Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1190, 138. löggjafarþing 575. mál: skipan ferðamála (gæðamál, tryggingarfjárhæðir).
Lög nr. 53 10. júní 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála, með síðari breytingum (gæðamál, tryggingarfjárhæðir).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: leggja fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi.
  2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ferðamálastofu er heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu.


2. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um leyfi, framkvæmd leyfisveitinga og eftirlit með leyfishöfum, þar á meðal um flokkun leyfa og öryggismál.

3. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, svohljóðandi:
     Vegna mikilla breytinga á neytendamarkaði er Ferðamálastofu heimilt samkvæmt rökstuddri beiðni ferðaskrifstofu og framlagningu tilskilinna gagna skv. 4. mgr. 18. gr. að veita tímabundna undanþágu varðandi mat á tryggingarfjárhæð fyrir árið 2010. Skilyrði fyrir undanþágunni eru þau að verulegur samdráttur hafi orðið í sölu alferða ferðaskrifstofu. Við ákvörðun Ferðamálastofu um veitingu undanþágu samkvæmt ákvæðinu skal tekið mið af 14. gr. Að öðru leyti gilda ákvæði 17. gr.
     Ferðamálastofu er heimilt að endurskoða ákvörðun sína til hækkunar ef í ljós kemur að aukning hefur orðið á farþegafjölda og/eða alferðum hefur fjölgað og/eða rekstrartekjur vegna alferða hafa aukist hjá ferðaskrifstofu sem hlotið hefur undanþágu skv. 1. mgr. Við mat á því hvort aukning hjá ferðaskrifstofu hafi orðið svo mikil að rétt sé að endurskoða ákvörðun skal leggja til grundvallar hagsmuni neytenda.

4. gr.

     Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
     Óski ferðaskrifstofa eftir undanþágu skv. 1. mgr. 17. gr. a er Ferðamálastofu heimilt að taka beiðnina til athugunar þegar eftirfarandi gögn hafa borist henni:
  1. rökstudd beiðni fyrir undanþágu,
  2. endurskoðaður ársreikningur fyrir árið á undan; þó er heimilt að leggja fram óendurskoðaðan ársreikning, áritaðan af endurskoðanda,
  3. tryggingarskyld velta ársins á undan, sundurgreind eftir mánuðum, staðfest af endurskoðanda,
  4. áætlun yfir tryggingarskylda veltu yfirstandandi árs, sundurgreind eftir mánuðum, staðfest af endurskoðanda.
Að öðru leyti gilda ákvæði 3. mgr. um árleg skil ferðaskrifstofa.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2010.