Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 812, 138. löggjafarþing 403. mál: tekjuskattur (leiðrétting).
Lög nr. 16 18. mars 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (leiðrétting vegna laga um tekjuöflun ríkisins).


1. gr.

     2. mgr. 65. gr. laganna orðast svo:
     Ríkisskattstjóri getur veitt ívilnanir samkvæmt þessari grein án umsóknar. Berist umsókn eftir að kærufresti skv. 99. gr. lýkur er ríkisskattstjóra heimilt að taka hana til afgreiðslu enda séu skilyrði 2. mgr. 101. gr. uppfyllt.

2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 101. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ríkisskattstjóra er heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Beiðni skal byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum sem ekki var unnt að koma að innan tímamarka 99. gr. Þá skulu skilyrði 96. gr. uppfyllt ef um hækkun er að ræða. Víkja má frá þessum tímamörkum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Heimilt er skattaðila að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 41. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, koma ákvæði 17. og 37. gr. þeirra laga til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2011 hjá þeim lögaðilum sem hafa almanaksárið sem reikningsár og hjá þeim sem hafa upphaf reikningsárs 1. febrúar 2010 eða síðar á því ári.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. 1. og 2. gr. koma til framkvæmda á árinu 2010. 3. gr. kemur til framkvæmda við álagningu 2011.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2010.