Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1472, 131. löggjafarþing 735. mál: skipan ferðamála (heildarlög).
Lög nr. 73 24. maí 2005.

Lög um skipan ferðamála.


I. KAFLI
Tilgangur og yfirstjórn.

1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að stuðla að þróun ferðamála sem atvinnugreinar og mikilvægs þáttar í íslensku atvinnu- og mannlífi. Þjóðhagsleg hagkvæmni, menning þjóðarinnar, umhverfisvernd, fagmennska og neytendavernd verði höfð að leiðarljósi.

2. gr.

     Samgönguráðherra fer með yfirstjórn mála sem lög þessi taka til nema annað sé ákveðið í lögum.

3. gr.

     Ferðamálastofa fer með framkvæmd ferðamála samkvæmt lögum þessum og eins og henni er falið með öðrum lögum.
     Samgönguráðherra skipar ferðamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Ferðamálastofu forstöðu. Ferðamálastjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.

4. gr.

     Verkefni Ferðamálastofu eru einkum:
  1. Útgáfa leyfa, skráning á starfsemi og eftirlit með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt.
  2. Þróunar-, gæða- og skipulagsmál ferðaþjónustu, þ.e. framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu, samræming umhverfis- og fræðslumála, miðlun upplýsinga, svæðisbundin þróun og alþjóðlegt samstarf.
  3. Markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustu, í samræmi við ákvörðun ráðherra hverju sinni.

     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Ferðamálastofu og einstök verkefni hennar.
     Ferðamálastofu er heimilt með samþykki ráðherra að fela öðrum að annast ákveðin verkefni og vera aðili að samstarfsverkefnum, þar á meðal eiga eignarhluta í fyrirtækjum sem starfa á ákveðnum sviðum.

5. gr.

     Ráðherra skipar ferðamálaráð. Í ferðamálaráði skulu eiga sæti tíu fulltrúar. Skulu formaður og varaformaður skipaðir af ráðherra án tilnefningar en aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna: Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna þrjá fulltrúa, Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tilnefnir tvo fulltrúa, Ferðamálasamtaka Íslands sem tilnefna tvo fulltrúa og Útflutningsráðs Íslands sem tilnefnir einn. Skipunartími ferðamálaráðs skal vera fjögur ár en skipunartími formanns og varaformanns skal þó takmarkaður við embættistíma ráðherra.
     Ferðamálastjóri og fulltrúi ráðuneytisins sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.

     Ferðamálaráð gerir, árlega eða oftar, tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Jafnframt skal ferðamálaráð vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum. Ferðamálaráð skal veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um starfsemi ferðamálaráðs.

II. KAFLI
Orðskýringar.

7. gr.

     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Ferðaskipuleggjandi merkir í lögum þessum aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram og selur í atvinnuskyni eftirfarandi ferðatengda þjónustu fyrir almenning:
    1. Skipulagningu og sölu ferða til hópa og einstaklinga og skipulagningu á ferðum, dvöl, afþreyingu og frístundaiðju, innan lands og erlendis.
    2. Skipulagningu funda, sýninga og ráðstefna og hvers kyns þjónustu því tengda, innan lands sem utan.
    3. Hvers konar umboðs- og endursölu farmiða með skipum, bifreiðum, flugvélum eða járnbrautum.
    4. Afþreyingu, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar og ævintýraferðir með sérútbúnum ökutækjum.
    5. Ferðir og veitingar sem hluta af veittri þjónustu.
  2. Ferðaskrifstofa merkir í lögum þessum aðili, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem setur saman, býður fram og selur alferðir í atvinnuskyni, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, innan lands eða erlendis.
  3.      Ferðaskrifstofa getur jafnframt haft með höndum og veitt alla þá ferðatengdu þjónustu sem ferðaskipuleggjandi gerir, hvort sem hún er veitt í formi alferða eða ekki.
         Hugtakið ferðaskrifstofa nær bæði til ferðaheildsala og ferðasmásala samkvæmt lögum nr. 80/1994, um alferðir.
  4. Bókunarþjónusta merkir í lögum þessum starfræksla hvers kyns bókunarþjónustu til almennings, fyrir ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur, hvort sem er innan lands eða erlendis, þar með talin rafræn bókunarþjónusta.
  5. Upplýsingamiðstöð merkir í lögum þessum aðili sem stundar hlutlausa upplýsingagjöf til almennings. Upplýsingamiðstöð hvorki setur saman, býður til sölu né auglýsir ferðir eða aðra ferðatengda starfsemi.
  6. Alferð merkir í lögum þessum fyrirframákveðin samsetning ekki færri en tveggja eftirtalinna atriða: flutnings, gistingar og/eða annarrar þjónustu við viðskiptavin sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar, þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tengd ferðinni tekur til a.m.k. 24 klst. eða í henni er falin gisting. Það telst alferð þótt reikningar séu gerðir sérstaklega fyrir hvern hluta ferðar og greitt sé fyrir ferð í hlutum.
  7. Leyfisskyld starfsemi er öll starfsemi og þjónusta ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu sem fellur undir skilgreiningu laganna, hvort sem hún er innt af hendi af einstaklingi, fyrirtæki eða félagi.
  8. Skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er öll starfsemi bókunarþjónustu og upplýsingamiðstöðva, hvort sem starfsemin er innt af hendi af einstaklingi, fyrirtæki eða félagi.
  9. Viðskiptavinur samkvæmt lögum þessum getur verið hvort sem er einstaklingur, fyrirtæki, félag eða stofnun.


