Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 249, 139. löggjafarþing 212. mál: fjármálafyrirtæki (ákvæði um slitameðferð og gjaldþrotaskipti).
Lög nr. 132 16. nóvember 2010.

Lög um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.


1. gr.

     4. mgr. 103. gr. laganna orðast svo:
     Ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu má krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. sömu laga skal vera 24 mánuðir í stað sex mánaða.

2. gr.

     2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum orðast svo: Við greiðslustöðvunina skal beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laganna, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lög nr. 44/2009 öðluðust gildi, en slitameðferðin skal þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild stendur, sbr. 1. tölul. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um slíka greiðslustöðvun sem hér um ræðir, en þó skal aðstoðarmaður hafa eftirlit með ráðstöfunum skilanefndar skv. 103. gr. laganna. Áður en heimild fyrirtækisins til greiðslustöðvunar rennur út geta skilanefnd og slitastjórn sameiginlega gert kröfu um að fyrirtækið verði tekið til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul., með dómsúrskurði, enda séu uppfyllt efnisskilyrði 3. tölul. 2. mgr. 101. gr. laganna. Slík krafa skal í síðasta lagi lögð fram á þeim degi er heimild fyrirtækisins til greiðslustöðvunar rennur út. Um meðferð slíkrar kröfu fer að öðru leyti eftir 3. mgr. 101. gr. laganna. Fallist dómur á kröfuna skal það standa óraskað sem gert hefur verið í greiðslustöðvun fyrirtækisins eftir gildistöku laga nr. 44/2009. Að því leyti sem rétthæð krafna og önnur réttaráhrif ráðast almennt af þeim degi er úrskurður um slitameðferð gengur skal á sama hátt miða við gildistökudag þeirra laga. Frá því að beiðni um slitameðferð eftir almennum reglum berst dómara og þar til endanlegur úrskurður er kveðinn upp gilda reglur um slitameðferð til bráðabirgða um fyrirtækið. Heimild til greiðslustöðvunar lýkur sjálfkrafa þegar endanlegur úrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slitameðferðar er kveðinn upp.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. nóvember 2010.