Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1322, 138. löggjafarþing 343. mál: fjármálafyrirtæki (hertar reglur).
Lög nr. 75 23. júní 2010.

Lög um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
     Tilgangur laga þessara er að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi.

2. gr.

     Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 1. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Orðskýringar.
     Í lögum þessum merkir:
 1. Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar:
  1. bein eignatengsl eða bein yfirráð yfir allt að 20% af hlutafé eða stofnfé eða atkvæðavægi fyrirtækis liggja fyrir, eða
  2. yfirráð eða samstarf er til staðar milli aðila í skilningi laga þessara.
 2. Hópur tengdra viðskiptavina: Það telst hópur tengdra viðskiptamanna ef öðru eða báðum eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
  1. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum, eða
  2. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a-lið, en þeir teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum, einkum í tengslum við fjármögnun eða endurgreiðslu skulda, eigi hinn aðilinn eða allir í greiðsluerfiðleikum.
 3. Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.
 4. Hlutdeild: Beinn eða óbeinn eignarréttur eða eftir atvikum annars konar ráðstöfunarréttur yfir eignarhlut, t.d. atkvæðisrétti.
 5. Samstarf: Samstarf skal vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
  1. Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi.
  2. Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið.
  3. Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. aðili á með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög og systurfélög teljast í samstarfi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
  4. Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.
 6. Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga eða laga þessara, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti.
 7. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
 8. Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu fyrirtækisins.
 9. Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og félags.


3. gr.

     Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Gildissvið. Markmið. Orðskýringar.

4. gr.

     5. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     F-liður 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Umsjón með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar og taka verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

6. gr.

     Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Takmörkun á starfsemi fjármálafyrirtækis.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að takmarka starfsemi einstakra starfsstöðva fjármálafyrirtækja telji það sérstaka ástæðu til. Því er enn fremur heimilt að setja einstaka starfsstöðvum fjármálafyrirtækis sérstök skilyrði fyrir áframhaldandi starfsemi. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að takmarka tímabundið starfsemi fjármálafyrirtækis sem því er heimilt að stunda, í heild eða hluta, hvort sem hún er starfsleyfisskyld eða ekki, telji stofnunin sérstaka ástæðu til.
     Áður en gripið er til takmörkunar skv. 1. mgr. skal viðkomandi fjármálafyrirtæki gefinn kostur á að koma við úrbótum sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein skulu rökstuddar skriflega. Veiti fjármálafyrirtækið þjónustu í öðru aðildarríki skal tilkynning um efni ákvörðunarinnar og rökstuðning send lögbærum eftirlitsaðila í því ríki.

7. gr.

     14. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Hlutafé og stofnfé.
     Við veitingu starfsleyfis skal lágmark innborgaðs stofnfjár (e. initial capital) fjármálafyrirtækja vera eins og tilgreint er í 2.–8. mgr. Til stofnfjár skv. 1. málsl. telst innborgað hlutafé, innborgað stofnfé sparisjóðs og varasjóðir (e. cash money).
     Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé sparisjóðs skal að lágmarki nema 5 milljónum evra (EUR).
     Stofnfé sparisjóðs sem starfar á afmörkuðum, staðbundnum markaði og hefur eingöngu starfsheimildir skv. 1., 2., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal að lágmarki nema 1 milljón evra. Í umsókn um starfsleyfi skal umsækjandi gera grein fyrir hvað telst staðbundinn, afmarkaður markaður viðkomandi sparisjóðs. Fjármálaeftirlitið ákvarðar hvað telst staðbundinn, afmarkaður markaður.
     Hlutafé rafeyrisfyrirtækis skal að lágmarki nema 1 milljón evra.
     Hlutafé verðbréfafyrirtækis skal að lágmarki nema 730 þúsundum evra.
     Hlutafé verðbréfafyrirtækis sem hefur ekki starfsheimildir til að stunda viðskipti fyrir eigin reikning eða sinna sölutryggingu fjármálagerninga og hefur a.m.k. eina af starfsheimildum a–c-liðar þessarar málsgreinar, ásamt því að fara með vörslur fjármuna eða fjármálagerninga viðskiptavinar, skal að lágmarki nema 125 þúsundum evra:
 1. móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga,
 2. framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina eða
 3. eignastýringu.

     Hlutafé verðbréfamiðlunar skal að lágmarki nema 50 þúsundum evra.
     Hlutafé rekstrarfélags verðbréfasjóða skal að lágmarki nema 125 þúsundum evra. Hlutafé skal hækka um sem nemur 0,02% af eignum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem rekstrarfélagið rekur og eru umfram 250 milljónir evra. Hlutafé skv. 1. og 2. málsl. þarf þó ekki að fara yfir 10 milljónir evra. Með eignum rekstrarfélags samkvæmt þessari málsgrein skal telja eignir verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     Sé hlutafé eða stofnfé skv. 2.–8. mgr. skráð í íslenskum krónum skal miða við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
     Óski fjármálafyrirtæki eftir nýju starfsleyfi skal bókfært eigið fé í stað hlutafjár eða stofnfjár ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 2.–8. mgr.
     Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis skv. 84. og 85. gr. má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 2.–8. mgr.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessari grein.

8. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Í fjármálafyrirtæki skal starfa endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun. Innri endurskoðunardeild skal starfa óháð öðrum deildum í skipulagi fjármálafyrirtækis og er hún hluti af skipulagi þess og þáttur í eftirlitskerfi þess. Starfsmenn innri endurskoðunardeildar skulu sameiginlega búa yfir nægjanlegri þekkingu og reynslu til þess að takast á við verkefni deildarinnar og skal starfsmannafjöldinn endurspegla stærð fjármálafyrirtækis og starfsemi þess. Starfsmenn innri endurskoðunardeildar mega ekki vera hluthafar í viðkomandi fjármálafyrirtæki. Heimilt er að kveða nánar á um starfsemi innri endurskoðunardeildar í reglugerð.
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal ráða forstöðumann endurskoðunardeildar fyrirtækis sem fer með innri endurskoðun í umboði hennar. Hann skal hafa sérþekkingu á sviði innri endurskoðunar, hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi og búa yfir nægilegri reynslu til þess að geta sinnt starfi sínu. Hann má ekki hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið getur hvenær sem er tekið hæfi forstöðumanns innri endurskoðunardeildar til sérstakrar skoðunar telji stofnunin tilefni til.
     Innri endurskoðun skal reglulega gera stjórn og endurskoðunarnefnd grein fyrir starfsemi sinni. Skylt er að taka þær athugasemdir sem forstöðumaður innri endurskoðunar metur mikilvægar fyrir á stjórnarfundum og færa til bókar. Forstöðumaður innri endurskoðunardeildar hefur rétt til setu á stjórnarfundum þar sem athugasemdir hans eru á dagskrá.
     Eigi sjaldnar en árlega skal innri endurskoðun gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir niðurstöðum kannana sinna. Auk þess skal innri endurskoðun tilkynna Fjármálaeftirlitinu sérstaklega og án tafar þær athugasemdir sem gerðar hafa verið og sendar stjórn.
     Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrar einstakra fjármálafyrirtækja, veitt undanþágu frá starfrækslu innri endurskoðunardeildar eða frá einstökum þáttum starfsemi þeirra og sett þeim fyrirtækjum sérstök skilyrði sem slíka undanþágu fá.

9. gr.

     Í stað 2. mgr. 17. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fjármálafyrirtæki ber að framkvæma regluleg álagspróf og skjalfesta forsendur og niðurstöður þeirra. Niðurstöður álagsprófa skulu vera á dagskrá næsta stjórnarfundar eftir að niðurstaða þeirra liggur fyrir.
     Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um framkvæmd áhættustýringar, stöðu þeirra sem framkvæma áhættustýringu í skipuriti fjármálafyrirtækja og um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

10. gr.

     Á eftir 17. gr. laganna koma tvær nýjar greinar ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (17. gr. a.)
Uppfærð skuldbindingaskrá.
     Fjármálafyrirtæki skal halda sérstaka skrá um alla þá sem njóta lánafyrirgreiðslu þess. Til lánafyrirgreiðslu samkvæmt þessari grein teljast beinar lánveitingar til viðkomandi, kaup á skuldabréfum útgefnum af viðkomandi, kaup á eignasafni annars lánveitanda þar sem er að finna kröfu á viðkomandi og hvers konar önnur fyrirgreiðsla sem jafna má til lánafyrirgreiðslu, enda nemi brúttóskuld viðkomandi við fjármálafyrirtækið að lágmarki 300 millj. kr.
     Fjármálafyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu uppfærða skrá miðað við hver mánaðamót. Skal skráin greinast í nöfn og kennimerki lántakenda. Enn fremur skal senda sambærilega skrá um aðila í nánum tengslum og hópa tengdra viðskiptamanna, að svo miklu leyti sem þeir aðilar eru ekki á fyrrnefndri skrá. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara og ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um meðferð upplýsinga sem skráin hefur að geyma.
     Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um innihald skrárinnar.
     
     b. (17. gr. b.)
Skylda lántaka til að veita upplýsingar.
     Telji Fjármálaeftirlitið að lántökur einstaks aðila, sem er á skuldbindingaskrá skv. 17. gr. a og lýtur ekki opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, geti haft kerfislæg áhrif er því heimilt að krefja viðkomandi um upplýsingar um skuldbindingar hans. Til skuldbindinga samkvæmt þessari grein teljast beinar lántökur, ádregnar lánalínur, útgáfa á skuldaskjölum viðkomandi, kaup á skuldatryggingu eða greiðsluvátryggingu vegna lántöku, kaup- og söluréttur og hvers konar önnur fyrirgreiðsla, innan eða utan efnahagsreiknings, sem viðkomandi hefur notið og jafna má til lánafyrirgreiðslu eða ábyrgðar.
     Neiti aðili að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar skv. 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið fyrirskipað eftirlitsskyldum aðilum að ekki verði um frekari fyrirgreiðslu af hálfu eftirlitsskyldra aðila við viðkomandi að ræða. Sama á við ef upplýsingagjöf viðkomandi er ófullnægjandi. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein skulu rökstuddar skriflega.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „náin tengsl fjármálafyrirtækis“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. 1. tölul. 1. gr. a.
 2. 2. og 3. mgr. falla brott.


12. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum þessum.
     Fjármálafyrirtækjum ber að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skulu þau m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.
     Fjármálafyrirtæki skal tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu.

13. gr.

     Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Úrskurðarnefnd.
     Fjármálafyrirtæki skal hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði viðskiptavina sinna ef ágreiningur rís milli viðskiptavinar og fjármálafyrirtækis, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
     Fjármálafyrirtækjum er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfar samkvæmt samningi milli efnahags- og viðskiptaráðherra, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja, svo og samkvæmt samþykktum er hún setur sér. Formaður nefndarinnar skal fullnægja skilyrðum til þess að vera héraðsdómari. Nefndin kveður upp rökstudda úrskurði og verður þeim ekki skotið til stjórnvalda, en heimilt er aðilum máls að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti. Ráðherra annast birtingu samþykkta nefndarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.

