Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1493, 138. löggjafarþing 585. mál: útlendingar (þátttaka í samstarfi á ytri landamærum, framfærsla o.fl.).
Lög nr. 114 20. september 2010.

Lög um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingum (Schengen, framfærsla o.fl.).


1. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Dómsmálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari reglur um þátttöku Íslands í sjóðum, stofnunum og verklegu samstarfi í tengslum við samvinnu á ytri landamærum á grundvelli skuldbindinga samkvæmt samningi sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999 um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

2. gr.

     Í stað 4. og 5. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.

3. gr.

     C-liður 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Útlendingur sýnir fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti. Útlendingastofnun er m.a. heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef framfærsla hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

4. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo: Sama gildir um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi, EES-útlendings sem hefur skráð sig hér á landi skv. VI. kafla eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalið hér á landi lengur en þrjá mánuði.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. september 2010.