III. KAFLI
Ferðaskipuleggjanda- og ferðaskrifstofuleyfi.

8. gr.

     Hver sá sem hyggst starfa sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa skal hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Leyfisbréf skal gefið út af Ferðamálastofu og skal leyfishafi hafa það sýnilegt fyrir viðskiptavini á starfsstöð sinni.
     Ferðamálastofa skal eiga myndrænt auðkenni sem leyfishafi fær heimild til að nota við útgáfu leyfis. Auðkenni þetta skal leyfishafi nota í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á heimasíðu sinni.
     Leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu er ótímabundið.
     Þeim einum er heimilt að hafa orðið ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa í nafni starfsemi sinnar sem hlotið hefur leyfi samkvæmt lögum þessum.
     Starfsemi ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu skal rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði ef þjónusta er einungis rekin á rafrænan hátt og skal leyfishafi uppfylla skilyrði 6. gr. laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, um það sem koma skal fram á heimasíðu.
     Heimilt er að reka útibú frá ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu á grundvelli leyfisins og skal forsvarsmaður útibús einnig fullnægja skilyrðum 9. gr.
     Ferðamálastofa skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti, svo sem á heimasíðu sinni. Jafnframt skal auglýsa á heimasíðu brottfall leyfa.
     Ferðamálastofa ákveður hvaða íslensk ferðafélög eru undanþegin ákvæðum laga þessara að því er lýtur að ferðum innan lands.

9. gr.

     Sækja skal um leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu til Ferðamálastofu að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi skal hefjast.
     Til að öðlast leyfi þarf umsækjandi eða forsvarsmaður umsækjanda, ef hann er lögaðili, að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
  1. hafa búsetu á Íslandi,
  2. hafa náð 20 ára aldri,
  3. vera lögráða og hafa ekki á síðustu fjórum árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld né lögum þessum,
  4. hafa forræði á búi sínu,
  5. hafa ekki verið sviptur ferðaskipuleggjanda- eða ferðaskrifstofuleyfi á síðustu þremur árum frá umsókn.

     Staðfestingu á tryggingu skv. V. kafla skal leggja fram áður en starfsleyfi til reksturs ferðaskrifstofu er veitt.
     Í umsókn um leyfi skal koma fram heiti ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu og skal geta um öll hjáheiti sem aðili hyggst nota í starfsemi sinni. Óheimilt er að reka starfsemina undir öðrum heitum en þeim sem leyfi hljóðar um.
     Heimilt er að bæta hjáheitum við þegar fengið leyfi með sérstakri umsókn frá leyfishafa til Ferðamálastofu sem þá skal gefa út nýtt leyfisbréf, án gjalds.
     Erlendur ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa sem hyggst opna starfsstöð á Íslandi skal sækja um leyfi og leggja fram skírteini um tryggingu eins og nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
     Leyfishafa er heimilt að leggja leyfið inn til Ferðamálastofu en ferðaskrifstofu er óheimilt að segja upp tryggingu sinni samkvæmt lögum þessum fyrr en að fenginni staðfestingu Ferðamálastofu á innlögn leyfisins.

10. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um umsóknir um leyfi og framkvæmd leyfisveitinga.

IV. KAFLI
Skráningarskyld starfsemi.

11. gr.