14. gr.

     Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Upplýsingar um viðskiptamenn.
     Fjármálafyrirtæki skulu setja sér reglur um hvernig haldið er utan um upplýsingar um einstaka viðskiptamenn. Í þeim skal koma fram hvaða starfsmenn hafi aðgengi að upplýsingunum starfs síns vegna, hvernig staðið skuli að miðlun upplýsinga til innra eftirlits, eftirlitsstjórnvalda og lögreglu og hvernig eftirliti með framkvæmd reglnanna er háttað. Reglurnar skulu vera aðgengilegar viðskiptavinum.

15. gr.

     8. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Þátttöku í útboðum verðbréfa, þjónustuviðskipta sem tengjast slíkum útboðum og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

16. gr.

     Í stað síðari málsliðar 1. mgr. 22. gr. laganna koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Tilkynning, ásamt rökstuðningi, hér að lútandi skal send Fjármálaeftirlitinu. Hafi viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, eða dótturfélag þeirra, þurft að grípa til aðgerða skv. 1. málsl. og tekið yfir a.m.k. 40% eignarhlut í viðskiptaaðila sínum skulu ákvæði VII. og VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, gilda um viðskiptaaðilann eftir því sem við á. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 3. málsl. enda sé fjárhagslegri endurskipulagningu lokið innan sex mánaða frá því að viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, eða dótturfélag þeirra, hóf starfsemina. Fjármálaeftirlitið metur hvort fjárhagsleg skilyrði 1. málsl. séu uppfyllt og skal endurskipulagningu lokið áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að starfsemi skv. 1. málsl. hófst. Fjármálaeftirlitið getur framlengt tímafrest skv. 5. málsl. og skal í umsókn rökstutt hvaða atvik hindra sölu.

17. gr.

     G-liður 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Umsjónar með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

18. gr.

     Orðin „og 29. gr.“ í 5. mgr. 28. gr. laganna falla brott.

19. gr.

     29. gr. laganna orðast svo:
     Samanlagður eignarhlutur fjármálafyrirtækis og dótturfélaga þess má ekki nema hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár eða stofnfjár fyrirtækisins. Eignist viðkomandi meira af hlutafénu eða stofnfénu vegna lúkningar viðskipta, sbr. 22. gr., skal slíkt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt allt að þriggja mánaða frest til að koma eignarhlutnum niður í lögmælt mark. Um heimildir fjármálafyrirtækis til að eignast eigin hluti gilda að öðru leyti ákvæði VIII. kafla hlutafélagalaga.
     Við útreikning skv. 1. málsl. 1. mgr. skal taka tillit til framvirkra kaup- og sölusamninga og annarra afleiðusamninga sem fjármálafyrirtæki hefur gert um eigin hlutabréf.

20. gr.

     Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein, 29. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Lánveitingar.
     Fjármálafyrirtæki eða dótturfélögum þess er óheimilt að veita lán sem eru tryggð með veði í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum útgefnum af því. Sama gildir um aðra samninga sé undirliggjandi áhætta á eigin bréf. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gefa út reglur sem undanskilja tiltekna samninga banni skv. 2. málsl. enda auki þeir ekki útlánaáhættu fjármálafyrirtækis.
     Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita stjórnarmanni, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanni eða þeim sem á virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda, lán eða aðra fyrirgreiðslu, sem telst áhættuskuldbinding, nema gegn traustum tryggingum. Fjárhæð áhættuskuldbindingar skv. 1. málsl. skal ekki fara yfir 1% af eiginfjárgrunni en má þó nema allt að 100 millj. kr.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning fjárhæðar áhættuskuldbindingar skv. 2. mgr. og um hvað teljast traustar tryggingar.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um með hvaða hætti lán sem eru tryggð með hlutabréfum eða stofnfjárbréfum annars fjármálafyrirtækis koma til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni og í mati á eiginfjárþörf til að tryggja að ekki sé hætta á að lánveitingin skapi kerfislæga áhættu í fjármálakerfinu. Reglurnar taki einnig til þess með hvaða hætti meta skal lán sem eru tryggð með veði í eignasöfnum, svo sem vörslureikningum og verðbréfasjóðum, sem innihalda hlutabréf eða stofnfjárbréf, hvort sem þau eru útgefin af fjármálafyrirtækinu sjálfu eða öðrum fjármálafyrirtækjum, þannig að samræmist ákvæðum 1. mgr. og 1. málsl. þessarar málsgreinar.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um lánveitingar dótturfélaga eftir því sem við á.

21. gr.

     30. gr. laganna orðast svo:
     Áhætta vegna eins viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. Leiki vafi á því hverjir teljast til hóps tengdra viðskiptamanna er fjármálafyrirtæki skylt að tengja aðila saman nema viðkomandi fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á hið gagnstæða. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.
     Með áhættu skv. 1. mgr. er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluti og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, svo og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu.
     Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „stjórnun og fjárhagsstaða“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: stjórnun eða fjárhagsstaða.
 2. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða lokun útibúsins innan framangreinds frests.

23. gr.

     Í stað orðanna „stjórnun og fjárhagsstaða“ í 1. málsl. 3. mgr. 37. gr. laganna kemur: stjórnun eða fjárhagsstaða.

24. gr.

     Í stað orðanna „stjórnun og fjárhagsstaða“ í 1. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna kemur: stjórnun eða fjárhagsstaða.

25. gr.

