Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1352, 139. löggjafarþing 333. mál: efni og efnablöndur og eiturefni og hættuleg efni (EES-reglur, flokkun, merking og umbúðir).
Lög nr. 43 10. maí 2011.

Lög um breytingu á lögum um efni og efnablöndur og lögum um eiturefni og hættuleg efni.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur.

1. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, er orðast svo:
Flokkun efna og efnablandna og tilkynningar.
     Áður en efni og efnablanda er sett á markað skulu framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi, með samvinnu sín á milli, flokka efni og efnablöndu með tilliti til hættu fyrir umhverfi og heilsu, svo og eðlisrænnar hættu.
     Framleiðandi eða innflytjandi skal tilkynna hættuflokkun efnis eða einstakra innihaldsefna í efnablöndu til Efnastofnunar Evrópu innan 30 daga frá markaðssetningu.
     Framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi skulu láta fara fram mat sem lagt er til grundvallar við hættuflokkun efnis eða efnablöndu. Slíkt mat skal fara fram á grundvelli fyrirliggjandi og aðgengilegra gagna um viðkomandi efni. Ef þörf er á skulu framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi afla nauðsynlegra gagna í samræmi við prófunaraðferðir sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
     Framleiðandi, innflytjandi eða eftirnotandi skal á grundvelli nýrra upplýsinga eða endurmats á fyrirliggjandi upplýsingum breyta áðurgerðri flokkun sé þess þörf.
     Birgi er skylt að varðveita og hafa til reiðu gögn sem tengjast flokkun og merkingu samkvæmt lögum þessum í a.m.k. 10 ár eftir að hann afhenti efnið eða efnablönduna síðast.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hættuflokkun efna og efnablandna og mat til grundvallar hættuflokkun.

2. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, er orðast svo:
Merkingar og umbúðir.
     Birgir skal tryggja að efni og efnablöndur sem tilbúnar eru til notkunar séu merktar í samræmi við hættuflokkun þeirra. Umbúðir skulu merktar með nafni, heimilisfangi og símanúmeri birgis, magni efnis og efnablöndu, hættusetningum, varnaðarsetningum, viðvörunarorðum og hættumerkjum. Texti merkinganna skal vera á íslensku nema kveðið sé á um annað í reglugerð sem ráðherra setur.
     Birgir skal tryggja að umbúðir efna og efnablandna séu traustar, ólekar og nægilega öruggar til að varðveita vöruna án þess að skemmdir verði á umbúðum eða innihaldi þeirra við eðlilega meðhöndlun. Jafnframt skal hann tryggja að umbúðir efna og efnablandna, sem ætlaðar eru til dreifingar á almennum markaði, séu hvorki þannig að formi né útliti að þær veki forvitni og athygli barna eða svo að villast megi á þeim og umbúðum undir matvæli, fóður, lyf eða snyrtivörur.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um merkingar, m.a. um tungumál, stærð og gerð umbúða og upplýsingar á merkimiða.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
  1. A-liður orðast svo: Efnið hefur verið flokkað í samræmi við 5. gr. a og samkvæmt þeirri flokkun veldur það eðlisrænni hættu, heilbrigðishættu eða umhverfishættu.
  2. B-liður orðast svo: Efnið er þrávirkt, safnast fyrir í lífverum og er eitrað samkvæmt nánari viðmiðum sem sett eru í reglugerð.


4. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, er orðast svo:
Auglýsingar.
     Í öllum auglýsingum um efni, hvort sem um er að ræða beinar eða óbeinar auglýsingar, skulu koma fram upplýsingar um hættuflokkun þeirra. Sömu upplýsingar skulu fylgja efnablöndum sem eru flokkaðar sem hættulegar eða innihalda hættuleg efni.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. a og 6. gr. a skulu ákvæði er varða flokkun, merkingu og umbúðir efnablandna ekki taka gildi fyrr en 1. júní 2015.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

6. gr.

     1. og 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Eiturefni er samkvæmt lögum þessum hættulegt efni sem í litlu magni veldur dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð.
     Hættulegt efni er efni sem getur valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð, er eldnærandi, eld- eða sprengifimt eða getur valdið tjóni á umhverfi.

7. gr.

     2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 20. gr. laganna falla brott.

8. gr.

     Tilvísunin „sbr. 13. gr.“ í 2. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Fram til 1. júní 2015 skal eftirfarandi gilda um flokkun efna og efnablandna og merkingu og umbúðir efnablandna:
  1. Framleiðandi, innflytjandi eða umboðsaðili eiturefna og hættulegra efna auk efnavara eða efnablandna sem innihalda slík efni skal afla upplýsinga um áhrif þeirra. Á grundvelli þeirra upplýsinga skal hann síðan til 1. júní 2015 tilgreina flokkun og merkja viðkomandi efni, efnablöndu og vöru samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.
  2. Efnablöndur skal láta úti og selja í sterkum og velluktum ílátum. Ílátin skulu vera þannig útlits eða svo greinilega auðkennd að ekki verði villst á þeim og ílátum sem eru notuð undir lyf, matvæli og aðrar neysluvörur, fóðurvörur, fegrunar- eða snyrtiefni eða önnur efni. Ílátin skulu vera greinilega merkt. Á ílátum skal geta innihalds og á ílátum og ystu umbúðum um eiturefni og hættuleg efni skulu vera viðeigandi hættumerki. Á ílátunum skulu enn fremur vera varnaðarorð á íslensku. Skulu merkingar vera hliðstæðar því sem tíðkast í nálægum löndum, svo sem kostur er.
  3. Efnablöndur skal varðveita í umbúðum seljenda eða öðrum umbúðum jafntryggum.
  4. Heimilt er að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar að kveða á um mat á eiturhrifum og notagildi varnings er hefur tiltekin lífræn leysiefni að geyma og flokkast sem hættuleg efni. Skal þá hlíta nánari ákvæðum um sölu og notkun varningsins eða banni við notkun hans í samræmi við reglugerðir um notkun og bann við notkun eiturefna og hættulegra efna, sbr. 18. gr.


III. KAFLI
Innleiðing og gildistaka.

10. gr.

Innleiðing á reglugerð.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu ákvæða í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1272/2008 frá 16. desember 2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna, um breytingu og niðurfellingu á tilskipunum 67/548/EBE og 1999/45/EB og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1907/2006.

11. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Reglugerðir settar samkvæmt ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær brjóta ekki í bága við ákvæði þessara laga.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 2011.