     Hver sá sem hyggst stunda starfsemi sem er skráningarskyld samkvæmt lögum þessum skal senda skriflega tilkynningu þess efnis til Ferðamálastofu.
     Ferðamálastofa gefur út skírteini til staðfestingar á að starfsemi hafi verið tilkynnt og uppfylli ákvæði laga þessara um tilkynningarskyldu.
     Ferðamálastofa skal halda skrá yfir skráningarskylda aðila sem tilkynnt hafa um starfsemi og birta hana með aðgengilegum hætti, svo sem á heimasíðu sinni.

12. gr.

     Þeim einum er heimilt að nota heitin bókunarþjónusta og upplýsingamiðstöð í nafni starfsemi er undir þessi lög fellur sem hefur fengið útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum.
     Skráðir aðilar hafa heimild til að nota myndrænt auðkenni Ferðamálastofu.
     Upplýsingamiðstöðvar sem njóta opinbers fjárstuðnings skulu halda þeim þætti starfseminnar fjárhagslega aðskildum frá öðrum þáttum starfseminnar, svo sem bókunarþjónustu. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um bókhald og fjárhagslegan aðskilnað þjónustu sem nýtur opinbers fjárstuðnings og annars reksturs.

13. gr.

     Í tilkynningu til Ferðamálastofu um skráningarskylda starfsemi skal koma fram eftirfarandi eftir því sem við á:
  1. Nafn starfseminnar, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
  2. Nafn og kennitala forráðamanns.
  3. Rekstrarfyrirkomulag.
  4. Ítarleg lýsing á starfsemi.
  5. Hvort og þá hvaða opinberra styrkja starfsemin nýtur.
  6. Opnunartími starfsstöðvar.

     Ferðamálastofu er heimilt að fella skráðan aðila af skrá ef hinni skráðu starfsemi hefur verið hætt eða starfsemi er útvíkkuð þannig að hún falli undir skilgreiningu á ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu. Ferðamálastofa úrskurðar ef ágreiningur rís um til hvaða flokks starfsemi heyrir.

V. KAFLI
Tryggingarskylda vegna alferða.

14. gr.

     Tryggingarskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er sala alferða.
     Ferðaskrifstofa skal hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar sem enn er ófarin og til heimflutnings viðskiptavinar úr alferð, hvort sem hann er innan lands eða erlendis, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu. Trygging skal einnig ná til þess að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflega áætlun hennar.
     Trygging skv. 2. mgr. getur verið:
  1. Fé sem lagt er inn í viðurkenndan banka eða sparisjóð í nafni Ferðamálastofu, sbr. 17. gr.
  2. Ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi. Skulu þessir aðilar hafa starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir skulu jafnframt leggja fram yfirlýsingu um að gildissvið og fjárhæð tryggingarinnar sé í samræmi við lög þessi.
  3. Önnur trygging sem Ferðamálastofa metur sambærilega. Leggja skal fram yfirlýsingu um að gildissvið og fjárhæð slíkrar tryggingar sé í samræmi við lög þessi.


15. gr.

     Trygging skv. 14. gr. skal gilda á meðan leyfi til reksturs ferðaskrifstofu er í gildi. Trygging skal vera tiltæk í allt að sex mánuði eftir brottfall leyfis skv. 21. gr. eða eftir að starfsemi er hætt.

16. gr.

     Þeim viðskiptavinum ferðaskrifstofu sem þegar eru í alferð skal gert kleift að ljúka ferð sinni. Í því felst að allt það sem viðskiptavinur hefur þegar greitt og er í samræmi við fyrirframákveðna alferð, hvort sem um flutning, gistingu eða aðra fyrirframgreidda hluta ferðar er að ræða, skal greiða af tryggingarfé svo að honum sé kleift að ljúka ferð sinni. Ekki er hins vegar skylt að greiða það sem viðskiptavinur kaupir aukalega, þ.e. hluta ferðar sem ekki teljast til fyrirframákveðinnar alferðar.
     Viðskiptavinur sem hefur greitt inn á alferð hjá ferðaskrifstofu skal fá endurgreitt það fé sem hann hefur greitt, hvort sem endanlegur samningur um alferðina hefur komist á eða ekki, enda leggi hann fram fullnægjandi sönnunargögn um innáborgunina.
     Þeir sem hafa greitt alferð að hluta eða öllu leyti en ekki hafið ferð skulu fá endurgreitt það fé sem þeir hafa þegar greitt.
     Hafi tryggingarfé verið notað til að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.
     Þegar um heimflutning farþega er að ræða fyrir milligöngu Ferðamálastofu vegna rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu, áður en alferð er lokið, skal aðeins greiddur sá hluti alferðarinnar er viðskiptavini tókst ekki að ljúka.
     Einungis beint fjárhagslegt tjón af alferð skal greitt af tryggingarfé ferðaskrifstofu en ekkert tjón sem rekja má til hugsanlegra óþæginda eða miska.