     Í stað orðanna „traust og eftirlit“ í 2. málsl. 39. gr. laganna kemur: traust eða eftirlit.

26. gr.

     40. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tilkynning til Fjármálaeftirlitsins.
     Aðili sem hyggst eignast, einn sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 25%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans.

27. gr.

     40. gr. a laganna fellur brott.

28. gr.

     41. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Upplýsingar í tilkynningu.
     Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skv. 40. gr. skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi:
 1. Nafn og heimili þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
 2. Nafn þess fjármálafyrirtækis sem fyrirhugað er að fjárfesta í.
 3. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem fyrirhugað er að fjárfesta í.
 4. Áform um breytingar á verkefnum eða stjórnendum fjármálafyrirtækis.
 5. Fjármögnun fjárfestingarinnar.
 6. Fjárhagsstaða þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
 7. Núverandi og fyrirhuguð viðskiptatengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki.
 8. Reynsla þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut af fjármálastarfsemi.
 9. Eignarhald, stjórnarseta eða önnur þátttaka þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í starfsemi annarra lögaðila.
 10. Refsingar sem sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hefur verið dæmdur til að sæta og hvort viðkomandi sæti rannsókn.
 11. Náin tengsl þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við aðra lögaðila.
 12. Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar og birtir opinberlega.

     Sé sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lögaðili skulu upplýsingar skv. 1. mgr. eiga við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóra og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum. Skal þá enn fremur upplýst um endurskoðanda lögaðilans. Skulu upplýsingarnar studdar gögnum eftir því sem það á við. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágur frá skilum á upplýsingum þessum hafi lögaðili ekki tök á að afla þeirra eða ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lýtur opinberu fjármálaeftirliti í öðru ríki og unnt er að afla sambærilegra upplýsinga frá eftirlitsstjórnvaldi þess ríkis. Sama á við ef aðilinn lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

29. gr.

     42. gr. laganna orðast svo:
     Eigi síðar en tveimur starfsdögum eftir móttöku tilkynningar skv. 40. gr. skal Fjármálaeftirlitið staðfesta móttöku hennar. Telji Fjármálaeftirlitið að afla þurfi ítarlegri upplýsinga en þeirra sem upp eru taldar í 1. mgr. 41. gr. frá þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut getur það krafið viðkomandi um þær. Slík krafa skal sett fram eigi síðar en fimmtíu starfsdögum eftir móttöku tilkynningar. Fjármálaeftirlitið hefur sextíu starfsdaga til þess að meta hvort það telur þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hæfan til að fara með eignarhlutinn. Sé óskað eftir viðbótarupplýsingum frá viðkomandi, sbr. 2. málsl., bætist bið eftir upplýsingunum við dagafjölda skv. 4. málsl., þó ekki umfram tuttugu virka daga. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að óska aftur eftir frekari upplýsingum. Slík beiðni lengir ekki framangreinda tímafresti.
     Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Skal mat Fjármálaeftirlitsins grundvallast á öllum eftirfarandi atriðum:
 1. Orðspori þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.
 2. Orðspori og reynslu þess sem mun veita fjármálafyrirtækinu forstöðu komi til hinna fyrirhuguðu kaupa eða aukningar eignarhlutar.
 3. Fjárhagslegu heilbrigði (e. financial soundness) þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækinu, einkum með tilliti til þess reksturs sem fjármálafyrirtækið hefur, eða mun hafa, með höndum.
 4. Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki eða hafa áhrif á hvort það muni fylgja lögum og reglum sem um starfsemi þess gilda. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við Fjármálaeftirlitið og/eða önnur stjórnvöld, til þess hvort staða fjármálafyrirtækisins í hópi fyrirtækja sem það mun tilheyra kunni að mati Fjármálaeftirlitsins að hindra það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut, hindri eðlilegt eftirlit.
 5. Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, eða geti aukið líkur á að slíkt athæfi verði látið viðgangast innan hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis.

     Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfélag slíks aðila eða einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir slíkum aðila, og ef félagið sem þessi aðili hyggst öðlast virkan eignarhlut í yrði dótturfélag hans eða lyti yfirráðum hans í kjölfar öflunar þessara eignarhluta, skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í samræmi við 3. mgr. 2. gr. við mat sitt.

30. gr.

     43. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tilkynning til aðila sem telst ekki hæfur.
     Telji Fjármálaeftirlitið þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn skal það tilkynna viðkomandi um það. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja niðurstöðu sína fyrir viðkomandi.
     Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að niðurstaðan lá fyrir. Liggi niðurstaða Fjármálaeftirlitsins ekki fyrir innan þess tímafrests sem kveðið er á um í 42. gr. skal litið svo á að Fjármálaeftirlitið hafi ekki athugasemdir við fyrirætlanir þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki.

31. gr.

     44. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Dráttur. Endurnýjun tilkynningar.
     Hafi sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi ráðist í þær fjárfestingar sem hann hafði tilkynnt Fjármálaeftirlitinu innan sex mánaða frá því að niðurstaða þess lá fyrir skal hann tilkynna því að nýju um fyrirhugaða fjárfestingu sína. Ákvæði 40.–43. gr. gilda þá um þá tilkynningu og viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við henni.

32. gr.

