Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1040, 138. löggjafarþing 370. mál: stjórn fiskveiða (strandveiðar).
Lög nr. 32 30. apríl 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum (strandveiðar).


1. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
     Á hverju fiskveiðiári hefur ráðherra til ráðstöfunar 6.000 lestir af óslægðum botnfiski sem nýttar skulu til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Í lögum þessum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar og leyfin til þeirra veiða strandveiðileyfi. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda.
     Þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt þessari grein skal skipt á fjögur landsvæði. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á mánuði og landsvæði. Þá skal ráðherra með reglugerð stöðva strandveiðar frá hverju landsvæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.
     Strandveiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. og einungis er heimilt að veita hverri útgerð, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Frá og með árinu 2011 er óheimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips.
     Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Strandveiðileyfi eru bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili.
     Leyfi til strandveiða samkvæmt þessari grein eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum.
  2. Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess tíma er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
  3. Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
  4. Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
  5. Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.
  6. Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.

     Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Gjald skal lagt á afla í samræmi við hlutfallslega skiptingu afla eftir tegundum. Skal gjaldið nema því meðalverði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á fiskmörkuðum á þeim stað og því tímabili þegar hann barst að landi.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd strandveiða.

2. gr.

     Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr töluliður er verður 1. tölul., svohljóðandi: Aflaheimildir skv. 6. gr. a.

3. gr.

     Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Gjald vegna strandveiða miðast við landaðan afla í strandveiðum.

4. gr.

     Við 1. mgr. 23. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjalddagi veiðigjalds vegna afla sem veiddur er við strandveiðar er 1. október.

5. gr.

     Fyrsti málsliður 24. gr. laganna orðast svo: Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, eða eftir atvikum leyfi til strandveiða, fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2010.