17. gr.

     Fjárhæð tryggingar skv. 14. gr. skal ákvörðuð samkvæmt einum eftirfarandi liða og skal sú niðurstaða gilda sem gefur hæsta tryggingu:
  1. 60% af veltu tveggja söluhæstu mánaðanna í röð,
  2. 35% af veltu fjögurra söluhæstu mánaðanna í röð eða
  3. 15% af heildarveltu á ári.
Trygging skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en 1 millj. kr.
     Samgönguráðherra skal setja reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa til að aðskilja sölu alferða frá annarri starfsemi og til að nauðsynlegar upplýsingar við mat á tryggingarfjárhæð liggi fyrir.
     Ferðamálastofu er heimilt að krefjast hærri tryggingar í þeim tilfellum þegar um sérstaklega áhættusaman rekstur er að ræða eða að öðru leyti er ljóst að trygging samkvæmt lögum þessum mun ekki nægja komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu.

18. gr.

     Til að unnt sé að meta upphæð tryggingar skal umsækjandi um leyfi til reksturs ferðaskrifstofu leggja fram með umsókn ítarlega áætlun um rekstur, greiðslustreymi og efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár. Áætluninni skal vera skipt á mánuði og áætluð tryggingarskyld velta sérgreind. Áætluninni skal fylgja staðfesting endurskoðanda á að hún sé rétt miðað við gefnar forsendur.
     Ferðamálastofa leggur mat á forsendur áætlunarinnar og er heimilt að óska eftir samningum og öðrum frekari gögnum sem stofnunin telur nauðsynleg til mats á áætluninni. Ferðamálastofa leggur mat á fjárhæð tryggingar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en áður skal leita umsagnar löggilts endurskoðanda.
     Ferðaskrifstofur skulu fyrir 30. apríl ár hvert senda Ferðamálastofu endurskoðaðan ársreikning og önnur gögn sem áskilin eru í reglum, sbr. 2. mgr. 17. gr., auk áætlunar um fyrirhuguð umsvif á starfsárinu. Ferðamálastofa tekur ákvörðun á grundvelli þeirra upplýsinga um hvort þörf sé á breytingu á tryggingarfjárhæð að fenginni umsögn löggilts endurskoðanda.
     Ferðamálastofu er heimilt að taka gjöld af ferðaskrifstofum sem renna til Ferðamálastofu til að standa straum af eftirliti samkvæmt lögum þessum. Fjárhæð gjaldanna skal koma fram í reglum sem samgönguráðherra setur skv. 2. mgr. 17. gr. að fengnum tillögum Ferðamálastofu. Gjöldin skulu standa undir kostnaði af bókhaldsrannsóknum og öðru því sem nauðsynlegt er til að sannreyna fjárhæð tryggingar á hverjum tíma.

19. gr.

     Komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu skal Ferðamálastofa láta birta áskorun um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði. Í áskorun skal skora á viðskiptavini að leggja fram skriflegar kröfulýsingar í tryggingarfé innan 60 daga frá birtingu áskorunar. Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna, svo sem farseðlar og kvittanir. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun um kröfu. Ákvörðunum Ferðamálastofu má skjóta til ráðuneytisins.

20. gr.

     Ferðamálastofu er heimilt að tilnefna umsjónarmann til að sjá um uppgjör tryggingarfjár. Umsjónarmaður skal hafa með höndum umsýslu vegna heimflutnings farþega og endurgreiðslu af tryggingarfé ferðaskrifstofu. Kostnaður við störf umsjónarmanns skal greiddur af tryggingarfé.

VI. KAFLI
Brottfall leyfis.

21. gr.

     Leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu fellur niður ef leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa verður gjaldþrota eða er sviptur fjárræði. Einnig fellur leyfið niður ef trygging sú sem ferðaskrifstofu er skylt að setja skv. V. kafla fellur niður eða fullnægir ekki ákvæðum laga þessara.
     Ferðamálastofa getur fellt úr gildi leyfi til reksturs ferðaskipuleggjanda eða ferðaskrifstofu ef leyfishafi eða forsvarsmaður uppfyllir ekki lengur skilyrði 9. gr. og jafnframt ef leyfishafi eða forsvarsmaður verður uppvís að misnotkun á leyfi eða myndrænu auðkenni Ferðamálastofu eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum laganna.
     Einnig er Ferðamálastofu heimilt að fella leyfi niður ef ferðaskrifstofa uppfyllir ekki skilyrði 18. gr. um skil á ársreikningum og öðrum gögnum sem eru nauðsynleg til mats á fjárhæð tryggingar skv. 14. gr. eða ef ferðaskrifstofa sinnir ekki ákvörðun Ferðamálastofu um hækkun tryggingarfjárhæðar innan mánaðar frá því að ákvörðun um hækkun er tilkynnt.