     45. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tilkynning ekki send.
     Nú tilkynnir aðili sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut Fjármálaeftirlitinu ekki um fyrirhuguð kaup sín eða aukningu á virkum eignarhlut, þrátt fyrir að honum sé það skylt skv. 40. gr., og fellur þá niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram það sem hann átti áður. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins fái stofnunin vitneskju um kaupin eða aukninguna. Skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að hlutaðeigandi sendi inn tilkynningu í samræmi við ákvæði 41. gr. Um málsmeðferð fer að öðru leyti skv. 41.–43. gr. Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við að viðkomandi aðili eignist eða auki við virkan eignarhlut öðlast hann atkvæðisrétt í samræmi við eignarhlut sinn. Berist tilkynning hlutaðeigandi ekki innan fjögurra vikna frá því að Fjármálaeftirlitið krafðist tilkynningar getur það krafist þess að hann selji þann hluta eignarhlutarins sem er umfram það sem hann átti áður. Fjármálaeftirlitið setur tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir.

33. gr.

     46. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Óhæfur aðili eignast hlut.
     Eignist aðili eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki hæfur til að eignast eða auka við hlut sinn fellur niður atkvæðisréttur aðila umfram lágmark þess hlutar sem telst virkur eignarhlutur. Viðkomandi aðila er skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram það sem hann átti áður og niðurstaða Fjármálaeftirlitsins tók til. Fjármálaeftirlitið setur tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Aðili öðlast fyrri atkvæðisrétt að sölu lokinni.

34. gr.

     Á eftir 46. gr. laganna kemur ný grein, 46. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Hömlur á meðferð hlutar meðan tímafrestur stendur.
     Kaup á virkum eignarhlut koma ekki til framkvæmda gagnvart fjármálafyrirtækinu sem um ræðir fyrr en tímafrestur Fjármálaeftirlitsins til að taka málið til skoðunar skv. 42. gr. er liðinn eða niðurstaða Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir, hafi eftirlitið tekið tilkynningu um hin fyrirhuguðu kaup eða aukningu til frekari skoðunar. Á meðan Fjármálaeftirlitið hefur ekki tilkynnt um niðurstöðu sína, eða tímafrestur skv. 42. gr. er ekki liðinn, er þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut óheimilt að taka þátt í ákvörðunum um breytingar á fjárhagslegri stöðu, eignauppbyggingu, rekstri, starfsemi og innri starfsreglum nema að fengnu sérstöku samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ákvæði 2. málsl. eiga þó ekki við um meðferð eignarhlutar sem aðili átti fyrir eða er ekki umfram virkan eignarhlut.

35. gr.

     47. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tilkynning eiganda um aðilaskipti.
     Hyggist eigandi virks eignarhlutar draga svo úr hlutafjár- eða stofnfjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut eftir það skal hann tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 25%, 33%, 50% eða svo mikið að fjármálafyrirtækið hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjár- eða stofnfjáraukningar.

36. gr.

     48. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tilkynning fjármálafyrirtækis um aðilaskipti.
     Þegar hlutafjár- eða stofnfjáreign í fjármálafyrirtæki fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. skal stjórn þess tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það án ástæðulauss dráttar.
     Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal fjármálafyrirtæki tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í því og um hlutafjáreign hvers þeirra. Sama á við um eigendur stofnfjár.

37. gr.

     49. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Upplýsingaskylda.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. 40. gr. og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt þessum kafla. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

38. gr.

     Á eftir 49. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 49. gr. a og 49. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (49. gr. a.)
Raunverulegur eigandi.
     Leiki vafi á því, að mati Fjármálaeftirlitsins, hver sé eða verði raunverulegur eigandi virks eignarhlutar skal það tilkynna þeim sem sendi tilkynningu skv. 40. gr. eða fjármálafyrirtækinu sjálfu, ef ekki næst til þess sem tilkynnti, að eftirlitið telji viðkomandi ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn.
     
     b. (49. gr. b.)
Náin tengsl.
     Ákvæði 40.–49. gr. gilda um náin tengsl eftir því sem við getur átt. Ekki má mynda náin tengsl nema sýnt sé að þau hindri ekki eftirlit með starfsemi félagsins.

39. gr.

     52. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Framkvæmdastjóri skal vera búsettur í aðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá menntunarkröfum skv. 1. málsl. á grundvelli reynslu og þekkingar viðkomandi. Jafnframt skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjórar búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt, m.a. hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að þeir muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða félagið. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og um hvernig staðið skuli að hæfismati.
     Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis og stjórnarmenn annars eftirlitsskylds aðila mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er tengdur honum né vera starfsmenn, lögmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða félaga í nánum tengslum. Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. getur stjórnarmaður eða starfsmaður fjármálafyrirtækis tekið sæti í stjórn annars fjármálafyrirtækis, vátryggingafélags eða fjármálasamsteypu ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu fjármálafyrirtækisins eða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í fjármálafyrirtækinu. Sama gildir um lögmann móðurfélags.
     Stjórnarseta skv. 5. mgr. skal háð því að hún skapi ekki, að mati Fjármálaeftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði. Í þessu sambandi skal m.a. horft til eignarhalds aðila og tengsla félagsins sem um ræðir við aðra aðila á fjármálamarkaði, svo og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur fjármálafyrirtækisins.
     Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á félagsstjórn og framkvæmdastjóra og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum greinarinnar sé fullnægt.

40. gr.

