Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1411, 138. löggjafarþing 506. mál: tekjuskattur (ívilnun vegna endurbóta og viðhalds íbúðarhúsnæðis).
Lög nr. 92 25. júní 2010.

Lög um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (ívilnun vegna endurbóta og viðhalds).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012 heimilast til frádráttar tekjuskattsstofni skv. 1. tölul. og a-lið 3. tölul. 61. gr. 50% af þeirri fjárhæð sem greidd er vegna vinnu án virðisaukaskatts sem unnin er á árunum 2010 og 2011, að hámarki 200.000 kr. hjá einstaklingi og 300.000 kr. hjá hjónum og samsköttuðum, vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota. Heimild þessi tekur einnig til viðhalds og endurbóta á útleigðu íbúðarhúsnæði utan atvinnurekstrar að teknu tilliti til þeirrar frádráttarheimildar sem gildir samtals um þá vinnu sem greitt er fyrir innan ársins vegna framangreindra framkvæmda. Frádráttur hjóna og samskattaðra einstaklinga skal koma til lækkunar hjá þeim sem hærri hefur tekjuskattsstofninn.
     Frádráttur skv. 1. mgr. er háður því skilyrði að staðin hafi verið skil á fullgildum reikningum vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af sama tilefni þar sem vinnuþáttur er samtals að lágmarki 50.000 kr., sbr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Þá skal skila launamiðum eða öðrum gögnum á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður. Sækja þarf um frádráttinn samhliða umsókn um endurgreiðslu á virðisaukaskatti á þar til gerðu eyðublaði ríkisskattstjóra innan hvers árs fyrir sig og í síðasta lagi fyrir 1. febrúar árið 2011 vegna tekjuársins 2010 og 1. febrúar árið 2012 vegna tekjuársins 2011. Frádrátturinn ákvarðast og afmarkast við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010 og álagningu 2012 vegna tekjuársins 2011, sbr. 98. gr., sbr. og 99. gr. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og framkvæmd frádráttar samkvæmt þessu ákvæði, m.a. um sundurliðun frádráttar vegna vinnu sem greidd er af húsfélögum vegna sameiginlegs viðhalds eigenda á íbúðarhúsnæði í fjöleignarhúsum og um frádrátt eigenda íbúðarhúsnæðis sem leigt er út utan atvinnurekstrar.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. júní 2010.