22. gr.

     Áður en leyfi er fellt úr gildi skv. 2. og 3. mgr. 21. gr. skal Ferðamálastofa senda viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar og skal leyfishafa gefinn frestur í a.m.k. 14 daga til að bæta úr annmörkum.
     Ef til niðurfellingar skv. 2. og 3. mgr. 21. gr. kemur skal Ferðamálastofa senda leyfishafa skriflega tilkynningu þess efnis og um frá hvaða tíma leyfi telst niður fallið.
     Ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa sem svipt er leyfi skal skila leyfisbréfi til Ferðamálastofu án tafar frá því að tilkynning skv. 2. mgr. berst.
     Ferðamálastofa skal auglýsa með tryggilegum hætti þegar um brottfall leyfis er að ræða bæði í Lögbirtingablaði og á heimasíðu sinni. Jafnframt getur Ferðamálastofa auglýst brottfall leyfis á annan hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni.
     Niðurfelling leyfis ferðaskrifstofu skv. 2. og 3. mgr. 21. gr. jafngildir því að um rekstrarstöðvun sé að ræða og gilda ákvæði V. kafla er varðar tryggingarskylda starfsemi ferðaskrifstofunnar.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

23. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um skipulag ferðamála samkvæmt lögum þessum.

24. gr.

     Öll þjónusta ferðaskrifstofu sem veitt er á rafrænan hátt skal fara eftir lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

25. gr.

     Stjórnsýsluákvörðunum Ferðamálastofu, svo sem um synjun á útgáfu ferðaskipuleggjanda- eða ferðaskrifstofuleyfis, ákvörðun um brottfall leyfis eða ákvörðun um til hvaða flokks þjónusta heyrir samkvæmt lögum þessum, má skjóta til ráðuneytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

26. gr.

     Leyfis- og skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum sem stunduð er án tilskilins leyfis eða skráningar varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála.
     Ef leyfis- og skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er rekin án tilskilins leyfis eða skráningar er unnt að leita dómsúrskurðar um stöðvun starfseminnar, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun heimasíðu.

27. gr.

     Ferðamálastofa innheimtir gjald fyrir útgáfu starfsleyfa og skráningu á starfsemi samkvæmt gjaldskrá, staðfestri af ráðherra. Við gjaldtöku skal taka mið af kostnaði við veitingu þjónustunnar.

28. gr.

     Ráðherra er heimilt að ákveða, að fenginni umsögn Ferðamálastofu, að greitt skuli sanngjarnt gjald fyrir þjónustu sem veitt er á ferðamannastöðum enda sé fé það sem þannig safnast, að frádregnum innheimtukostnaði, eingöngu notað til verndar, fegrunar og snyrtingar viðkomandi staðar og til að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna.
     Ákvæði þessi taka þó ekki til þjóðgarða eða annarra svæða á vegum Umhverfisstofnunar nema samþykki hennar komi til.

VIII. KAFLI
Gildistaka.

29. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. janúar 2006.
     Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 117/1994, um skipulag ferðamála.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara tekur Ferðamálastofa við öllum einkaréttarlegum réttindum og skuldbindingum skrifstofu Ferðamálaráðs, svo sem aðild að leigusamningum og samstarfssamningum innan lands og utan. Eignir Ferðamálaráðs renna til Ferðamálastofu. Þá gilda ráðningarsamningar sem skrifstofa Ferðamálaráðs hefur gert við starfsfólk sitt áfram gagnvart Ferðamálastofu. Skipun ferðamálastjóra skal jafnframt halda gildi sínu út skipunartíma.
     Leyfishafar, sem hafa útgefin og gild leyfi til reksturs ferðaskrifstofu þegar lög þessi taka gildi, skulu skila leyfum og sækja um á ný til Ferðamálastofu innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.
     Öll leyfi til reksturs ferðaskrifstofu sem gefin hafi verið út fyrir gildistöku laga þessara falla úr gildi sex mánuðum eftir gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.