     Á eftir 52. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 52. gr. a, 52. gr. b og 52. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
     
     a. (52. gr. a.)
Stjórn fjármálafyrirtækis boðar til aðalfundar félagsins.
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal boða til aðalfundar í samræmi við lög, samþykktir eða ákvörðun aðalfundar. Nú boðar stjórn ekki til fundar í samræmi við 1. málsl. og skal þá Fjármálaeftirlitið boða til hans að kröfu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra, endurskoðanda eða aðila sem er atkvæðisbær á aðalfundi. Fjármálaeftirlitið tilnefnir fundarstjóra í þeim tilvikum og skal stjórn afhenda honum skrá yfir þá sem eru atkvæðisbærir, gerðabók aðalfunda og endurskoðunarbók. Félagið greiðir kostnað við aðalfundinn.
     
     b. (52. gr. b.)
     Stjórn móðurfélags ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu þegar mynduð er félagasamstæða og fjármálafyrirtæki öðlast yfirráð í öðru félagi. Einnig skal tilkynna verulegar breytingar á skipulagi samstæðu þegar þær ganga í gildi.
     
     c. (52. gr. c.)
     Stjórn og framkvæmdastjóri skulu án tafar gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi þeir vitneskju um málefni sem hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins.

41. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
 1. Lokamálsliður 2. mgr. orðast svo: Reglur þessar skulu hljóta staðfestingu Fjármálaeftirlitsins.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Stjórnarformanni í fjármálafyrirtæki er óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.


42. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal setja reglur, sem staðfestar skulu af Fjármálaeftirlitinu, um viðskipti þess við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn. Samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra er háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Ákvörðun um slíkt skal bókuð og tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um þá sem eru í nánum tengslum við framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis.
     Um viðskipti fjármálafyrirtækis og starfsmanna þess fer samkvæmt reglum sem stjórn fjármálafyrirtækis setur og birtar skulu opinberlega. Skulu þau, eftir því sem kostur er, lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum.

43. gr.

     Á eftir 57. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 57. gr. a og 57. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (57. gr. a.)
Kaupaukakerfi.
     Að teknu tilliti til heildarafkomu fjármálafyrirtækis yfir lengri tíma, undirliggjandi áhættu og fjármagnskostnaðar, er fjármálafyrirtæki heimilt að veita kauprétt eða kaupaukagreiðslur í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur. Áunnin réttindi starfsmanna samkvæmt kaupaukakerfi skulu færð til gjalda á hverju ári eftir því sem reikningsskilareglur heimila og sérstaklega gerð grein fyrir þeim í skýringum með ársreikningi.
     
     b. (57. gr. b.)
Starfslokasamningur.
     Fjármálafyrirtæki er óheimilt að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða lykilstarfsmann nema hagnaður hafi verið af rekstri fyrirtækisins samfellt síðustu þrjú ár starfstíma hans. Með starfslokasamningi í grein þessari er átt við hvers konar samninga sem gerðir eru á milli framkvæmdastjóra eða lykilstarfsmanns annars vegar og fjármálafyrirtækis hins vegar og kunna að færa þeim sem lætur af störfum hlunnindi eða réttindi umfram hefðbundnar launagreiðslur í uppsagnarfresti.
     Hafi hagnaður verið af rekstri fyrirtækisins samfellt síðustu þrjú ár er heimilt að gera starfslokasamninga við þá sem tilgreindir eru í 1. mgr. Slíkir samningar skulu vera í formi beinna launagreiðslna og ekki vara lengur en í 12 mánuði eftir starfslok. Um starfslokasamning sem gerður hefur verið fyrir gildistöku laga þessara en ekki komið til framkvæmda gilda ákvæði greinar þessarar.
     Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd starfslokasamninga. Sérstaklega skal gera grein fyrir slíkum samningum í skýringum með ársreikningi.

44. gr.

     77. gr. laganna fellur brott.

45. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „þessarar greinar“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: laga þessara auk reglugerða og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
 2. 5. mgr. orðast svo:
 3.      Eiginfjárþáttur A telst vera innborgað hlutafé, innborgað stofnfé, varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár, yfirverðsreikningur stofnfjár, endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstafað eigið fé en að frádregnu bókfærðu virði eigin hlutabréfa eða stofnfjárbréfa, viðskiptavild, reiknaðri skattinneign og öðrum óefnislegum eignum, svo og tapi og samþykktri arðsúthlutun. Enn fremur skal taka tillit til hlutdeildar minni hluta í eigin fé dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum. Leiði núvirðing skuldbindinga til myndunar eigin fjár skal draga það eigið fé frá eiginfjárþætti A. Með innborguðu hlutafé eða stofnfé er átt við að greiðsla í peningum (e. cash money) hafi farið fram.
 4. Á eftir 10. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða í reglum að aðrir liðir en þeir sem eru taldir í 5. mgr. dragist frá eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis.


46. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Orðin „1. málsl.“ í 2. mgr. falla brott.


47. gr.

     Við 87. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í ársreikningi skal tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra. Jafnframt skal í ársreikningi tilgreina upplýsingar um heildargreiðslur og hlunnindi lykilstarfsmanna auk upplýsinga um fjölda þeirra.

48. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 90. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skal kjósa til fimm ára á aðalfundi fjármálafyrirtækis. Óheimilt er að kjósa sama endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki fyrr en að fimm árum liðnum frá því að starfstíma skv. 1. málsl. lauk. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. getur fjármálafyrirtæki vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki frá áður en fimm ára kjörtímabili lýkur að fengnu áliti endurskoðendaráðs.
 4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Endurskoðendur félags eiga rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í fjármálafyrirtæki og er skylt að mæta á aðalfundi.


49. gr.

     Orðin „sbr. 2. mgr. 18. gr.“ í 1. mgr. 92. gr. laganna falla brott.

50. gr.

