsreglur.
  2. Í stað orðanna „af íslenskum yfirvöldum“ í 2. mgr. kemur: í lögum og stjórnvaldsreglum.
  3. Í stað orðanna „íslensk yfirvöld heimila“ í 3. mgr. kemur: heimiluð eru í lögum og stjórnvaldsreglum.


50. gr.

     1. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

51. gr.

     Við 2. málsl. 11. gr. laganna bætist: og skulu merkingar að öðru leyti vera í samræmi við 13. gr. a laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

52. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. Orðin „framleiðslustöðvar dýrafóðurs úr sjávarafurðum“ í 1. mgr. falla brott.
  2. 2. og 3. mgr. orðast svo:
  3.      Fiskiskip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, önnur en vinnsluskip, aðgerðarþjónustur og kæli- og frystigeymslur, svo og fiskmarkaðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu, skulu hafa starfsleyfi.
         Matvælastofnun veitir vinnsluleyfi og starfsleyfi samkvæmt þessari grein að uppfylltum kröfum um hreinlæti, hönnun og búnað, sbr. 15. gr. ef við á. Í vinnsluleyfum skal tilgreina þær vinnslugreinar sem þau ná til.


53. gr.

     Í stað orðanna „Forsvarsmenn vinnslustöðva“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: Stjórnendur vinnslustöðva, skipa og annarra starfsstöðva.

54. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum Matvælastofnunar sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita Matvælastofnun upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem Matvælastofnun ákveður.
     Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við stofnunina, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir Matvælastofnun þeim áminningu eða riftir við þá samningi ef sakir eru miklar.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum.
     Jafnframt getur ráðherra sett reglur um hvernig innra eftirlit, sem starfrækt er samkvæmt vottuðu gæðakerfi, getur verið þáttur í opinberu matvælaeftirliti.

55. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnendum vinnslustöðva, skipa og annarra starfsstöðva er skylt að veita Matvælastofnun og þeim faggiltu aðilum sem falin eru tiltekin verkefni varðandi eftirlit samkvæmt samningi við Matvælastofnun allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar, þ.m.t. aðgang að hverjum þeim stað þar sem sjávarafurðir eru unnar eða geymdar. Matvælastofnun og faggiltir aðilar fara með upplýsingar þær sem leynt eiga að fara sem trúnaðarmál.

56. gr.

     Orðin „eða fóðurs“ í 1. mgr. 20. gr. laganna falla brott.

57. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Matvælastofnun er heimil skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna á lifandi fiski og sjávarafurðum sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins enda sé rökstuddur grunur um að fiskurinn eða afurðirnar séu heilsuspillandi eða óhæfar til neyslu.
     Viðtakandi sjávarafurða og lifandi fisks skal halda dagbók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu Matvælastofnunar.

58. gr.

     22. gr. laganna orðast svo:
     Allur innflutningur lifandi fisks og sjávarafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal fara um landamærastöðvar.
     Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
     Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað.
     Matvælastofnun skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsóknar á rannsóknastofu. Skal Matvælastofnun í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og um sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða að nýta hana í mjöl enda sé hún laus við eiturefni.
     Innflutningur á sjávarafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heimill frá þeim framleiðendum og vinnsluskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með sjávarafurðum uppfylli kröfur Evrópska efnahagssvæðisins. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að slíkt skuli einnig eiga við um fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting um borð á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting rækju.
     Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka hana til annarra nota eða eyða henni.

59. gr.

     Orðin „eða að nýta hana í fiskimjöl“ í 4. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna falla brott.

60. gr.

     28. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn á undan greininni.

61. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.

62. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: M.a. skal ráðherra setja gjaldskrá fyrir útgáfu starfsleyfa og útgáfu vinnsluleyfa, staðfestinga og vottorða vegna framkvæmdar á lögum þessum, svo og fyrir skráningu og móttöku umsókna.
  2. 2. mgr. fellur brott.


63. gr.

     Á eftir 31. gr. laganna kemur ný grein, 31. gr. a, svohljóðandi:
     Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu framleiðendur greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlit til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið:
  1. launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
  2. öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
  3. kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.

     Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit með sjávarafurðum, eldisafurðum og aukaafurðum þegar tiltekin starfsemi eða afurðir eru ekki taldar uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis afurða vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber framleiðandi eftir því hvaða starfsemi sætir viðbótareftirliti. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að afurðir hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits Matvælastofnunar og faggiltra aðila og skal gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Ráðherra skal kynna hlutaðeigandi hagsmunasamtökum efni og forsendur reglugerðar og gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og óska eftir umsögnum þeirra. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
     Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal ráðherra taka tillit til eftirfarandi atriða:
  1. hvers konar fyrirtæki er um að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
  2. hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
  3. hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
  4. þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.

     Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar.
     Innheimta má eftirlitsgjald með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
     Einnig er heimilt að taka gjald vegna raunkostnaðar við sýnatöku og rannsóknir á afurðum.
     Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um innheimtu gjalds fyrir eftirlit á landamærastöðvum með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld Matvælastofnunar vegna eftirlits sem hún felur faggiltum aðilum að framkvæma skv. 16. gr.

64. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um sjávarafurðir.

VI. KAFLI
Breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum.

65. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Tilgangur laga þessara er að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru.

66. gr.

     Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Aukaafurðir úr dýrum eru heil hræ, skrokkar, skrokkhlutar, líffæri eða aðrar afurðir af dýrum sem ekki eru hæfar eða ætlaðar til manneldis.
  2. Aukefni eru efni, efnablöndur eða örverur önnur en fóðurefni eða forblöndur sem eru notaðar í fóður eða vatn í því skyni að:
    1. bæta eiginleika fóðurs eða dýraafurða eða
    2. bæta frumefnum í fóðrið og stuðla að því að ná tilteknum næringarmarkmiðum eða mæta sérstakri tilfallandi næringarþörf dýra eða
    3. fullnægja næringarþörf dýra eða bæta búfjárframleiðslu, einkum með því að hafa áhrif á örveruflóru meltingarvegarins eða niðurbrotshæfni fóðurs eða
    4. koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum búfjárhalds eða bæta umhverfi dýra eða
    5. verjast hníslum og/eða vefsvipungum.
  3. Áhættugreining er ferli sem er samsett af þremur innbyrðis tengdum þáttum, þ.e. áhættumati, áhættustjórnun og áhættukynningu.
  4. Forblöndur eru blöndur aukefna í fóðri eða blöndur eins eða fleiri aukefna í fóðri við fóðurefni eða vatn, sem notuð eru sem burðarefni, ekki ætluð til nota beint sem fóður.
  5. Fóður er hvers konar efni eða vörur, einnig aukefni, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem ætluð eru til fóðrunar dýra. Til fóðurs teljast einnig vörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.
  6. Fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem starfar við framleiðslu, vinnslu, geymslu, flutning eða dreifingu fóðurs, áburðar og sáðvöru, þ.m.t. framleiðsla, vinnsla eða geymsla framleiðanda á slíkum vörum til notkunar á eigin bújörð, hvort sem fyrirtækið er rekið í ágóðaskyni eður ei og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.
  7. Markaðssetning fóðurs er að hafa umráð yfir fóðri með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða það til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.
  8. Rekjanleiki fóðurs er sá möguleiki að rekja feril fóðurs, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður og matvæli í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar.
  9. Stjórnandi fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtækis er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um fóður, áburð eða sáðvöru í fyrirtækjum undir hans stjórn.


67. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

68. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki skulu tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en starfsemi hefst. Óheimilt er að skrá fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki sem ekki sýna fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt er um.
     Fóðurfyrirtæki sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun og skulu þau sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Heimilt er að skilyrða starfsleyfi. Ef einnig er kveðið á um starfsleyfisskyldu í lögum um matvæli eða sérlögum fyrir starfsemi sem fellur einnig undir ákvæði þessara laga skal Matvælastofnun gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli laganna.
     Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma, enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um hana gilda. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Stjórnanda ber að veita Matvælastofnun upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Matvælastofnun er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum eða vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi fóðurs eða framkvæmd fóðureftirlits.

69. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
     Leiki rökstuddur grunur á að tiltekið fóður, áburður eða sáðvara hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna eða dýra skal Matvælastofnun upplýsa almenning um eðli áhættunnar fyrir heilsu dýra eða manna. Slíkar ráðstafanir Matvælastofnunar skulu miðast við eðli, alvarleika og umfang áhættunnar. Tilgreina skal eins nákvæmlega og unnt er fóður, áburð og sáðvöru sem um er að ræða, tegund vörunnar, þá áhættu sem kann að vera á ferðum og ráðstafanir sem hafa verið gerðar eða verða gerðar á næstunni til að fyrirbyggja, draga úr eða eyða þessari áhættu.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um opinbera birtingu niðurstaðna eftirlits skv. 1. mgr.
     Jafnframt er ráðherra heimilt að setja með reglugerð reglur um birtingu niðurstaðna almenns eftirlits með fóðri, áburði eða sáðvöru. Ráðherra getur m.a. ákveðið að kæra fresti ekki réttaráhrifum opinberrar birtingar og jafnframt ákveðið að vissum upplýsingum sé haldið leyndum. Slíkar reglur skulu kveða á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og á hvaða tímamarki skuli birta slíkar upplýsingar. Heimilt er að birta niðurstöður eftirlits er varða eitt fyrirtæki eða fleiri í senn eftir atvikum.

70. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Til þess að tryggja framkvæmd laga þessara setur ráðherra reglugerðir um atriði sem lög þessi ná til og varða fóður, áburð og sáðvöru. Þar skal m.a. kveðið nánar á um framleiðslu og markaðssetningu, hollustuhætti í framleiðslu, rekjanleika fóðurs, merkingar og vörulýsingar, efnainnihald, aukefni, sýnatökur, viðmiðunarmörk fyrir örverufræðilega þætti og óæskileg efni, umbúðir og pökkun, erfðabreytt fóður og merkingar þess, eftirlit Matvælastofnunar, innra eftirlit, meðferð aukaafurða dýra, innflutning fóðurs, áburðar og sáðvöru frá þriðju ríkjum og starfsemi landamærastöðva vegna fóðurs, hraðviðvörunarkerfi og stjórnun vegna neyðartilvika.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 134/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 183/2005, frá 12. janúar 2005, um kröfur varðandi hollustuhætti sem varða fóður, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 138/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við framangreinda reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004, frá 29. apríl 2004, um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um dýraheilbrigði og velferð dýra séu virt, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 137/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við framangreindar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í þessar reglugerðir EB.
     Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002, frá 3. október 2002, um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 135/2007 og nr. 136/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.

71. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Skráningarskylda og starfsleyfi, eftirlit og reglugerðarheimild.

72. gr.

     Á eftir 7. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Reglur um fóður,með tíu nýjum greinum, 7. gr. a – 7. gr. j, svohljóðandi, og breytast önnur kaflanúmer samkvæmt því:
     
     a. (7. gr. a.)
     Óheimilt er að markaðssetja fóður sem ekki er öruggt eða gefa dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis. Fóður telst ekki öruggt til fyrirhugaðrar notkunar ef það er álitið heilsuspillandi fyrir menn og dýr eða verður þess valdandi að dýraafurðir verða óhæfar til manneldis. Ef fóður, sem staðfest hefur verið að standist ekki kröfur um öryggi fóðurs, er hluti af framleiðslueiningu, lotu eða sendingu fóðurs í sama flokki eða með sömu einkenni skal gert ráð fyrir að ekkert fóður í þeirri framleiðslueiningu, lotu eða sendingu standist kröfurnar nema ítarlegt mat hafi leitt í ljós að engar vísbendingar séu um að afgangurinn af framleiðslueiningunni, lotunni eða sendingunni standist ekki kröfur um öryggi fóðurs.
     
     b. (7. gr. b.)
     Dýraprótein sem unnið er úr aukaafurðum úr dýrum má ekki nota í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis. Einungis er heimilt að nota slík dýraprótein til að framleiða fóður fyrir loðdýr, gæludýr og önnur dýr sem ekki eru alin til manneldis, og þá aðeins ef efnasamsetning, framleiðsluaðferðir, geymsla, flutningur og aðrar sérkröfur vegna þessara aukaafurða eru í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra skal setja um slíkar afurðir.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota dýraprótein sem unnið er úr fiski sem fóður eða til fóðurgerðar fyrir búfé og eldisfisk.
     Þó er bannað að fóðra dýr á dýrapróteini sem er unnið úr dýrum eða afurðum dýra af sömu tegund.
     Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um notkun á fóðri og áburði sem búinn er til úr aukaafurðum úr dýrum. Þar er ráðherra heimilt að flokka þessar afurðir í áhættuflokka allt eftir því hversu mikil hætta stafar af þeim varðandi útbreiðslu á smitsjúkdómum, sem og að banna notkun á einstökum flokkum ef slíkt reynist nauðsynlegt til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma.
     
     c. (7. gr. c.)
     Fóðureftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu innleiða, koma á og viðhalda framleiðsluaðferðum sem byggjast á meginreglum um hættugreiningu.
     
     d. (7. gr. d.)
     Stjórnandi fóðurfyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í fyrirtæki undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.
     