     Við 6. mgr. 102. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú neytir slitastjórn heimildar samkvæmt framansögðu til að greiða kröfur að hluta eða fullu en ekki hefur verið til lykta leiddur ágreiningur um viðurkenningu kröfu, sem þeim gæti staðið jafnfætis í réttindaröð, og skal þá slitastjórn leggja á sérstakan geymslureikning fjárhæð sem svarar til greiðslu á þeirri kröfu eða upp í hana eins og sú greiðsla gæti hæst orðið samkvæmt kröfugerð hlutaðeigandi kröfuhafa. Þegar endanleg niðurstaða hefur fengist um ágreininginn skal innstæða geymslureikningsins ásamt áföllnum vöxtum greidd kröfuhafanum að því leyti sem krafa hans hefur verið viðurkennd, en fé sem eftir kann að standa á reikningnum skal renna aftur til fjármálafyrirtækisins.

51. gr.

     2. mgr. 107. gr. laganna fellur brott.

52. gr.

     110. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
 1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
 2. 8. gr. um tilkynningar um breytingar á áður skráðum upplýsingum um fjármálafyrirtæki,
 3. 1. mgr. 12. gr. um einkarétt fjármálafyrirtækja til að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni heiti þeirrar tegundar fjármálafyrirtækja sem fyrirtækið hefur starfsleyfi fyrir,
 4. 3. mgr. 17. gr. um að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins,
 5. 17. gr. a um skyldu til að halda sérstaka skuldbindingaskrá og upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins,
 6. 2. mgr. 17. gr. b um að eftirlitsskyldur aðili skuli fara að fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins,
 7. 1. og 2. mgr. 19. gr. um að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins og hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði,
 8. 2. mgr. 21. gr. um tilkynningarskyldu um hliðarstarfsemi,
 9. 22. gr. um tímabundna starfsemi og yfirtöku eigna,
 10. 3. mgr. 27. gr. um að rekstrarfélagi sé óheimilt að eignast verðbréf með atkvæðisrétti sem gerir því kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa,
 11. 29. gr. um eignarhald og tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
 12. 1. og 2. mgr. 29. gr. a um bann við lánveitingum eða öðrum fyrirgreiðslum,
 13. 1. og 3. mgr. 30. gr. um takmarkanir á stórum áhættum,
 14. 1. mgr. 31. gr., 32. gr. og 33. gr. um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi,
 15. 1. og 5. mgr. 36. gr., 1. og 4. mgr. 37. gr., 1. mgr. 38. gr. og 39. gr. um starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis,
 16. 40. gr. um tilkynningu um virkan eignarhlut,
 17. 46. gr. a um hömlur á meðferð hlutar,
 18. 47. gr. um tilkynningu eiganda,
 19. 48. gr. um tilkynningu fjármálafyrirtækis,
 20. 49. gr. um upplýsingaskyldu,
 21. 2., 3., 4. og 7. mgr. 52. gr. um hæfisskilyrði, setu stjórnarmanna í stjórn annars fjármálafyrirtækis og tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
 22. 52. gr. b um tilkynningu stjórnar móðurfélags,
 23. 52. gr. c um tilkynningu stjórnar og framkvæmdastjóra til Fjármálaeftirlitsins,
 24. 1. og 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. um hæfisskilyrði starfsmanna fjármálafyrirtækja sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga og tilkynningar um mannabreytingar,
 25. 2. og 3. mgr. 54. gr. um starfsreglur og bann við starfandi stjórnarformanni,
 26. 2. og 3. mgr. 55. gr. um þátttöku stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í meðferð mála,
 27. 56. gr. um þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri,
 28. 57. gr. um starfsreglur,
 29. 57. gr. a um kaupaukakerfi,
 30. 57. gr. b um starfslokasamninga,
 31. 58. gr. um þagnarskyldu,
 32. 3. mgr. 63. gr. um að halda og uppfæra skrá yfir stofnfjáreigendur,
 33. 3. mgr. 66. gr. um að setja og fylgja reglum um viðskipti með stofnfé,
 34. 68. gr. um ráðstöfun arðs,
 35. 2. mgr. 69. gr. um skyldur sparisjóðs,
 36. 3. mgr. 80. gr. um upplýsingaskyldu rafeyrisfyrirtækja,
 37. 81. gr. um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja,
 38. 3. málsl. 7. mgr. 84. gr. um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
 39. 1. mgr. 86. gr. um upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár,
 40. 87. gr. um samningu og undirritun ársreiknings,
 41. 1. mgr. 88. gr. um góða reikningsskilavenju,
 42. 89. gr. um skýrslu stjórnar,
 43. 91. gr. um hæfi endurskoðanda,
 44. 92. gr. um upplýsingaskyldu endurskoðanda,
 45. 95. gr. um skil ársreiknings til Fjármálaeftirlitsins,
 46. 106. gr. um samruna fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess,
 47. 107. gr. um eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins,
 48. sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 111. gr.

     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

53. gr.

     112. gr. b laganna orðast svo:
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
 1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
 2. 2. mgr. 17. gr. b um upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins,
 3. 2. mgr. 19. gr. um að fara að reglum Fjármálaeftirlitsins,
 4. 2. mgr. 21. gr. um tilkynningarskyldu um hliðarstarfsemi,
 5. 22. gr. um tímabundna starfsemi og yfirtöku eigna,
 6. 3. mgr. 27. gr. um að rekstrarfélagi sé óheimilt að eignast verðbréf með atkvæðisrétti sem gerir því kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa,
 7. 29. gr. um eignarhald og tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins,
 8. 1. og 2. mgr. 29. gr. a um bann við lánveitingum eða öðrum fyrirgreiðslum,
 9. 30. gr. um takmarkanir á stórum áhættum,
 10. 1. mgr. 31. gr., 32. gr. og 33. gr. um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi,
 11. 40. gr. um tilkynningu um virkan eignarhlut,
 12. 46. gr. a um hömlur á meðferð hlutar,
 13. 49. gr. um upplýsingaskyldu,
 14. 2. og 3. mgr. 54. gr. um starfsreglur og bann við starfandi stjórnarformanni,
 15. 2. og 3. mgr. 55. gr. um þátttöku stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í meðferð mála,
 16. 56. gr. um þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri,
 17. 1. mgr. 57. gr. um viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtæki,
 18. 57. gr. a um kaupaukakerfi,
 19. 57. gr. b um starfslokasamninga,
 20. 58. gr. um þagnarskyldu,
 21. 68. gr. um ráðstöfun arðs,
 22. 1., 2. og 4. mgr. 81. gr. um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja,
 23. 1. mgr. 86. gr. um upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár,
 24. 87. gr. um samningu og undirritun ársreiknings,
 25. 1. mgr. 88. gr. um góða reikningsskilavenju,
 26. 89. gr. um skýrslu stjórnar,
 27. 91. og 92. gr. um hæfi endurskoðanda og skyldu hans til að tilkynna um ágalla í rekstri.

     Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis eða annað er það varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna sinna.

54. gr.

     Við 117. gr. laganna bætist: tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB.

55. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæðum til bráðabirgða í lögunum:
 1. Ákvæði til bráðabirgða I–IV falla brott.
 2. Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum:
  1. Í stað „2. mgr. 10. gr.“ í 1. tölul. kemur: 3. mgr. 98. gr.
  2. Orðin „sbr. 1. efnismgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 8. gr. laga þessara“ í 2. tölul. falla brott.
  3. Orðin „sbr. 1., 5., 6. og 7. gr. laga þessara“ í 3. tölul. falla brott.
 3. Í stað orðanna „1. júlí 2010“ í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 1. júlí 2011.
 4. Við bætist nýtt ákvæði, svohljóðandi:
 5.      Fjármálafyrirtæki hafa ráðrúm til næsta aðalfundar eftir samþykkt laga þessara til að uppfylla hæfisskilyrði um stjórnarmenn. Framkvæmdastjórar og forstöðumenn innri endurskoðunardeilda hafa ráðrúm til 31. desember 2010 til að uppfylla hæfisskilyrði samkvæmt lögum þessum.


56. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir 48. gr. laga þessara, sbr. 90. gr. laganna, er endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem veitt hefur fjármálafyrirtæki þjónustu sína í þrjú ár eða skemur fyrir gildistöku laga þessara heimilt að veita því félagi þjónustu í fimm ár frá gildistöku. Hafi þjónusta verið veitt lengur en þrjú ár fyrir gildistöku laga þessara er endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki heimilt að veita fjármálafyrirtæki þjónustu í þrjú ár eftir gildistöku laga þessara.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 56. gr. laga þessara öðlast eftirtalin ákvæði gildi sem hér segir:
 1. 2. mgr. 8. gr. (um breyting á 16. gr.) um hæfisskilyrði forstöðumanns innri endurskoðunar tekur gildi 1. janúar 2011.
 2. 10. gr. (um 17. gr. a og 17. gr. b) tekur gildi 1. janúar 2011.
 3. 13. gr. (um 19. gr. a) tekur gildi 1. janúar 2011.
 4. 3. mgr. 39. gr. (um breyting á 52. gr.) um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra tekur gildi 1. júlí 2011.
 5. 4. mgr. 39. gr. (um breyting á 52. gr.) um setu í stjórn annars eftirlitsskylds aðila tekur gildi á næsta aðalfundi í viðkomandi fjármálafyrirtæki og þó eigi síðar en 1. apríl 2011.


III.
     Þrátt fyrir ákvæði 57. gr. a laganna, sbr. a-lið 43. gr. laga þessara, er fjármálafyrirtækjum óheimilt til 1. janúar 2012 að gera samninga við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn sem jafna má til kaupaukasamninga ef slíkir samningar eru umfram 10% af heildarlaunaútgjöldum fjármálafyrirtækisins á ársgrunni eða ef þeir hækka laun einstakra starfsmanna um meira en 25% á ársgrunni umfram heildarlaun viðkomandi án kaupauka.

IV.
     Málshöfðunarfrestir a-, b- og c-liðar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, skulu ekki eiga við um fjármálafyrirtæki sem hefur verið tekið til slitameðferðar eða hefur hlotið eiginfjárframlag úr ríkissjóði, endurskipulagningu skulda með aðkomu ríkissjóðs eða Seðlabanka Íslands eða aðra sambærilega fyrirgreiðslu af hálfu þessara aðila. Sama á við um fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið við ráðum yfir og skipað skilanefnd og naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009.
     Ákvæði þetta tekur til atvika og háttsemi sem gerðust fyrir gildistöku þessara laga jafnvel þótt málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn.

V.
     Við slit á fjármálafyrirtæki sem tekið hefur verið til slitameðferðar og á undir ákvæði til bráðabirgða V í lögunum skal slitastjórn, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., afhenda þeim sem þess óskar eintak kröfuskrár eða birta kröfuskrá með opinberum hætti. Slitastjórn er heimilt að krefjast greiðslu til búsins fyrir kostnaði af gerð eintaksins. Við slíka birtingu skulu þó ekki veittar upplýsingar um nöfn kröfuhafa sem krafist hafa réttarstöðu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

VI.
     Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2010.