     e. (7. gr. e.)
     Ef stjórnandi fóðurfyrirtækis álítur eða hefur ástæðu til að álíta að fóður, sem hann hefur flutt inn, framleitt, tilreitt, unnið eða dreift, sé ekki í samræmi við kröfur um öryggi fóðurs skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að taka umrætt fóður af markaðnum og tilkynna það Matvælastofnun. Í þessum tilvikum eða þar sem framleiðslueiningin, lotan eða vörusendingin stenst ekki kröfur um öryggi fóðurs skal farga fóðrinu nema Matvælastofnun fallist á aðra lausn. Stjórnandi skal upplýsa notendur fóðursins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að það var tekið af markaðnum og, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem þeim hafa þegar verið afhentar ef aðrar ráðstafanir nægja ekki til þess að tryggja víðtæka heilsuvernd.
     Stjórnandi fóðurfyrirtækis, sem ber ábyrgð á smásölu eða dreifingarstarfsemi sem hefur ekki áhrif á umbúðir, merkingu, öryggi eða heilnæmi fóðursins, skal gera ráðstafanir, innan þeirra marka sem ráðast af viðkomandi starfsemi, til að taka vörur af markaðnum ef þær eru ekki í samræmi við kröfur um öryggi fóðurs og stuðla að öryggi fóðurs með því að veita þær upplýsingar sem þarf til að rekja feril tiltekins fóðurs í samvinnu við framleiðendur, vinnsluaðila og/eða Matvælastofnun.
     Álíti stjórnandi fóðurfyrirtækis eða hafi hann ástæðu til að álíta að tiltekið fóður, sem hann hefur markaðssett, standist ekki kröfur um öryggi fóðurs skal hann þegar í stað tilkynna það Matvælastofnun. Stjórnendur skulu tilkynna yfirvöldum um aðgerðir til að fyrirbyggja hættu vegna notkunar þessa fóðurs. Þeir skulu jafnframt eiga allt það samstarf við yfirvöld sem dregið getur úr eða eytt áhættu vegna viðkomandi fóðurs.
     Þegar nauðsyn krefur getur Matvælastofnun lagt fyrir stjórnanda fóðurfyrirtækis að hann tilkynni henni, með hæfilegum fyrirvara, um flutning fóðurs til landsins frá EES-ríkjum.
     
     f. (7. gr. f.)
     Á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar skal vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril fóðurs dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður. Stjórnandi fóðurfyrirtækis skal geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafa afhent því fóður og hvers kyns efni sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður. Einnig skal stjórnandi geta tilgreint fyrirtæki sem fóðurfyrirtækið hefur afhent vörur sínar. Í þessu skyni skulu umræddir stjórnendur hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar Matvælastofnun að beiðni hennar. Þá skulu fóðurvörur vera merktar og auðkenndar á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við fyrrgreindar kröfur.
     
     g. (7. gr. g.)
     Í sérstökum tilvikum þar sem mat á fyrirliggjandi upplýsingum leiðir í ljós möguleika á heilsuspillandi áhrifum fóðurs en vísindaleg óvissa ríkir áfram er ráðherra heimilt að samþykkja nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja heilsu almennings vegna hugsanlegra heilsuspillandi áhrifa fóðurs.
     Ráðstafanir, sem eru samþykktar á grundvelli 1. mgr., skulu vera í réttu hlutfalli við markmiðið og ekki hamla viðskiptum meira en nauðsynlegt er. Ráðstafanirnar skulu endurskoðaðar innan eðlilegs tíma miðað við eðli þeirrar áhættu fyrir líf eða heilsu manna sem greind hefur verið og þá tegund vísindalegra upplýsinga sem þarf til að eyða vísindalegri óvissu og til að framkvæma umfangsmeira áhættumat.
     Varúðar- og varnaraðgerðir skv. 1. mgr. geta náð til alls landsins eða hluta þess. Skal ráðherra hafa samráð við Matvælastofnun áður en til slíkra aðgerða er gripið.
     
     h. (7. gr. h.)
     Fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við rannsóknir og greiningu á fóðri skulu tilkynna Matvælastofnun ef í fóðri greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.
     
     i. (7. gr. i.)
     Allur innflutningur fóðurs frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem inniheldur dýraafurðir skal fara um landamærastöðvar.
     Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
     Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað.
     Matvælastofnun skal kanna ástand fóðursins og taka sýni til rannsóknar á rannsóknastofu. Skal hún í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að fóðrið sé heilsuspillandi og verði þess valdandi að dýraafurðir verði óhæfar til manneldis skal eyða því. Heimilt er þó að endursenda fóðrið að fengnu leyfi yfirvalda í útflutningslandi eða taka það til annarra nota enda sé það talið öruggt. Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.
     
     j. (7. gr. j.)
     Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd fóðureftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara.
     Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum Matvælastofnunar sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita stofnuninni upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem hún ákveður.
     Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við Matvælastofnun, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir stofnunin þeim áminningu eða riftir við þá samningi ef sakir eru miklar.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum.
     Jafnframt getur ráðherra sett reglur um hvernig innra eftirlit fóðurfyrirtækja, sem starfrækt er samkvæmt vottuðu gæðakerfi, getur verið þáttur í opinberu fóðureftirliti.
     Þá er ráðherra heimilt að ákveða að tilteknar rannsóknastofur, sem hlotið hafa faggildingu á viðkomandi rannsóknar- eða prófunarsviði, skuli vera tilvísunarrannsóknastofur.

73. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlit með fóðri, áburði eða sáðvöru:
  1. launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
  2. öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
  3. kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.

     Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, með vöru þegar tiltekin starfsemi eða vara fyrirtækis er ekki talin uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis vara vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að vara hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Ráðherra skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
     Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal ráðherra taka tillit til eftirfarandi atriða:
  1. hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
  2. hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
  3. hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
  4. þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.

     Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
     Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld Matvælastofnunar vegna eftirlits sem hún felur faggiltum aðilum að framkvæma samkvæmt þessum lögum.

74. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
     Ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða vegna framkvæmdar á lögum þessum, svo og vegna skráningar og móttöku umsókna. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

75. gr.

     Fyrirsögn III. kafla laganna er verður IV. kafli verður: Eftirlitsgjald vegna fóðurs, áburðar og sáðvöru.

76. gr.

     Í stað 9. gr. laganna koma sex nýjar greinar sem verða 9. gr. og 9. gr. a – 9. gr. e, svohljóðandi:
     
     a. (9. gr.)
     Matvælastofnun er heimilt að stöðva starfsemi að hluta eða í heild ef rökstuddur grunur er um að fóður, áburður eða sáðvara sé heilsuspillandi fyrir menn og dýr og verði þess valdandi að matvæli af dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis verða óhæf til manneldis. Sama gildir ef um er að ræða starfsemi sem starfar án tilskilins leyfis eða hefur ekki sinnt tilkynningarskyldu skv. 4. gr.
     Einnig er Matvælastofnun heimilt að gefa fyrirmæli um afmengun fóðurs, stöðva eða takmarka framleiðslu og markaðssetningu fóðurs, áburðar eða sáðvöru og leggja hald á slíka vöru þegar rökstuddur grunur er um að varan uppfylli ekki ákvæði í vörulýsingu eða ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Þegar Matvælastofnun leggur hald á fóður, áburð eða sáðvöru er henni heimil förgun vörunnar sé það talið nauðsynlegt.
     Þá getur Matvælastofnun jafnframt, til að knýja á um aðgerðir samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum, beitt eftirfarandi aðgerðum:
  1. veitt áminningu,
  2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.

     Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur Matvælastofnun afturkallað leyfi viðkomandi fyrirtækis til reksturs skv. 4. gr.
     
     b. (9. gr. a.)
     Þegar stjórnandi sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Matvælastofnun ákveðið fyrirtæki dagsektir þar til úrbætur hafa verið framkvæmdar. Dagsektir renna í ríkissjóð og skal hámark þeirra ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur. Jafnframt er Matvælastofnun heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi fyrirtæki. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi án dóms eða sáttar.
     
     c. (9. gr. b.)
     Matvælastofnun skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, reglugerðir og samþykktir ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
     Einnig er Matvælastofnun heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir ná til.
     Stjórnanda er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber honum endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits. Þá getur Matvælastofnun ákveðið að fyrirtæki skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.
     
     d. (9. gr. c.)
     Telji Matvælastofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir.
     
     e. (9. gr. d.)
     Við meðferð mála skv. 9. gr., 9. gr. a, 9. gr. b og 9. gr. c skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar.
     
     f. (9. gr. e.)
     Brot gegn ákvæðum þessara laga og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að tveimur árum.
     Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á stjórnanda eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sömu skilyrðum, gera lögaðila sekt ef stjórnandi eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
     Mál út af brotum skv. 1. og 2. mgr. skulu sæta meðferð sakamála.

77. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna er verður V. kafli verður: Þvingunarúrræði og refsiákvæði.

VII. KAFLI
Staðfesting og gildistaka.

78. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. október 2007 nr. 133/2007, nr. 134/2007, nr. 135/2007, nr. 136/2007, nr. 137/2007 og nr. 138/2007.

79. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2010 að undanskildum II.–IV. kafla sem öðlast gildi 1. nóvember 2011. Þó tekur 43. gr. í IV. kafla gildi 1. mars 2010. 54. og 55. gr. og 9. efnismgr. 63. gr. taka gildi 1. mars 2011 og frá sama tíma falla úr gildi samningar faggiltra skoðunarstofa við vinnslu- og starfsleyfishafa.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2009.